Jólabíómyndir Hefðirnar sem gera hátíðina einstaka
Jólabíómyndir hafa alltaf verið stór hluti af því að skapa hátíðarstemningu fyrir marga, þar á meðal Tinnu Malín Sigurðardóttur. Hún hefur sterkar skoðanir á mikilvægi jólabíómynda og deildi með mér sínum hefðum og uppáhaldsmyndum, sem hún hefur horft á með fjölskyldu sinni.
Í viðtalinu segir hún frá því hvernig þessar myndir hafa mótað jólahefðir hennar og hvers vegna þær skipta máli.
Hefðir sem sameina fjölskylduna
„Fyrir mér eru jólabíómyndir ómissandi hluti af jólunum,“ segir Tinna þegar ég spyr hana út í hátíðarhefðirnar hennar.
Hún útskýrir að þetta hafi alltaf verið stór hluti af því hvernig fjölskylda hennar fagnaði hátíðinni. „Það að setjast saman og horfa á ákveðnar myndir ár eftir ár er eitthvað sem heldur fjölskyldunni saman og skapar sérstaka stemningu.“
Jólabíómyndir, að hennar mati, eru meira en bara skemmtun. Þær eru leið til að hægja á í amstri hversdagsins og njóta tíma með fólkinu sem skiptir mestu máli.
„Það eru svo margir litlir hlutir sem gera jólin sérstök, og fyrir mig eru þessar bíómyndir stór hluti af því. Þær skapa ákveðinn ramma fyrir jólin, og við vitum alltaf að við munum taka frá tíma til að horfa á þær saman.“
Home Alone: Klassískasta hefðin
Ein af þeim myndum sem skipa stærstan sess í jólabíóhefð Tinnu er Home Alone. „Þessi mynd er algjör klassík hjá okkur,“ segir hún og lýsir því hvernig fjölskylda hennar horfir alltaf á hana saman.
„Það er óskrifuð regla að jólin byrja ekki fyrr en við höfum séð Kevin McCallister verja húsið sitt með þessum ótrúlega klóku gildrum.“
Home Alone er mynd sem sameinar húmor og nostalgíu á einstakan hátt. Hún fangar klassískt jólaandrúmsloft. Stórt hús, fallegar skreytingar, jólalög í bakgrunni og snjóþakta götu.
Þetta er allt eitthvað sem fólk tengir við jólin, og fyrir Tinnu er þessi mynd meira en bara skemmtun, hún er hluti af jólaandann. „Við hlæjum alltaf að sömu atriðunum, og það er einhvern veginn alltaf jafn gaman,“ útskýrir hún.
Home Alone var frumsýnd árið 1990 og varð fljótt ein af tekjuhæstu kvikmyndum síns tíma. Hún var skrifuð af John Hughes og leikstýrt af Chris Columbus. Macaulay Culkin, sem leikur Kevin, varð heimsfrægur fyrir hlutverkið og tilnefndur til Golden Globe-verðlauna fyrir frammistöðuna.
A Boy Called Christmas: Hefð sem varð til fyrir yngri systkini
Þegar talið berst að A Boy Called Christmas glottir Tinna. Hún viðurkennir að þetta sé ekki beinlínis uppáhaldsmyndin hennar, en hún hafi samt orðið ómissandi hluti af jólunum þeirra.
„Ég myndi ekki segja að ég fíli hana sérstaklega, en yngri systkini mín elskuðu hana, og þannig varð hún að hefð hjá okkur.“
A Boy Called Christmas segir frá uppruna jólasveinsins og fylgir ungum dreng í ævintýri sem endar á því að hann verður tákn jólanna.
Myndin hefur sterkan jólaboðskap og er fjölskylduvæn, sem gerir hana að góðri mynd fyrir yngri áhorfendur. Þrátt fyrir að Tinna sé ekki jafn hrifin af henni sjálf, segir hún að hún meti hefðina sem tengist henni.
„Það er eitthvað við að sjá gleðina hjá yngri systkinum mínum sem gerir þetta þess virði,“ segir hún.
