Einu sinni var - löngu fyrir tíma Tik Tok og Tinder

Óskar Þór Halldórsson í desmenber  2024  Myndir úr einkasafni
Óskar Þór Halldórsson í desmenber 2024 Myndir úr einkasafni

Í öllu þessu daglega amstri í öldurót tímans þegar heimurinn fer stöðugt á hvolf og maður veit varla hvað snýr upp þennan daginn og niður hinn daginn er gott að ylja sér við minningar frá töluvert löngu liðinni tíð þegar hefðirnar voru í hávegum hafðar og allt þurfti að vera eins og það var árið áður. Þá voru engar tölvur sem fönguðu huga fólks, ekki snjallsímar, ekki Facebook, ekki Tik Tok, ekki Instragram og alls ekki Tinder. Og farsímarnir, fyrst þessir risastóru, komu ekki fyrr en löngu eftir að ég sleit barnsskónum.

Nú er það svo að ég tel mig ekkert óskaplega gamlan mann, er sumsé fæddur ´61 og því 63ja ára. En guð minn góður, þvílíkar breytingar sem hafa orðið á mínu lífsskeiði. Mér finnst það satt best að segja með ólíkindum ef ég horfi til baka. En auðvitað var það svo að kynslóð foreldra minna sagði það nákvæmlega sama og þau upplifðu örugglega miklu meiri breytingar ég hef gert. Flutningarnir úr torfbæjunum í steinsteyptu byggingarnar voru engin smáræðis bylting. Og rafmagnið þegar það kom, ekki var það minni bylting. Niðurstaðan er því þessi: þannig týnist tíminn. Hver kynslóð á fætur annarri upplifir þvílíkar og aðrar eins breytingar að það hálfa væri nóg. Og ég má hundur heita ef við stoppum við snjalltæki dagsins í dag. Gervigreindin hefur þegar látið til sín taka og líklega sjáum við enn bara toppinn á ísjakanum í þeim efnum. Handan við hornið eru sjálfkeyrandi bílar og nú þegar erum við raunar farin að sjá þá á götum úti í hinum stóra heimi. En kannski verður einhver smá bið í þá hér á eyjunni norður í ballarhafi.

En hvað um það, í ölduróti mikilla breytinga höngum við á gömlum hefðum og jólahátíðin fer þar fremst í flokki. Og það er bara allt í lagi og satt best að segja nauðsynlegt í hraða nútíma samfélags að geta leyft sér að setjast niður og taka djúpöndun og hafa hlutina í nokkuð hefðbundnum skorðum, svona einu sinni á ári. Í mínum uppvexti vorum við kaþólskari en páfinn á jólasiðina og auðvitað heldur maður enn þann dag í dag í hefðirnar, að einhverju leyti að minnsta kosti.

Svarfdælingur í húð og hár!

Ég er fæddur og uppalinn á Jarðbrú í Svarfaðardal og tók þar mín fyrstu skólaspor í Húsabakkaskóla. Eiginlega má segja að fyrsti í jólum hjá mér og samnemendum mínum í skólanum hafi verið útgáfa skólablaðsins Bleðils. Árlegt jólablað Bleðils var sko ekkert venjulegt mál, það var alvöru útgáfa. Við skrifuðum alls kyns hluti í blaðið, t.d. smásögur, viðtöl og frumsamin ljóð, og síðan sáu kennararnir um að fjölrita herlegheitin í sprittfjölritaranum inn á kennarastofu og við eldri krakkarnir réttum hjálparhönd. Sprittlyktin var ógurleg og eftir á að hyggja hefur þetta líklega verið í fyrsta skipti sem ég fann til vímuefnaáhrifa! En blessað fjölritunarsprittið var þess virði og þar með fékk ég skrifdelluna sem hefur fylgt mér í gegnum lífið sem blaða- og fréttamaður og síðar grúskari.

