María hættir sem leikhússtjóri LA
María Sigurðardóttir leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar mun láta af störfum að lokinni næstu frumsýningu LA þann 28. október nk. María segir í yfirlýsingu að sem leikhússtjóri axli hún ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin og ábyrgð á því að fjármálastjórn félagsins var ábótavant, þar sem starf framkvæmdastjóra sem fer með fjármálastjórn félagsins heyrir undir leikhússtjóra.
Ég taldi eðlilegt, og það var mín tillaga að ég hætti störfum hjá LA í lok þessa leikárs, sem ég hef skipulagt að öllu leyti varðandi verkefnaval, samninga, mannaráðningar og fleira. Það hefur komið sú krafa til stjórnar LA, að ég hverfi frá störfum umsvifalaust. Í samráði við stjórn LA læt ég því af störfum að lokinni næstu frumsýningu LA sem er 28. október. Ég er ósátt við að geta ekki klárað leikárið, það stríðir mjög gegn minni samvisku að klára ekki það verk sem ég er byrjuð á. Það þýðir þó ekki að deila um það, en ég er þeirrar skoðunar að að baki þessari kröfu búi ekki umhyggja fyrir hag Leikfélags Akureyrar, sem og áberandi þekkingarleysi á starfsemi atvinnuleikhúss. Þegar leikhússtjóri yfirgefur húsið á miðju leikári skapar það mikið óöryggi og álag fyrir starfsfólk hússins, og verður ekki síður flókið fyrir þann aðila sem tekur við listrænni stjórn félagsins, segir María ennfremur.
Hún segir að í erindisbréfi leikhússtjóra segi að leikhússtjóri og framkvæmdastjóri vinni í sameiningu rekstraráætlun sem skal borin undir stjórn LA til samþykktar. Framkvæmdastjóri fer með fjármálastjórn skv. samþykktri rekstraráætlun. Allar rekstrar- og verkefnaáætlanir á undanförnum árum hafa verið samþykktar af stjórn LA. Á síðasta leikári stóðust rekstraráætlanir félagsins ekki. Að hluta til var það vegna uppsetningarinnar á Rocky Horror, en sýningin var sett upp nýju húsi og reyndist dýrari en áætlað var og erfitt að sjá fyrir marga dýra pósta í því ferli. Það hefur einnig komið í ljós við skoðun á bókhaldi að rekstraráætlanir síðasta árs voru byggðar á röngum forsendum, þar sem raunverulegri fjárhagsstöðu félagsins var haldið leyndri fyrir stjórn og leikhússtjóra, en það hefur víða verið pottur brotinn í fjármálastjórn félagsins undanfarin tvö ár, en útlit er fyrir að þar sé um að kenna þekkingarskorti og reynsluleysi fremur en ásetningi, segir María í yfirlýsingu sinni.