Dagskráin 5. febrúar - 12. febrúar Tbl 5
Listasafnið á Akureyri: Þriðjudagsfyrirlestur – Bergur Þór Ingólfsson
Þriðjudaginn 11. febrúar kl. 17-17.40 heldur Bergur Þór Ingólfsson, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Sagnadýrið. Í fyrirlestrinum mun hann fjalla um mikilvægi leikhússins í nútímasamfélagi þar sem varpað er fram fullyrðingunni „Manneskjan þarf á sögum að halda til jafns við mat og drykk, annars veslast hún upp og deyr“. Aðgangur er ókeypis.
Bergur Þór Ingólfsson útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands 1995 og starfaði í kjölfarið sem leikari við Þjóðleikhúsið, en flutti sig yfir í Borgarleikhúsið um aldamótin þar sem hann lék, leikstýrði og skrifaði leikrit til 2024.
Bergur hefur verið afkastamikill í íslensku leikhúsi. Ásamt því að vera í fullu starfi við stærstu leikhús landsins hefur hann verið driffjöður í leikhópnum Gral og leikstýrt sýningum í New York og Noregi. Leikrit sem hann hefur skrifað einn eða með öðrum hafa fengið ýmsar viðurkenningar og má þar nefna Dauðasyndirnar, Jésú litla, 21 manns saknað, Hamlet litla og Horn á höfði. Meðal hlutverka sem hann hefur leikið eru Marta Smart í Chicago, Andy Fastow í Enron, Heródes í Jesus Christ Superstar og Dante í Dauðasyndunum. Af fjölmörgum leikstjórnarverkefnum hans má nefna Kenneth Mána, Auglýsingu ársins, 1984, Mary Poppins og Bláa hnöttinn.
Bergur hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín, þar á meðal yfir fimmtán tilnefningar til Íslensku leiklistarverðlaunanna, alþjóðlegu menningarsamtökin Ibby hafa heiðrað hann fyrir störf sín í þágu barna og 2017 hlaut hann húmanistaviðurkenningu Siðmenntar ásamt félögum sínum. Bergur tók við leikhússtjórastöðu hjá Leikfélagi Akureyrar í júní 2024 og hefur þar leikstýrt verkunum Litla hryllingsbúðin og Jóla Lóla.
Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistafélagsins og Gilfélagsins. Aðrir fyrirlesarar vetrarins eru Kate Hiena, myndlistarkona, Þórgunnur Þórsdóttir, listakona, Angelika Haak, myndlistarkona, Brynja Baldursdóttir, myndlistarkona, auk fulltrúa Myndlistarfélagsins.