Nemendur í VMA gera það gott í Voice Ísland
Ekki verður annað sagt en að nemendur í Verkmenntaskólanum á Akureyri geri það gott í sjónvarpsþættinum Voice Ísland í Sjónvarpi Símans. Þrír VMA-nemar eru komnir áfram í keppninni, Elísa Ýrr Erlendsdóttir, Sindri Snær Konráðsson og Valgerður Þorsteinsdóttir. Elísa Ýrr er í liði Unnsteins Manúels Stefánssonar, Valgerður í liði Svölu Björgvinsdóttur og Sindri Snær í liði Helga Björnssonar. Þetta kemur fram á vef VMA. Öll hafa þau Elísa Ýrr, Sindri Snær og Valgerður látið að sér kveða í bæði söng- og leiklistarlífinu í VMA.
Elísa Ýrr sigraði bæði Söngkeppni VMA í febrúar sl. og Söngkeppni framhaldsskólanna á Norður- og Austurlandi sl. vor í Hofi. Sindri Snær hefur bæði látið að sér kveða í leiklistinni og söngnum. Hann hefur leikið og sungið í tveimur uppfærslum VMA á þessu ári, á vorönn í Bjart með köflum í Freyvangi og núna á haustönn í Litlu hryllingsbúðinni. Valgerður Þorsteinsdóttir hefur eins og Sindri bæði leikið og sungið í VMA. Hún söng í Söngkeppni VMA sl. vetur og lék og söng í Bjart með köflum snemma á þessu ári, er segir í frétt á VMA.