Heima á Jarðbrú er minnisstætt þegar Jón afi og síðar pabbi kveiktu upp í reykingakofanum og ljúfur ilmurinn fannst langar leiðir. Kofinn var fullur af dýrindis jólakjöti – hangframpörtum og -lærum, döndlum, magál og nautatungum. Nokkrum dögum fyrir jól var kjötið tilbúið og borið í bæinn – ilmurinn smaug út í öll horn hússins og þar með fannst mér að jólin væru komin í húsið. En auðvitað voru jólin búin að minna á sig fyrr í desember því laufabrauðsgerðin var fastur liður og það var enginn meðal laufabrauðsskurður. Ég þori ekki að fara með tölu í þessu sambandi en kökurnar voru ógurlega margar, enda heimilið stórt. Og svo tók mamma sig til á ári hverju og gerðist bruggari. Bjó til forláta jólaöl eftir kúnstarinnar reglum. Það var ekkert sem jafnaðist á við þennan mjöð, sem var hellt á brennivínsflöskur sem voru opnaðar á aðfangadagskvöld og ölið var síðan drukkið síðan jóladagana og um áramót, stundum var bætt við appelsíni eða jafnvel kóki út í ölið. Ekki má svo gleyma smákökunum, þvílík bísn af smákökusortum sem mamma töfraði fram á síðkvöldum á aðventunni.

Lambakjöt var það heillin …

Það var ákveðin helgi yfir því að mjólka kýrnar á aðfangadagsvöld. Við brugðum alltaf út af vananum þetta eina kvöld og byrjuðum á kvöldmjöltum klukkan fimm til þess að vera ekki allt of lengi frameftir í fjósinu. Vorum yfirleitt komnir inn úr fjósinu um klukkan sjö og þá var biðröð í jólabaðið. Engin var nú hitaveitan í þá daga heldur díselkynding og því takmarkað hversu mikið heitt vatn var til baða. En ekki brást það, ég tala nú ekki um þegar veður voru válynd um jól, sem var nú ansi algengt, að krapastíflur í Laxá gerðu það að verkum að rafmagnið dansaði jólavalsa, út og inn og hliðar saman hliðar til skiptis. Það var því undir hælinn lagt hvort Laxá leyfði fullsteiktar jólasteikur. Í okkar tilfelli var lambahryggur aðfangadagskvöldssteikin. Það mátti ekki breyta út af þeirri hefð. Íslenska lambið skyldi það vera og engum af Jarðbrúarfólki datt til hugar að annað kæmi til greina. Reyndar fékk mamma einu sinni rjúpur í fangið til þess að elda og gerði á þeim athyglisverða tilraun sem endaði illa. Sem betur fer var lambahryggurinn líka í ofninum, svona upp á öryggið, og því liðu þessi jól án matarhörmunga. En þessi jólin hefðu sannarlega getað farið illa!

Á jóladaginn var að sjálfsögðu hangikjöt, það kom heldur ekkert annað til greina. Þetta heimareykta, að sjálfsögðu, kjötið sem afi og síðar pabbi höfðu borið í bæinn. Klikkaði aldrei, alltaf unaðslega gott. Hangikjöt, jólaöl og laufabrauð. Heilög þrenning. Og stundum ísterta frá Emmess á eftir. Kjörís var ekki til í þá daga.

Og svo var það kvöldsnarlið. Það var sem sagt þannig að það var jafnan farið í einn mikinn verslunarleiðangur til Akureyrar á aðventunni og keypt inn til jólanna. Fullir kassar af jólaeplum og appelsínum frá Heildverslun Valda Bald frænda okkar úr Hrísey færðu hátíðarblæ yfir húsið. Og kvöldsnarlið var epli og appelsínur sem var komið fyrir niðri í kjallara í köldu geymslunum. Á hverju kvöldi á jólum var farið niður og náð í jólaávextina. Þvílíkur lúxus! Aðeins einu sinni á ári, um jól. Þvílík lykt af eplunum. Sönn jólalykt. Og stundum á jólum gerðumst við bræður (þetta var áður en yngsta systir okkar kom til skjalanna) bakarar og bökuðum kornflekskökur. Hver okkar bræðra fékk kökur í poka og síðan komum við þeim fyrir á leyndum stöðum niðri í kjallara, með þá von í brjósti að enginn annar myndi finna þær. Takmarkið var að finna leynistaðina og ræna nokkrum kornflekskökum úr birgðum bræðranna. Kannski ekki mjög kristilegt í anda jólanna, en engu að síður nauðsynlegur hluti af stemningunni. Og það var ekki eins og segir í Dýrunum í Hálsaskógi að stolnar kökur séu jafnan vondar á bragðið, síður en svo. Þær stolnu voru jafnan betri á bragðið en eigin kökur.

