Jólapíla -Pílukast yfir hátíðirnar

Pílukast hefur svo sannarlega orðið vinsælt á síðustu árum og er mikill uppgangur í íþróttinni hérlendis og erlendis. Hver sem er getur kastað pílu, það þarf bara að mæta og prófa og skemmta sér.

Pílukast hefur svo sannarlega orðið vinsælt á síðustu árum og er mikill uppgangur í íþróttinni hérlendis og erlendis. Hver sem er getur kastað pílu, það þarf bara að mæta og prófa og skemmta sér.  

Úrvalsdeildin á Íslandi

Úrvalsdeildin í pílukasti á Íslandi hófst 26. október og voru 4 kvöld á dagskrá áður en fyrsti niðurskurður kom þar sem þeir sem fengu fæst stig á þessum 4 kvöldum kvöddu deildina að þessu sinni. Síðan var það keppni um að komast í úrslit og voru það 4 efstu sem komust í úrslitin sjálf.

Í byrjun desember fóru úrslitin í Úrvalsdeildinni í pílukasti fram. Þar mættust þeir Dilyan Kolev og Alexander Veigar Þorvaldsson annars vegar og  Vitor Charrua og Arngrímur Anton Ólafsson hins vegar. Alexander Veigar og Vitor unnu sína leiki og léku svo til úrslita þar sem úrslitaleikurinn var hreint út sagt ótrúlega spennandi. Leikurinn endaði með að Vitor hafði sigur og er það í þriðja skiptið sem hann vinnur Úrvalsdeildina.

Á Akureyri er Píludeild Þórs virkilega stórt pílukastfélag, en þar sem uppgangurinn hefur orðið þetta mikill eru mörg sveitarfélög komin með  pílukastfélag. Er pílukastfélag í þínum bæ?

Stærsta pílumót heims hafið

Núna 15. desember hófst stærsta pílumót heims, PDC World Championship 24/25, sem er heimsmeistaramót í pílunni. Mótið verður sýnt á Viaplay og Vodafone sport og hefur aldrei verið jafn stórt og í ár, það er að segja hvað varðar áhuga fólks á pílukasti.

Stærstu nöfnin á mótinu eru án efa Luke Littler, sem kom öllum á óvart með því að komast í úrslit á fyrsta mótinu sínu í fyrra, þá aðeins 16 ára gamall og á jafnframt metið yfir yngsta leikmanninn í úrslitum, Luke Humphries, sem vann einmitt Littler á síðasta heimsmeistaramótinu.

Önnur stór nöfn eru Michael Van Gerwen, Gerwyn Price, Michael Smith og Peter Wright. Allir þessir einstaklingar hafa á einhverjum tímapunkti unnið mótið, fyrir utan Littler þar sem hann hefur aðeins keppt á einu móti og er þetta því hans annað mót á ferlinum.

Verðlaunaféð tekið stórt stökk frá upphafi keppninnar

Þegar heimsmeistaramótið í pílu var fyrst haldið, árið 1994, var ekki mikið rætt um pílukast og þar af leiðandi var ekki mikill peningur í þessari íþrótt. Verðlaunafé á fyrsta mótinu var samtals 64 þúsund pund sem í dag myndu reiknast sem 11,7 milljónir króna. Sigurvegarinn fékk 16 þúsund pund sem í dag væru tæpar 3 milljónir.

Hins vegar eru tímarnir í dag aðrir, heildarupphæð verðlauna á mótinu er rúmar 457 milljónir króna eða í pundum 2,5 milljónir. Sigurvegarinn fær af þeirri upphæð 500 þúsund pund sem eru tæpar 91,5 milljónir íslenskra króna.

Níu pílna leggurinn

Besti leggur sem hægt er að eiga í pílukasti er svokallaður níu pílna leikur, eins og nafnið segir til um. Það er leggur sem aðeins tekur 9 pílur að klára.

Páll Sævar Guðjónsson sagði í einni lýsingu sinni að níu pílna leggur væri erfiðari en það að fara holu í höggi í golfi. Hola í höggi er aðeins eitt högg en níu pílna leggur eru 9 pílur sem allar þurfa að hitta á hárréttan stað.

Þetta hefur náðst 14 sinnum síðan 1994 á heimsmeistaramótinu og fyrir það eru sérstök verðlaun. Verðlaunin að þessu sinni eru 120 þúsund pund fyrir hvert skipti sem leikmaður hittir á 9 pílna leik.

Hins vegar er skemmtilegur snúningur á þessu þar sem leikmaðurinn sjálfur fær ekki nema helminginn af því eða 60 þúsund pund og hinn helmingurinn fer til góðgerðamála. Á þessu ári er það til styrktar þeim sem fá krabbamein í blöðruhálskirtil í Bretlandi. Við segjum bara: Áfram keppendur, hittið á níu pílna leik!

 Heimsmeistarakeppnin hófst 15. desember og úrslitakvöldið er 3. janúar 2025. Mótið verður því spennandi alveg til enda og stóra spurningin er: Hver vinnur mótið?

Veist þú það?

Nýjast