Pharmarctica á Grenivík Viðbótarhúsnæði tekið í notkun
„Þetta verður mikil og jákvæð breyting, aðstaðan er mun rýmri en áður og betri á allan hátt,“ segir Sigurbjörn Þór Jakobsson framkvæmdastjóri Pharmarctica á Grenivík en á morgun laugardag verður opið hús hjá fyrirtækinu frá kl 14 þar sem gestir og gangandi geta skoða nýja og glæsilega aðstöðu fyrirtækisins við Lundsbraut.
„Nýtt húsnæði er gríðarleg bót fyrir okkur hvað aðstöðuna varðar og ekki nokkur vafi á því að Pharmarctica mun halda áfram að eflast bæði sem lyfja-, fæðubótarefna-, lækningartækja-og snyrtivöruframleiðandi. Við teljum okkur góðan kost fyrir vörumerkjaeigendur þegar litið er til bæði umhverfis- og gæðamála,“ segir Sigurbjörn.
Sigurbjörn Þór Jakobsson framkvæmdastjóri Pharmarctica á Grenivík
Úr 200 fermetrum í 2000
Félagið var á fyrstu árum sínum í rekstri í 200 fermetra húsnæði. Viðbótarbygging var tekin í notkun árið 2014 og hafði fyrirtækið þá 560 fermetra til umráða. Undanfarin misseri hefur verið byggt nýtt 1.500 fermetra hús til viðbótar sem tekið var í notkun fyrir skemmstu. „Við erum komin í ríflega 2000 fermetra með okkar starfsemi og það fer vel um okkur. Við sjáum fram á að geta tekið að okkur aukin verkefni í samvinnu við okkar viðskiptavini sem og að fá nýja viðskiptavini til liðs við okkur. Eins sjáum við færi á að þjónusta erlenda vörumerkjaeigendur og að því verður unnið á næstu mánuðum,“ segir Sigurbjörn.
Alls starfa um 17 manns hjá fyrirtækinu um þessar mundir en hann segir að þegar allt verður komið á fullt megi gera ráð fyrir að starfsmannafjöldi verði um 25 í allt.
Mikil þekking byggst upp um árin
„Við erum leiðandi framleiðslu- og þjónustufyrirtæki í verktakavinnu fyrir einstaklinga og fyrirtæki, en við sérhæfum okkur í framleiðslu á snyrtivörum, fæðubótarefnum, hár- og líkamssápum, smyrslum, mixtúrum og sótthreinsandi lausnum,“ segir Sigurbjörn.
Saga félagins nær til ríflega tuttugu ára, til ársins 2002 þegar það var stofnað en eiginleg framleiðsla hófst ári síðar. Félagið fékk leyfi til lyfjaframleiðslu árið 2005 og hóf í kjölfarið framleiðslu á þeim. Framleiðsla lyfja hefur alla tíð verið stór hluti af starfsemi félagins. Hið sama má segja um fæðubótarefni, en undanfarin ár hefur umtalsvert magn verið unnið hjá félaginu. Fyrst var um að ræða töfluslátt en seinna meir var fjárfest í hylkjunarbúnaði og framleiðsla á fæðubótarefnum í hylkjum hófst árið 2017
„Það hefur byggst upp mikil og góð þekking á þessum árum innan fyrirtækisins sem býr yfir miklum mannauði og þá höfum við góðan tækjabúnað sem gerir okkur kleift að veita breiða þjónustu til annarra fyrirtækja og stofnana.“