Áramótapistill framkvæmdstjóra SSNE
Það er hálf ótrúlegt að enn eitt árið sé að renna sitt skeið og viðeigandi að líta yfir farinn veg. Desembermánuður var viðburðaríkur hjá SSNE og einkenndist, eins og raunar árið allt, af Sóknaráætlun Norðurlands eystra. Við hófum mánuðinn á rafrænni úthlutunarhátíð en þar voru kynnt þau 74 verkefni sem hlutu styrk úr Uppbyggingarsjóði Sóknaráætlunar Norðurlands eystra. Það var óvenju mikil fjölbreytni í umsóknum þessa árs og ljóst að mikil gróska er á Norðurlandi eystra í öllum geirum atvinnulífs og menningar – gróska sem er að skila sér í öflugum verkefnum sem efla landshlutann okkar.
Í desember lauk jafnframt umsagnarferli vegna nýrrar Sóknaráætlunar Norðurlands eystra sem mun gilda frá 2025-2029. Áætlunin sem við erum ákaflega stolt af hefur verið mótuð með virkri þátttöku íbúa og kjörinna fulltrúa, en á árinu voru haldnar 13 vinnustofur víðsvegar um landshlutann. Áhersla var á að móta skýra framtíðarsýn og áætlun sem mun styðja við áframhaldandi vöxt, sjálfbærni og nýsköpun í landshlutanum. Stjórn SSNE samþykkti Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2025-2029 á fundi sínum í desember og munum við einmitt hefja nýja árið á því að halda rafrænt aukaþing SSNE þann 7. janúar næstkomandi þar sem þingfulltrúar fá tækifæri til að fjalla um áætlunina í síðasta skipti og verður hún í lok þingsins lögð fram til samþykktar þingfulltrúa.
Þá verða nokkur tímamót hjá okkur um áramótin, en þá líkur verkefninu Betri Bakkafjörður sem er verkefni Brothættra byggða hjá Byggðastofnun og hefur verið hýst hjá SSNE síðustu ár. Ég vil nýta tækifærið og þakka Romi Schmitz verkefnastjóra verkefnisins sérstaklega fyrir óeigingjarnt starf í þágu Bakkafjarðar síðasta ári, en hún mun hverfa frá störfum nú um áramótin.
Það má annars með sanni segja að árið 2024 hafi verið viðburðaríkt og árangursríkt hjá SSNE. Eins og sjá má með því að fletta í gegnum heimasíðuna okkar höfum verið að fást við fjölbreytt verkefni allt frá stuðningi við fjölmörg nýsköpunarverkefni til styrkingar innviða á svæðinu. Þá höfum við lagt áherslu á aukið samtal við atvinnulífið, menntastofnanir og stjórnsýslu á árinu sem við vonumst til þess að sjá leiða til aukins vaxtar og samstarfs á nýju ári.
Horft til ársins 2025
Við hjá SSNE horfum jákvæðum augum fram á veginn og tökum fagnandi á móti nýju ári. Með nýrri Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2025–2029 verður markaður nýr kafli í vegferð okkar, en þessi áætlun opnar ný tækifæri fyrir þróun atvinnulífs, menningu og samfélags, og við hvetjum ykkur öll til að taka þátt í að nýta þau til hins ýtrasta.
Í lok janúar ætlum við einnig að hefja mánaðarlega fundaröð um ólíka þætti atvinnulífsins á svæðinu, þar sem áhersla verður lögð á samtal, nýsköpun og lausnir. Með þessum fundum viljum við styrkja tengsl og auka aðgengi að þekkingu og stuðningi fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki á Norðurlandi eystra. Vonandi sjáum við ykkur sem flest á þeim fundum, en þeir verða rafrænir og því aðgengilegir og opnir öllum áhugasömum.
Að lokum vil ég þakka öllum sem hafa lagt sitt af mörkum til uppbyggingar á Norðurlandi eystra á árinu. Samstarf okkar er lykillinn að því að skapa sterkt og sjálfbært samfélag. Okkur hjá SSNE hlakkar til að vinna áfram með ykkur að því að gera Norðurland eystra að enn betri stað til að búa og starfa á.