„Konan mín fékk að pína okkur í þetta sinn“

Slökkviliðsmenn sýndu mikla fimi í Hot yoga á þriðjudag, til góðs að sjálfsögðu. Mynd/Árni Friðrikss…
Slökkviliðsmenn sýndu mikla fimi í Hot yoga á þriðjudag, til góðs að sjálfsögðu. Mynd/Árni Friðriksson

Hörður Halldórsson er gítarleikari í þrassmálmshljómsveitinni Skurk frá Akureyri og rokkið tekur því sinn toll af frítíma hans. Hann hefur líka gaman af klifri og veit fátt skemmtilegra en vetrarfjallamennsku. Fyrir tveimur árum lét Hörður gamlan draum rætast og hóf störf hjá Slökkviliði Akureyrar. Vikudagur tók hann tali.

Um verslunarmannahelgina ætla slökkviliðsmenn að ganga Eyjafjarðarhringinn í reykköfunargöllum en það er um um 40 kílómetra leið. Tilgangurinn er að hjálpa til við söfnun fyrir nýjum neyðarflutningsbúnaði fyrir veika nýbura og fyrirbura, svokallaða ferðafóstru fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri. Verkefnið hefur fengið nafnið Gengið af göflunum – gengið til góðs og fylgjast má með því á Facebook. „Við byrjuðum í raun fyrir um þremur vikum. Þá tókum við Kjarnaskógsgöngu. Við gengum gönguhringinn í Kjarnaskógi eins langt og við komumst á einum súrefniskúti í reykkafarabúningum. Það var líka gert svo við gætum betur gert okkur grein fyrir hvað við kæmumst langt á einum kúti. Þá getum við nokkurn veginn tímasett okkur úr bænum og í bæinn þegar við förum Eyjafjarðarhringinn,“ segir Hörður. Verkefnið er unnið í góðu samstarfi við Viðburðastofu sem sér um hátíðardagskrána fyrir verslunarmannahelgina á Akureyri. „Við munum ganga af stað frá Ráðhústorgi við einhverja athöfn. Svo göngum við Eyjafjarðarhringinn og ljúkum göngunni aftur á Ráðhústorgi.

 

Á þriðjudag mætti Hörður ásamt tveimur félögum sínum í Átak við Skólastíg. Þar tók á móti þeim engin önnur en eiginkona Harðar, Árný Ingveldur Brynjarsdóttir, yogakennari. Hún var búin að kynda vel upp í líkamsræktarsalnum og fyrir slökkviliðsmönnunum lá að taka heilan tíma í hot yoga í reykkafarabúningum með allan útbúnað. Þeir sem til þekkja vita að í slíkum tímum hættir manni til að svitna duglega þrátt fyrir að vera léttklæddur. Þetta var opinn tími þar sem fólk gat komið og verið með og aðeins fengið að hlæja að okkur í hnausþykkum einangrunargöllum. Við höfum flestir prófað yoga áður en ekki í göllunum,“ segir Hörður og hlær. Konan mín sá um kennsluna og fékk að pína okkur í þetta sinn.“ Hörður segir að til standi að gera eitthvað sniðugt næstkomandi þriðjudag. „Við erum ekki alveg búnir að ákveða hvað við gerum en það verður eitthvað skrítið. Markmiðið með þessum skringilegu uppátækjum er að sjálfsögðu að minna á jákvæðan hátt á þessa söfnun sem við erum að hjálpa til með. Sem er fyrir ferðafóstrunni.“ 

Viðtalið í heild sinni má nálgast í prentútgáfu Vikudags sem kemur út í dag.

Gengið af göflunum

Nýjast