Hrefna Sætran og Ívar Örn Hansen töfra fram gómsæta rétti
„Ristað brauð… graflaxsósa… grafinn lax… NAMM ég slefa! Grafinn lax er algjört uppáhald hjá mér um jólin. Eftir því sem ég eldist finnst mér smá erfiðara að verða spennt. Kannski út af því að hlutirnir eru aðgengilegri núna en þegar maður var yngri.
Ég setti mér reglu í fyrra. Ég má ekki byrja að borða grafinn lax fyrr en á aðfangadag og ég var spennt allan desember að fá loksins graflaxinn minn og vá hvað hann var góður. Hér er ein af mínum uppáhalds uppskriftum af sítrusgröfnum laxi.“
Kveðja, Hrefna Sætran
Hrefna Sætran
Forréttur „a la“ Hrefna Sætran:
Sítrusgrafinn lax
2 dl gróft salt
2 dl sykur
1 msk. kóríanderfræ
2 msk. dill
1 stk. rautt grape
1 stk. lime
2 stk. mandarínur
Blandaðu saman saltinu og sykrinum.
Kremdu koríanderfræin létt í morteli og bættu þeim út í ásamt dillinu.
Settu 1/3 af blöndunni í fat og dreifðu vel úr því, leggðu laxinn ofan á með roðhliðina niður.
Settu svo afganginn af saltblöndunni yfir.
Skerðu sítrusávextina í þunnar sneiðar og raðaðu yfir.
Geymdu inni í ísskáp í 1-3 sólarhringa. Fer eftir því hversu stórt laxaflakið er og hversu mikið grafið þú vilt hafa það. Ég er sjálf með þetta í 2 sólarhringa núna í ár á frekar þykku flaki.
Sítrusgrafinn lax
Reyktur göltur í Bolabaði
Jólaðalrétturinn er frá Ívari Erni Hansen, eða Helvítis kokknum eins og hann kallar sig.
Reyktur göltur í Bolabaði er ekta göltur með rosalegu meðlæti.
Innihald:
- 1 svínahamborgarhryggur frá KEA
- Fullt af Bola Premium
- 3 msk. dijon
- 6 msk. púðursykur
Aðferð:
- Klæðið göltinn úr plastkápunni og úrbeinið.
- Setjið göltinn í pott og hellið Bola yfir þannig að ekkert standi upp úr.
- Stingið hitamæli í miðjuna á geltinum og sjóðið á vægum hita upp í 50° hita.
- Takið göltinn úr baðinu og setjið á steikarfat.
- Blandið saman púðursykri og dijon, makið göltinn með blöndunni og setjið inn í ofn á 170°.
- Steikið þangað til gölturinn nær 65°. Hvílið í 15 mín og njótið.
Ívar býður einnig upp á meðlæti með matnum sem tilvalið er að gera til að gera góða veislu enn betri.
Reyktur göltur i bolabaði
Bolasósa
- 600 ml soð af hrygg
- 1 shallot-laukur
- 200 ml rjómi
- Kjötkraftur
- Maizena til að þykkja
- Pipar
Aðferð:
- Sigtið soð í pott og kveikið undir.
- Sneiðið lauk og setjið út í.
- Sjóðið niður um helming.
- Blandið rjóma út í og sjóðið niður um ca. 20% á vægum hita.
- Bragðbætið með krafti og pipar.
- Þykkið ef þarf með maizena.
Sykur brúnaðar kartöflur
- 700 g rauðar kartöflur
- 200 g sykur
- 1 msk. smjör
- 100 ml rjómi
Aðferð:
Sjóðið kartöflur í potti í 25 mín., hellið vatni af og geymið með loki á.
Bræðið saman sykur og smjör á pönnu.
Þegar blandan er orðin ljósbrún skal hella rjóma varlega út í.
Hrærið og sjóðið í 5 mín.
Hellið kartöflum varlega út á pönnu og hitið í 5 mín.
Eplasalat
- 1 grænt epli
- 250 ml þeyttur rjómi
- 100 ml sýrður rjómi
- 2 msk. sykur
Aðferð:
Þeytið rjóma.
Blandið saman sýrðum og sykri.
Skrælið epli, kjarnhreinsið og skerið í teninga.
Blandið öllu saman og njótið.
Epli í Airfrier
Krækiberjarauðkál
- 500 g rauðkál skorið í ræmur
- 200 ml eplaedik
- 200 ml krækiberjasaft
- 1 msk. rifsberjasulta
- 200 g sykur
- 2 anísstjörnur
- 1 rautt epli
- 2 negulnaglar
Aðferð:
Allt sett í pott og soðið í 50 mín.
Borið fram volgt.
Rjómamaís
- 400 g frosinn maís
- 1 laukur, skorinn í teninga
- 1 hvítlauksrif
- 300 ml rjómi
- 4 msk. noisette
- Salt
- Pipar
- Söxuð steinselja
Aðferð:
- Setjið maís, lauk, hvítlauk og noisette í pott.
- Sjóðið í 10 mín.
- Hellið rjóma út í og sjóðið á vægum hita niður um helming af vökvanum.
- Blandið með törfasprota, bragðbætið með salti og pipar og njótið
,.
Helvítis kokkurinn