Eldmessa á Tjörn

Á ungdómsárum fékk ég ekki vikist undan því að fara í jólamessuna á Tjörn. Séra Stefán Snævarr var fyrir altarinu og kirkjukórinn söng undir stjórn Ólafs á Ytra-Hvarfi. Allt á sínum stað í jólamessunni ár eftir ár – Í dag er glatt í döprum hjörtum, Í Betlehem er barn oss fætt og Heims um ból. Ég verð að viðurkenna að
ræðurnar hjá séra Stefáni fönguðu ekki alltaf huga ungs drengs frá Jarðbrú. En þá komu stjörnurnar í kirkjuloftinu sér vel. Það var árlegt viðfangsefni í jólamessunni að telja þær. Ekki man ég lengur hversu margar stjörnunar voru en það man ég að tóm gafst undir kristilegum boðskap prestsins að telja stjörnurnar aftur og aftur.
Hin árlega jólamessa var auðvitað í eins föstum skorðum og jólamessur eru og eiga að vera en jólamessan á Tjörn árið 1984 var aðeins öðruvísi en venjulega. Í þeirri messu var kirkjan, þessi gamla og fallega sveitakirkja, fagurlega skreytt og kerti í hverjum glugga. Pabbi heitinn (Halldór Jónsson – oftast kallaður Dúddi á Jarðbrú – bóndi, dýralæknir á þriðja tug ára í sveitinni og oddviti hreppsnefndar í nokkur ár) settist í einn bekkinn næst útvegg og glugga, þar sem kerti logaði í stjaka. Allt í einu finna kirkjugestir til brunalyktar. Pabbi hafði ekki gáð nægilega vel að sér og hallað öxlinni (jakkanum) að kertinu. Sem betur fer varð ekki meira úr þessu en brunagat en eftir þetta var jólamessan á Tjörn 1984 jafnan kölluð eldmessan.

Halldór heitinn Jóhannesson – oftast kallaður Dóri Jó, sem var afbragðs góður hagyrðingur, gerði eldmessuna ódauðlega í eftirfarandi brag:

Í kirkjunni á Tjörn, þó að hrím væri á hólunum
á heilögum degi var messað á jólunum.
Í skammdegishúminu kveikt var á kertunum
karlarnir saddir af gómsætum tertunum.

Bændur um kirkjudyr lágar inn léttu sér
leiddu þeir konurnar tregar á eftir sér.
Fylltust nú bekkir af frelsuðum sálunum
því flestir töldu sig rétt halda á málunum.

Oddvitinn galvaskur fór nú úr frakkanum
fólkinu sýnandi sniðið á jakkanum.
Settist við glugga, sem varla er vogandi
varaðist ekki að kertið var logandi.

Brátt tók að rjúka úr fallegu fötunum
fjölgaði óðum á jakkanum götunum.
Brennisteinsfýla og biksvartur reykurinn
breiddist um kirkjuna er harnaði leikurinn.

Ærðist nú söfnuður og allt fór úr böndunum
orguðu krakkar og veifuðu höndunum.
Söngurinn hljómaði, æpandi, emjandi
orgelið stjórnandinn tvíefldur lemjandi.

Presturinn hokinn í stólnum var standandi
stybbu og fýlu með nefinu andandi.
Snarlega reyndi að verja sig vosinu
vel skyldi duga, sem nafni hans í gosinu.

Ein kona að sunnan í sætinu sitjandi
með sálmabók lúna, goðsorðið flytjandi.
Er eldinn hún sá í oddvita klæðunum
æpti hún á Drottinn, sem býr upp á hæðunum.

