Dagskráin 5. febrúar - 12. febrúar Tbl 5
Stórkostlegt þegar fólk óhlýðnast kvíðanum og tekur af honum valdið
![Anna Sigga Jökuls Ragnheiðardóttir yfirsálfræðingur hjá Heilsu-og sálfræðiþjónustunni og sérfræðingu…](/static/news/lg/anna-sigga-img_9558.jpg)
„Ég ákvað 14 ára að verða sálfræðingur,“ segir Anna Sigga Jökuls Ragnheiðardóttir sem tók við stöðu yfirsálfræðings hjá Heilsu-og sálfræðiþjónustunni á Akureyri um áramót. Man ekki alveg nákvæmlega af hverju hún var svona staðráðin í því en er ánægð með þessa þrjósku í dag og hafa haldið ákvörðuninni til streitu.Hún er Akureyringur að upplagi, flutti heim á ný þegar henni bauðst að taka við stöðunni. Flutningur norður hafði verið á döfinni um skeið en ekki af honum orðið. Það sem ef til vill gerði útslagið var að yngsti sonur hennar, Víðir Jökull skrifaði undir samning við knattspyrnudeild Þórs þar sem hann er nú markmaður.
Anna Sigga ólst upp í Glerárhverfi og gekk í Glerárskóla. Hún fór bæði í Menntaskólann á Akureyri og Verkmenntaskólann á Akureyri og beið þolinmóð eftir að kennsla í sálfræði hæfist við Háskólann á Akureyri. „Ég hafði svo ekki þolinmæðina til að bíða og stökk af stað til Reykjavíkur, innritaði mig í sálfræði í Háskóla Íslands og hóf námið,” segir hún.
Prófaðu áfram
Á þeim tíma átti hún tvo unga syni sem urðu eftir fyrir norðan hjá pabba sínum. Fjarnám var ekki í boði og því stóð valið eiginlega um að hrökkva eða stökkva. „Ég ákvað að henda mér í þetta en viðurkenni fúslega að þetta var strembið, mér fannst erfitt að hafa alla fjölskylduna fyrir norðan meðan ég var ein í Reykjavík. Það fór því svo að ég sagði við kennara við deildina þegar fyrstu önn var lokið og ég á leið heim í jólafrí, að líkast til kæmi ég ekki aftur, ég yrði að geyma námið til betri tíma.“
Kennarinn hvatti hana eindregið til að gefast ekki upp, „prófaðu áfram,“sagði hún og það var það sem Anna Sigga gerði, hún hélt heim og las og las og las um veturinn, fór svo suður og tók prófin um vorið. „Ég ákvað að gera þess tilraun og mér til mikillar ánægju gekk hún upp. Þannig gekk þetta fyrir sig allt til ársins 2004 þegar ég útskrifaðist með BA-próf í sálfræði,“segir hún.
Að námi loknu tók hún að sér starf á Grenivík, þar starfaði hún fyrir sveitarfélagið, Grýtubakkahrepp um fjögurra ára skeið, frá 2004 til 2008 þegar hún pakkaði saman á ný og hélt suður til framhaldsnáms í sálfræði. Hún fór með yngsta son sinn sem þá var kornungur, en eldri drengirnir voru í framhaldsskóla fyrir norðan.
Nýkomin suður þegar hrunið varð
„Ég var nýkomin suður þegar hrunið varð,“ segir Anna Sigga og rifjar upp að eftir að hafa hlustað á forsætisráðherra blessa þjóðina ásamt samnemendum fór hún heim í strætó með heljar stóra skjalatösku með greindarprófi til að æfa yfir helgina. „Það var mikið horft á töskuna. Þetta leit út eins og ég hafi rétt náð að tæma bankahólfið og farið svo heim með strætó,“ segir hún. Þrátt fyrir hrunið og að mikið hefði gengið á í þjóðfélaginu gekk lífið ágætlega hjá þeim mæðginum og námið sóttist vel. Hún lauk Cand. Psych prófi frá HÍ 2010 og starfaði sem sálfræðingur á höfuðborgarsvæðinu næstu árin.
Árið 2019 útskifaðist Anna Sigga svo úr sérfræðinámi við sama skóla og hlaut í kjölfar nafnbótina sérfræðingur í klínískri sálfræði fullorðinna. Einnig hefur hún lokið fyrsta stigi í EMDR áfallamiðaðri meðferð.
Anna Sigga starfaði fyrst hjá skólaþjónustu Mosfellsbæjar, tók síðan við starfi við öldrunardeildir Landspítalans en hefur nú starfað um árabil við Kvíðameðferðarstöðina. Hún mun áfram sinna þar hlutastarfi, en hún hefur meðal annars verið í áráttu- og þráhyggjuteymi sem hún verður í áfram. Sama á við um hlutastarf hjá Alzheimersamtökunum sem hún sinnir áfram auk þess sem hún sinnir stundakennslu við HÍ.
Hnitmiðuð meðferð
Hjá Kvíðameðferðarstöðinni hefur markvisst verið unnið að því að byggja upp meðferð og segir Anna Sigga að vel hafi tekist upp. Sem dæmi varðandi það að bjóða upp á hnitmiðaða og þétta meðferð sem stendur yfir samfleitt í þrjá til fjóra daga þar sem markvisst er unnið með vandann allan tímann. Slíkt fyrirkomulag hafi gefist vel og skilað mjög góðum árangri. „Það gengur oft betur að hafa þetta með þessum hætti fremur en að draga úrvinnsluna yfir langan tíma,“ segir hún.
Að glíma við kvíða
Allir finna kvíðatilfinningu af og til. Við erum öll með óttaviðbragð, verðum kvíðin eða finnum fyrir stressi,” segir hún og að það sé nauðsynylegt að forðast hættur og lifa af. Það sé eðlilegt að finna fyrir kvíða yfir ýmsum aðstæðum. Þegar kvíðinn aftur á móti er til staðar þegar enginn eða lítil hætta er á ferðum getur hann farið að stjórna lífi okkar full mikið og Anna Sigga segir að við það verði til vítahringir sem erfitt sé að rjúfa.Viðbrögð okkar við kvíðanum eru oft ógagnleg og hamlandi. Ákvarðanir okkar fara að byggjast á kvíða og valda forðun og flótta, í stað þess að byggjast á löngun og áhuga. Þannig dregur hann úr lífsgæðum og minnkar reynsluheim fólks að óþörfu.
Góðar og gagnlegar aðferðir til
„Sem betur fer eigum við góðar og gagnlegar aðferðir til að takast á við kvíðavanda og ég hvet fólk eindregið til að leita aðstoðar hjá fólki sem hefur menntun og þjálfun til að takast á við kvíðavanda. Flestum gagnast að læra nokkur grundvallaratriði varðandi kvíða, en stundum verður vandinn það umfangsmikill að mikilvægt er að bregðast við svo lífið fari ekki að einkennast af óöryggi og kvíða. Þegar fólk lærir aðferðirnar og þjálfast í að nota þær nær það að gera meira og lífsgæðin aukast.
„Það er ótrúlega gefandi starf að fá að fylgjast með fólki komast út úr vítahringjum og auka lífsgæði sín. Það er í raun stórkostlegt að verða vitni að því þegar fólk byrjar að óhlýðnast kvíðanum og tekur valdið þannig af honum“ segir Anna Sigga.