Nýársávarp 1. janúar 2025 Katrín Sigurjónsdóttir

Enn er liðinn einn dagur

Og brátt annar tekur við

Sitjum hér, hlið við hlið

Horfum veginn fram á við

 

Þetta er kvöld til að þakka

Fyrir það sem liðið er

Allt það besta í þér

Sem þú gefið hefur mér

Gleðilegt ár.

Áramót. Horft er til baka, hugsað fram á við. Hvað stóð upp úr á liðnu ári? Hvað mun nýja árið bera í skauti sér?

Að baki er viðburðaríkt ár á Íslandi í mörgu tilliti, kosningaár með biskupskjöri, forsetakosningum og alþingiskosningum. Konur hafa verið áberandi og eru leiðandi eftir þessi kjör. Það er mikil breyting á hálfri öld og gott að við erum komin á þann stað að kyn skiptir ekki máli heldur gæðin í einstaklingunum sem gefa kost á sér til starfa.

Eldgos og jarðhræringar höfðu mikil áhrif á líf fólks á Reykjanesskaga síðasta rúma árið og ástandið oft ótryggt. Varnargarðar sönnuðu hlutverk sitt og vel hefur tekist að verja helstu innviði á svæðinu. Mannskepnan verður lítil þegar náttúruöflin láta til sín taka, við búum á eldfjallaeyju og þurfum að vera við öllu viðbúin.

Í Norðurþingi var árið að mörgu leyti gott og margt um að vera. Íbúum fjölgaði um 40 manns, lóðum var úthlutað undir ný atvinnutækifæri. PCC keyrði á fullum afköstum fram í desember, GPG hélt uppi fiskvinnslunni og styrkti stöðu sína, nóg var að gera hjá verktökum og mikil uppbygging t.a.m. í fiskeldi í Öxarfirði. Við horfðum líka á eftir rótgrónum fyrirtækjum eins og Heimabakaríi, vonandi sér einhver tækifæri í að hefja þar starfsemi á ný.

Ferðamenn voru duglegir að sækja okkur heim. Alls komu 50 skemmtiferðaskip til Húsavíkur og hátt í 60 skip eru bókuð á næsta ári, einnig 3 bókuð til Raufarhafnar. Aukningu í bókunum má m.a. þakka frábæru kynningarstarfi og samningi Hafnasjóðs við Húsavíkurstofu. Rúmlega 112 þúsund manns fóru í siglingu með þremur fyrirtækjum sem halda úti hvalaskoðun á Skjálfandaflóa, það er sannarlega líflegt á miðhafnarsvæðinu á björtum sumardögum. Sjóböðin draga að fjölda ferðamanna og svo eigum við einn fallegasta 9 holu golfvöll á landinu með glæsilegu nýju vallarhúsi. Við eigum einstakar náttúruperlur í Norðurþingi og þúsundir ferðamanna sækja norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs heim á ári hverju.

Íþróttalífið var í miklum blóma á árinu. Í fótbolta náðu meistaraflokkar Völsungs frábærum árangri. Karlaliðið fór upp í Lengjudeildina og kvennaliðið var í toppbaráttu fram í lokaleik, endaði í 3. sæti í sinni deild. Sæti í Lengjudeild þýðir nauðsynlegar og tímabærar framkvæmdir við PCC völlinn þar sem verður skipt um gervigras og sett ný stúka fyrir næsta vor. Blakfólkið okkar er í fremstu röð á landsvísu, unglingaliðin með marga titla og keppendur í U-landsliðum. Bæði meistaraflokksliðin spila í efstu deild og það er mikil stemming í Íþróttahöllinni á blakleikjum. Íþróttafélagið Þingeyingur í Öxarfirði hefur heldur betur sett mark sitt á síðasta ár. Nú er boðið upp á fjölbreyttar æfingar fyrir börn og unglinga í fimm íþróttagreinum Þar er samvinna við Öxarfjarðarskóla um æfingar á skólatíma. Hér er aðeins fátt eitt tínt til og rétt að enda þessa upptalningu á nýstofnaðri Píludeild Völsungs sem hefur byggt upp flotta aðstöðu í kjallara Sundlaugarinnar á Húsavík, píla er vinsæl íþrótt sem allir geta stundað.