Upp reis um síðir, með bókinni berjandi
hinn brennandi oddvita, það ekki var verjandi.
Með harðfylgi drap hún eldinn í öskunni
því enginn var dropinn í messuvínsflöskunni.

Endað gat klerkur með „ Ameni “ gjörðina
uppgefinn söfnuður komst niður á jörðina.
Súrir í auga af reyksvælu rokinni
ruku menn heim að messunni lokinni.

Hvað boðar nýárssólin?

Aðventan er að baki með alla sína ótrúlega mörgu jólakonserta, jólahlaðborð og guð má vita hvað. Framundan eru áramót. Tíminn þegar rétt er að staldra við, horfa um öxl og hugleiða liðið ár eða horfa fram á veginn og velta fyrir sér ljóðlínunum í þekktum áramótasálmi Akureyrarskáldsins séra Matthíasar Jochumssonar Hvað boðar nýárs blessuð sól? Matthías var merkilegur maður og merkilegt skáld og við minnumst þess á næsta ári að þá verða 190 ár liðin frá fæðingu hans og 85 ár frá vígslu kirkjunnar sem við hann er kennd – Akureyrarkirkju, kirkju Matthíasar Jochumssonar.
Áramótin eru í senn tími trega en um leið tími vonar. Hvert ár færir hverri manneskju á þessari jörðu bæði sigra og ósigra. Við kjósum að sigrarnir séu fleiri en vitum líka að öngstrætin í átt að sigrunum eru oftar en ekki þyrnum stráð.
Við sem búum hér á norðurhjara verðum svo nátengd himintunglunum, á margan hátt nátengdari náttúrunni en fólk sem hefur sólina yfir sér árið um kring. Hin blessaða nýárssól Matthíasar er sólin sem við sjáum ú við ystu sjónarrönd, hún kemur aftur upp og yljar okkur eftir skammdegi og drunga sem því fylgir. Sólin færir okkur yl í kroppinn en hún lyftir líka geði okkar upp.

Enginn Billy Smart lengur!

Það er gott að gleðjast á tímamótum og áramót eru þannig tími. Flugeldum er skotið á loft og við brosum út í annað og jafnvel skellum upp úr þegar hið árlega áramótaskaup sundurtætir samtímann í háði. Annars er áramótaskaupið stórmerkilegt fyrirbæri og algjörlega ómissandi liður kl. hálf ellefu á gamlárskvöld. Mér er ekki kunnugt um neinn sambærilegan þjóðarskopspegil í hinum vestræna heimi á gamlárskvöld. Skaupið hefur verið á sínum stað í sjónarvarpinu í áratugi og verður vonandi um ókomin ár. Því að ef jólin eru hefðir, þá eru áramótin það ekki síður. Gamlárskvöld míns uppvaxtar var ávarp forsætisráðherra (sem enn er fastur liður) og ávarp Andrésar Björnssonar útvarpsstjóra. Andrés var alltaf í sauðalitunum. Ég minnist þess alls ekki að hann hafi verið í lit. Svona eftir á að hyggja setti hann saman ágætis ávörp en minningin er sú að hann hafi ekki verið sérlega áheyrilegur ræðumaður. Eitt enn var fastur liður í Sjónvarpinu á gamlárskvöld, Sirkus Billy Smart! Ómissandi skemtun og maður sat eins og límdur við skjáinn. En nú er Billy Smart löngu dáinn drottni sínum, það er að segja sá Billy sem sirkusinn er nefndur eftir, og sjálfur sirkusinn fjaraði endanlega út fyrir tæpum tuttugu árum. Eftir sitja daprir sirkusunnendur á Íslandi og fóta sig í nýjum veruleika á gamlárskvöld.

