Loftið sem er fullt af keramiki

Fullbúið keramikjólatré sem margir telja vera nostalgíu
Fullbúið keramikjólatré sem margir telja vera nostalgíu

Margir hafa séð keramikjólatré, hvort sem það er hjá mömmu, ömmu eða frænku. Ekki eru allir sem vita af því að hægt sé að kaupa og mála keramik sjálfur en Monika Margrét Stefánsdóttir rekur Keramikloftið þar sem hægt er að versla slíkar vörur og föndra.

Í grunninn er keramik bara leir. Leirinn er síðan mótaður og getur verið alls konar. Leirinn er síðan brenndur við 800-1.300 gráður. Keramik er í raun bara nytjahlutur. Hann er ekki beint fjöldaframleiddur eins og margt í dag. Keramik er því í raun eitthvað sem hægt er að segja að sé einstakt.

Keramikföndur fyrir alla

Á Árskógssandi er lítið gamalt fiskvinnsluhús þar sem efri hæðin eða loftið er gjafabúð sem kölluð er Keramikloftið. Þar vinnur Monika Margrét Stefánsdóttir við það að gera hinar ýmsu keramikvörur.

Keramikloftið selur keramik á borð við styttur, veggskraut, blómapotta og vasa ásamt ýmsu öðru. Einnig eru seldir þar litir sem fólk getur verslað sér til þess að mála sjálft. Eina sem er full búið sem Keramikloftið er með inni á heimasíðunni sinni eru tvær tegundir af sígildu keramikjólatré fyrir ljós.

Jólin eru annatími

Monika segir að það sé mest að gera hjá henni fyrir jólin. Tímabilið byrjar í september þegar félagsstörfin hefjast með sín námskeið en svo í október og nóvember hefst tímabilið sem fólk fer að kaupa hjá henni eða jafnvel mála. Hún er með vinnustofur þar sem algengt er að hópar komi saman og máli. Misjafnt er hvort það séu  jólavörur eða eitthvað annað en jólin eru þó alltaf vinsælli en annað.

Aukning hefur orðið hjá Moniku hvað það varðar að fólk komi að mála keramik á öðrum tímum en yfir jólahátíðina. Um páskana var í fyrsta skiptið páskaföndur sem byggt er svipað upp og fjölskylduföndrið hjá henni. Það gekk vel að hennar sögn og er stefnan að halda áfram með það.

Ljósavörur alltaf vinsælar

Mest af því sem hún selur eru jólavörur en húsin hafa verið mjög vinsæl síðastliðin tvö ár og hún segir að margir séu farnir að búa sér til jólaþorp.

Hins vegar eru jólatrén það sem selst líklega mest af; þetta sé ákveðin nostalgía fyrir fólk þar sem móðir eða amma hafi átt eins jólatré. Það er í raun allt sem getur verið með ljósi inn í.

Fólk kemur sjálfu sér mikið á óvart

Allir ættu að prófa að mála keramik því að mati Moniku felst svo mikil núvitund í því. „Heimurinn er orðinn svo hraður í dag og gott að slaka aðeins á með því að mála keramik,“ segir hún.

Það sem Moniku finnst skemmtilegast við að vinna við þetta er að fólk kemur sjálfu sér svo mikið á óvart.

 Herrakvöld er stefnan

Monika hefur tekið eftir því, sérstaklega í fjölskyldujólaföndrinu, að pabbarnir hafa yfirleitt alltaf ótrúlega gaman af því að mála. Stefnan er því sett á herrakvöld á Keramikloftinu á nýju ári.

 

 

 

Nýjast