Þankar gamals Eyrarpúka

Frá hátíðarhöldunum 17da júnin1944    Mynd Níels Halldórsson
Frá hátíðarhöldunum 17da júnin1944 Mynd Níels Halldórsson

Sannarlega gerði ykkar einlægur sér ekki fulla grein fyrir mikilvægi dagsins þegar ég, tæplega eins árs, var í fylgd foreldra minna á Ráðhústorgi Akureyrar þann 17. júní árið 1944. Þar var saman kominn múgur manns í sínu fínasta pússi og allir virtust glaðir og kátir.  Íslenski fáninn blakti á mörgum stöngum í sunnan golunni, lúðrasveit spilaði af öllum lífs og sálar kröftum og karlakórar sungu ættjarðarsöngva.  

Sjálfur var ég uppteknari af því hvað mamma mín var komin með stóra bumbu sem benti til að hún hefði borðað heldur mikið undanfarið. Sem ég starði á hana var ég upplýstur um að bumban sú arna væri vegna þess að lítill bróðir eða systir væri að vaxa innan í henni og kæmi bráðlega til okkar. Þetta þóttu mér töluverð tíðindi því hingað til hafði verið fullyrt að ljósmæðurnar kæmu með börnin í töskunni sinni. En svo kom Árni bróðir til okkar um haustið öllum til mikillar gleði og ekki minnkaði fjörið á heimilinu við það. 

En aftur að samkomunni þennan merka dag því aðra eins gleði hafði ég ekki upplifað á minni stuttu ævi.  Fagnaðarlætin tengdust því að við vorum að rífa okkur undan valdi annarrar þjóðar sem sjálf var á þessum tíma hersetin af grimmasta stórveldi sem sögur fara af og réði í raun hvorki sér né öðrum.  Í ljósi þess þótti mér öll þessi sigurgleði nokkuð undarleg en lét kyrrt liggja enda ekki enn fær að tjá mig um hin flóknari málefni.

Svo liðu árin og áfram var haldið uppá 17. júní með því að safnast saman við Ráðhústorg og fara þaðan í skrúðgöngu suður og upp Kaupfélagsgilið undir taktföstum blæstri lúðrasveitarinnar. Fánaberar héldu íslensku fánunum hátt á lofti sem blöktu upp Eyrarlandsveginn,  vestur eftir Hrafnagilsstrætinu og þaðan inn á hátíðarsvæðið fyrir sunnan sundlaugina. Þar stóð heljarmikill pallur sem var skrýddur fánum og blómum upp og niður. Mannfjöldinn raðaði sér fyrir framan og léttklæddar stúlkur sýndu vel æfðar leikfimiæfingar af miklum þokka. Stæðilegir fimleikapiltar steyptu sér og gerðu ótrúlegustu kúnstir svo ég saup hveljur af aðdáun. Þetta vildi ég gera þegar ég yrði stór!

Þegar Kantötukórinn söng af mikilli list á pallinum góða var mér mjög starsýnt á stjórnandann Björgvin Guðmundsson því ég hafði heyrt að hann væri tónskáld. Slíkt skáld hafði ég aldrei augum litið en taldi stappa nærri göldrum að geta búð til lög sem fólk söng af hjartans list og lögin hans hljómuðu jafnvel stundum í útvarpinu. Svona leit þá tónskáld út, þéttur á velli, myndarlegur og stjórnaði af mikilli ákveðni og festu. Myndin af Björgvin þarna á pallinum er enn föst í minni mínu og hef ég síðan tengt hana fögrum söng og annarri göfugri hljómlist.

Svona liðu 17. júní dagarnir þessi árin á túninu sunnan við sundlaugina. Þegar kvöldaði var svo stiginn dans í góðu veðri á pallinum en væru veðurguðirnir með leiðindi voru böllin færð í skjól niður í Gúttó.  Allt er þetta eins og fallegt ævintýri í minningunni og heldur við þeirri bjargföstu trú að fortíðin taki nútímanum oftast töluvert fram!

Ingólfur Sverrisson   

Nýjast