Áramótaaksturinn brást

Matseðill gamlárskvölds í mínu ungdæmi var ekki sérlega flókinn, kótilettur var fastur liður. Til þess að gera einfaldur matur sem er fljótlegt að elda en alveg ægilega gott að borða. Það var líka gott að vita af köldum afgangs kótilettum í ofninum þegar komið var heim er langt var liðið á nýársnótt eftir áramótaball í Víkurröst á Dalvík. Stóra spurningin var alltaf sú hver okkar bræðra væri með núll prómill í blóðinu þegar líða tók á gamlárskvöld til þess að geta keyrt mannskapinn þessa sex kílómetra frá Jarðbrú niður á Dalvík – og svo heim aftur. Þrír eldri bræður mínir biðu þess í ofvæni að ég næði bílprófsaldrinum til þess að gulltryggja áramótaballið. En ég var ekkert á því að nenna að passa upp á eldri bræður mína þetta fyrsta bílprófsgamlárskvöld mitt. Því laumaðist ég í áfengislagerinn hans pabba og skutlaði í mig nægilegu magni af Martini Rosso til þess að tryggja að áfengismælirinn myndi örugglega reka upp skaðræðisóp, yrði ég mældur. Bræður mínir hafa vart fyrirgefið mér enn þetta ósvífna uppátæki, tæpri hálfri öld síðar.

Lesendum sendi ég farsældaróskir fyrir komandi ár 2025!

Óskar Þór Halldórsson.

 

Útgáfa Bleðils í Húsabakkaskóla var ekkert venjulegt mál. Að taka þátt í útgáfu Bleðils færði mann einni tröppu ofar í virðingarstigann

 

Í minningunni er einhvern veginn eins og allt hafi verið á kafi af snjó hvern einasta vetur. Hér er dæmigerð fannbreiða í Svarfaðardal, horft heim að Jarðbrú á áttunda áratugnum. Búið að steypa upp neðri hæð nýjasta hluta íbúðarhússins

Prúðbúnir Jarðbrúarbræður. Frá vinstri: Jón Baldvin, Óskar Þór, Helgi Már og Atli Rúnar Halldórssynir

Foreldrar og bræður á fermingardegi Jóns Baldvins á síðari hluta sjöunda áratugarins

Föðurafi og föðuramma – Rannveig og Jón – um jól á Jarðbrú

Jarðbrúarfólk við jólaborðið

Á sólríkum sumardegi sunnan við Jarðbrúarhúsið. Aftasta röð frá vinstri: Þórir Jónsson (föðurbróðir), Rebekka Friðgeirsdóttir (vinnukona), Atli Rúnar Halldórsson, Jón Baldvin Halldórsson, Rannveig Sigurðardóttir föðuramma og Páll Sigurðsson (föðurömmubróðir). Miðröð frá vinstri: Sigríður Jóhannesdóttir (móðuramma), Aðalbjörg Jónsdóttir (eiginkona Þóris föðurbróður – nú látin) móðir okkar, Ingibjörg F. Helgadóttir, og faðir okkar, Halldór Jónsson. Fremsta röð frá vinstri: Anna Þórisdóttir (dóttir Þóris og Aðalbjargar – býr í Ólafsfirði), Óskar Þór Halldórsson, Jóhann Ólafur Halldórsson, Rannveig Þórisdóttir (dóttir Þóris og Aðalbjargar – býr á Akranesi), Jón Þórisson (sonur Þóris og Aðalbjargar – býr í Þorlákshöfn), Trausti Þórisson (sonur Þóris og Aðalbjargar – nú bóndi á Hofsá í Svarfaðardal) og Helgi Már Halldórsson.

Pabbi og mamma og börn og barnabörn á þeim tíma (á níunda áratugnum). Standandi frá vinstri: Svanhildur Á. Árnadóttir (eiginkona Jóns Baldvins), Jón Baldvin Halldórsson, Óskar Þór Halldórsson, Guðrún Helgadóttir (eiginkona Atla Rúnars), Atli Rúnar Halldórsson með köttinn Ubbu, Helgi Már Halldórsson, Regína Rögnvaldsdóttir (eiginkona Helga Más) og Jóhann Ólafur Halldórsson. Sitjandi eru Ingibjörg F. Helgadóttir, Inga Dóra Halldórsdóttir og Halldór Jónsson

Undirritaður veltir vöngum yfir leyndardómum Canon myndavélarinnar. Þetta er fyrir langa löngu og óteljandi hárum á höfði! 

 

Nýjast