Mikið um að vera á matvælabraut VMA

Ari Hallgrímsson brautarstjóri á matvælabraut VMA við kennslu í grunndeildinni  Myndir VMA
Ari Hallgrímsson brautarstjóri á matvælabraut VMA við kennslu í grunndeildinni Myndir VMA

Ekki eru mörg ár liðin frá því nemar í starfnámi við matvælabraut Verkmenntaskólans á Akureyri þurftu að halda suður í Menntaskólann í Kópavogi til að ljúka námi sínu. Aukin eftirspurn frá bæði nemendum og atvinnulífinu hefur leitt til þess að VMA jók námsframboð sitt og  nemar geta nú lokið námi sínu í heimabyggð. Þjónustusvæðið er einkum Norður- og Austurland.

Ari Hallgrímsson brautarstjóri matvælabrautar segir að í VMA hafi um árabil verið starfrækt matvælabraut sem sinni kennslu í matvæla- og veitingagreinum. Boðið er upp á grunnnám matvæla- og ferðagreina sem opnar fyrir frekara nám í matvælagreinum, „og er líka góður grunnur fyrir lífið,“ segir hann en grunnnámið sem er tvær annir er kennt árlega.

Fjölbreytt nám í boði á vorönn

Á matvælabrautinni er einnig kennd matreiðsla, framreiðsla og kjötiðn, allt samningsbundið iðnnám en einnig er kennt nám sem nefnist matartæknir og þeir sem útskrifast úr því fá starfsleyfi sem slíkir frá embætti Landlæknis. Matreiðsla sem og framreiðslan eru kenndar í dagskóla en matartækninámið og kjötiðnin eru kenndar í lotum.

„Við munum á vorönn kenna 5. önnina í matartækninum, 3. bekk í kjötiðn, 3. bekk í matreiðslu og 2. bekk í framreiðslu þannig að í vor útskrifum við nemendur í matartækni, kjötiðn og matreiðslu. Það er býsna fjölbreytt,“ segir Ari. VMA hefur þegar útskrifað átta hópa af matartæknum, fjóra hópa af kjötiðnarmönnum, þrjá hópa af matreiðslumönnum og einn hóp af framreiðslumönnum.

Skiptir máli fyrir samfélagið að námið sé í boði

„Deildin og námsbrautirnar hafa notið velvildar fyrirtækja í þessum geira á svæðinu og einnig hafa stóru birgjarnir á höfuðborgarsvæðinu sýnt okkur velvilja. Það skiptir miklu máli fyrir samfélagið hér fyrir norðan að þetta nám sé í boði á svæðinu. Mjög stór hluti okkar nemenda hefði ekki átt möguleika á að klára námið ef við værum ekki að bjóða upp á lotunám. Margir eru í fullri vinnu og hafa ekki færi á að taka sig upp og flytja suður til að ljúka náminu,“ segir Ari en VMA býður líka upp á kvöldskóla og lotunám í öðrum iðngreinum.

Ari segir húsakost og aðbúnað brautarinnar að mörgu leyti ágætan en á mörgum sviðum megi segja að tími sé hann barn síst tíma. „Það er kominn tími á að uppfæra húsnæðið og tækjabúnað en það á því miður við um flest iðnnám á landinu. Vissulega yrði ánægjulegt ef við gætum bætt vinnuaðstöðu nemenda þannig að aðstaða til náms væri sambærileg og hún er í matvælanáminu við MK,“ segir Ari.

 Matreiðslunemar í verklegri æfingu.

 

Nemendur í kjötiðn við matvælabraut VMA.

 

Verkleg æfing framleiðslunema

Nýjast