Í Norðurþingi er mikið og gott menningarlíf. Menningarmiðstöðin rekur Safnahúsið og Byggðasafnið að Snartarstöðum og voru fjölbreyttar sýningar á báðum stöðum. Skálmöld hélt risatónleika í Heimskautsgerðinu, viðburður sem mun aldrei gleymast þeim sem mættu. Settar voru upp sýningar í Samkomuhúsinu, af Leikfélaginu, Piramus og Þispa og 10.bekk. Tónlistarhátíðin HnoðRi um páskana, Tónasmiðjan með þrenna tónleika á árinu, Tónlistarskóli Húsavíkur með blómlega starfsemi, fjölbreytt kórastarf og svona væri hægt að telja lengi áfram. Hættulegt að byrja því það er eiginlega hvergi hægt að enda. Allir finna eitthvað við sitt hæfi.

Á næsta ári er stærsta einstaka framkvæmd sveitarfélagsins nýbygging við Borgarhólsskóla undir frístund og félagsmiðstöð en útboð er fyrirhugað í febrúar áætlað að verkið taki rúm 2 ár. Það hafa verið tíð fundahöld vegna uppbyggingar hjúkrunarheimilisins á Húsavík, gömul saga og ný. Í júli var skrifað undir samning um að fara leiguleið og nú er unnið að því að koma verkinu í útboð. Einnig hefur verið hreyfing á málum græns iðngarðs á Bakka, búið er að úthluta einni lóð og vonandi skila fleiri atvinnutækifæri sér á komandi mánuðum.

Húsavíkurgjafabréfin hafa notið vaxandi vinsælda sem jólagjöf. Með kaupum á þeim styrkjum við þingeyska hagkerfið en fyrirtæki víðs vegar á svæðinu taka á móti gjafabréfunum. Heimafólk og fyrirtæki eru dugleg að styrkja Velferðasjóð Þingeyinga. Sjóðurinn er líknarsjóður, byggir eingöngu á frjálsum framlögum og styður við þá sem minna mega sín í Þingeyjarsýslum.

Samheldnin í samfélaginu er mikil þegar á reynir. Um miðjan desember voru haldnir tvennir tónleikar til styrktar fjölskyldu þar sem móðir og sonur lentu í alvarlegu bílslysi í október. Keldhverfungar lögðust á eitt og fólk úr öllu samfélaginu mætti í Skúlagarð til að njóta samveru og sýna samstöðu. Virkilega hjartnæmt kvöld þar sem lífinu og kraftaverkum var fagnað. Á svona stundum er gott að búa í samfélagi þar sem fólk þekkist vel og er annt um náungann. Við kvöddum líka mæta Þingeyinga á árinu, fólk sem lagði mikið til samfélagsins. Við minnumst þeirra með þakklæti og hlýju.

Aðeins á persónulegu nótunum að lokum. Síðustu tvö og hálft ár á Húsavík og í Norðurþingi hafa verið einstök og gaman að kynnast nýju samfélagi og nýju fólki. Það er mjög gaman í vinnunni hjá sveitarfélaginu og starfsemin fjölbreytt, tækifærin í Norðurþingi eru alls staðar. Vinnufélagarnir eru mikið fagfólk, skemmtilegt og vel að sér í málefnum sveitarfélagsins. Hér er líka mikil pólitík og mjög hæfir kjörnir fulltrúar sem bera hag sveitarfélagsins og íbúa þess fyrir brjósti. Við eigum góða nágranna og búum við göngustígakerfið í fallegu skógrækt Húsavíkur. Ég söngla með kirkjukórnum, frábær félagsskapur. Við keyptum fjárhús við Lækjargil og Haukur stússast í kringum kindurnar og tekur þátt í samfélagi fjárbænda á svæðinu. Við erum ákaflega hamingjusöm með lífið og tilveruna hér.

Ég óska íbúum Norðurþings og lesendum Vikublaðsins heilla, hamingju og velfarnaðar á komandi ári.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri í Norðurþingi.

Nýjast