The Polar Express: Myndin sem mótaði barnæskuna
„Þegar ég var lítil var The Polar Express algjörlega mín jólamynd,“ segir Tinna með brosi. Hún útskýrir að hún hafi elskað þessa mynd svo mikið að hún hafi í raun skapað hefð í kringum hana í fjölskyldunni.
„Ég neyddi fjölskylduna mína til að horfa á hana á hverju ári, og í dag er hún ennþá fastur liður.“
The Polar Express er teiknimynd sem fjallar um dreng sem ferðast með töfralest til Norðurpólsins á aðfangadagskvöld. Myndin er heillandi frá upphafi til enda, með stórkostlegum myndbrellum, fallegum tónlistaratriðum og sterkum jólaboðskap. Hún fjallar um trú á jólaandann, jafnvel þegar maður hættir að trúa á jólasveininn sem slíkan.
Það sem gerir þessa mynd svona sérstaka fyrir Tinnu er hvernig hún fangar þessa ævintýralegu tilfinningu sem fylgir jólunum. Hún segir að það sé eitthvað mjög hlýtt og nostalgískt við að horfa á hana ennþá.
The Polar Express, sem var frumsýnd árið 2004, er ein af fyrstu tölvuteiknimyndunum sem notaði hreyfingagreiningu (e. motion capture) til að gera persónurnar sem raunverulegastar. Henni var leikstýrt af Robert Zemeckis og Tom Hanks lék mörg hlutverk, þar á meðal lestarstjórann og jólasveininn.
Myndin hefur orðið að jólahefð hjá mörgum fyrir töfrandi andrúmsloft og boðskapinn um að trúa á jólaandann.
The Grinch: Skemmtileg og hjartnæm
Að lokum nefnir Tinna The Grinch, þar sem Jim Carrey leikur hinn brákaða en skemmtilega jólastela.
„Það er erfitt að útskýra hvers vegna þessi mynd er svona góð, hún bara er það!“ segir hún og hlær. Hún útskýrir að það sé blanda af húmornum og boðskapnum sem geri hana svona sérstaka.
The Grinch var frumsýnd árið 2000 og byggir á samnefndri bók eftir Dr. Seuss. Myndinni var leikstýrt af Ron Howard og gerði Jim Carrey að táknmynd Grinch fyrir heila kynslóð. Hún vann Óskarsverðlaun fyrir förðun og hefur orðið ein vinsælasta jólabíómynd allra tíma.
Hún minnir mann á að jólin snúast ekki um glimmerið eða gjafirnar, heldur um kærleika, samveru og hlýju. Þessi boðskapur kemur alltaf við hjartað, sama hversu oft maður hefur séð myndina.
Af hverju jólabíómyndir skipta máli
Jólabíómyndir eru ekki bara skemmtun, þær eru hluti af því að skapa stemningu og ramma inn jólin. Þær mynda fastar venjur sem fólk getur haldið í, ár eftir ár, og verða oft kjarninn í samverustundum fjölskyldunnar. Þær gefa okkur tíma til að hægja á og njóta, gleymast í ævintýrum eða hlæja saman.
Fyrir þann sem þetta skrifar eru jólabíómyndir meira en bara kvikmyndir, þær eru hluti af minningum og hefðum sem lifa með manni allt árið. Þær minna mann á hvað jólin snúast í raun og veru um: kærleik, samveru og hlýju.
Það er eitthvað töfrandi við að horfa á sömu myndirnar aftur og aftur, ár eftir ár, og uppgötva alltaf ný smáatriði sem höfðu farið fram hjá manni áður. Þær verða tákn um hátíðina, leið til að tengjast fólkinu í kringum okkur og jafnvel sjálfum okkur.
Með því að setja á jólabíómynd, erum við ekki bara að horfa, við erum að taka þátt í hefð sem styrkir tengsl okkar og skapar sérstaka jólastemningu. Þetta er það sem gerir þær svo ómissandi.