Kvikmynd um Kröflu sigraði á Landkönnunarhátíð á Húsavík
Það var kvikmyndin "Krafla - Umbrot og Uppbygging" eftir Stefaníu Eir Vignisdóttur og Gasa Kenny sem stakk af með sigurinn.
Kvikmyndaverðlaun Landkönnunarhátíðar voru veitt á Húsavík á sunnudagskvöld. Alls voru níu kvikmyndir sýndar á hátíðinni, átta erlendar og ein íslensk en það var einmitt innlenda myndin sem fékk verðlan fyrir bestu myndina. Það var kvikmyndin "Krafla - Umbrot og Uppbygging" eftir Stefaníu Eir Vignisdóttur og Gasa Kenny, en mynd þeirra fjallar um eldgosið í Kröflu, uppbyggingu Kröfluvirkjunar og þær deilur sem sköpuðust þar um.
The Weekend Sailor í leikstjórn Bernardo Arsuaga hlaut verðlaun fyrir bestu frásögnina, en hún segir á spennandi hátt frá sigri mexíkósku skúturnar Sayula II í siglingarkeppni umhverfis hnöttinn árið 1974, en Simon Le Bon söngvari Duran Duran er sögumaður myndarinnar.
Leikstjórinn Neil Weisbrod hlaut verðlaun fyrir bestu leikstjórn fyrir mynd sína Life on T3 og myndin Andes Indómito hlaut verðlaun fyrir bestu kvikmyndatöku á hátíðinni, en í henni mátti sjá stórkostlegar myndir af Andesfjöllum. Alls voru 9 myndir sýndar á hátíðinni en þetta er í 10. sinn sem Könnunarsafnið á Húsavík efnir til Landkönnunarhátíðar. Dómnefndina skipuðu þau Örlygur Hnefill Örlygsson framleiðandi, Tira Shubart handritshöfundur og Lois Huneycutt prófessor við Háskólann í Missouri í Bandaríkjunum.
Landkönnunarhátíðin sem var nú haldin í tíunda sinn fékk 500 þúsund króna styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra.