Íslandsmótið í íshokkí kvenna byrjar með látum
Um liðna helgi tóku Ynjur Skautafélags Akureyrar á móti kvennaliði Skautafélags Reykjavíkur í fyrsta leik vetrarins í Hertz-deild kvenna. Úr varð æsispennandi leikur þar sem úrslit réðust ekki fyrr en á síðustu mínútum. Ynjur byrjuðu leikinn af nokkru öryggi og unnu fyrstu lotuna 2-0 með mörkum frá Sunnu Björgvinsdóttur og Ragnhildi Kjartansdóttur. Snemma í annari lotu skoraði Silvía Björgvinsdóttir þriðja mark Ynja og staðan þá orðin 3-0 og útlit fyrir að Ynjurnar ætluðu að landa öruggum sigri af gömlum vana, ef svo má segja. Tæpum tveimur mínútum seinna svörðuðu þó SR stúlkur fyrir sig með marki frá Alexöndru Hafsteinsdóttur. Var þá líkt og þær sunnlensku fengju byr undir báða vængi og snerist leikurinn heldur betur við þegar þær skoruðu 3 mörk í viðbót á 6 mínútna kafla um miðbik lotunnar. Voru þar á ferðinni þær Lisa Grobe, Brynhildur Hjaltested og Laura Murphy og staðan eftir aðra lotu því 3-4 SR í vil.
Mikil spenna lá í loftinu fyrir þriðju og síðustu lotuna og mikil harka einkenndi restina af leiknum. Sunna Björgvinsdóttir jafnaði metin fyrir Ynjur 4-4 þegar um 7 mínútur voru liðnar af lotunni og þegar um 6 mínútur voru eftir af leiknum kom Silvía Björgvinsdóttir Ynjum yfir 5-4 og urðu það lokatölur leiksins. Síðustu mínúturnar voru þó æsispennandi því í miklum hasar og baráttu á milli leikmanna misstu Ynjur tvo mikilvæga varnarmenn í refsiboxið með stuttu millibili. Þurftu þær því að halda út síðustu einu og hálfu mínútuna með aðeins þrjá leikmenn gegn fullskipuðu liði SR sem einnig tóku markmanninn úr markinu síðustu sekúndurnar til að freista þess að jafna leikinn.
Það má því með sanni segja að deildin fari af stað með látum og vonandi setur þetta tóninn fyrir það sem koma skal. Kvennaíshokkí er í miklum vexti en mestur uppgangur hefur verið innan raða Skautafélags Akureyrar sem hefur undanfarin tímabil teflt fram tveimur kvennaliðum, SA-Ynjum og SA-Ásynjum. Þó hefur verið í gildi svokölluð lánsregla sem gerði öllum liðum deildarinnar kleift að fá lánaða 4 leikmenn úr einhvejum hinna liðanna en Skautafélag Akureyrar þurfti einna helst að notfæra sér þessa reglu til að halda úti tveimur kvennaliðum. Í ár hefur orðið sú breyting á að lánsreglan hefur verið felld niður og SA teflir því fram tveimur algerlega aðskildum liðum þar sem aldur ræður skiptingu milli liða. Þetta er stórt skref fyrir félagið og aðeins gerlegt þar sem nokkrar ungar og efnilegar stúlkur náðu 12 ára aldri, sem þarf til að fá að spila í meistaraflokki, auk þess sem Ásynjur hafa fengið til liðs við sig á ný reynslubolta á borð við Huldu Sigurðardóttur, Rósu Guðjónsdóttur og Sólveigu Smáradóttur.
Sarah Smiley, yfirþjálfari Skautafélags Akureyrar, segir að tilgangur þess að tefla fram tveimur aðskildum liðum í stað þess að vera með eitt mjög sterkt lið sé að þróa eins marga kvenkyns leikmenn og mögulegt er til að iðka íþróttina af kappi en einnig að hleypa meiri spennu í deildarleikina. Svo virðist sem hið síðarnefnda sé allavega orðið að veruleika.
Fyrirliðar SA-Ynja og SR voru teknar tali eftir leikinn og voru báðar hæst ánægðar með sína liðsfélaga og þá ekki síðst nýliðana sem eru þó nokkrir innan beggja liða. Fyrirliði SR, Laura Murphy, tileinkaði þó nýjum þjálfara liðsins þeirra velgengni, og í raun umbreytingu á liðinu frá því í fyrra. „Það er í fyrsta skipti sem við erum að spila eins og lið, lið sem er að vinna saman og nýjir leikmenn og því mikil upplifun. Við erum með þjálfara núna og það er gott að hafa einhvern sem trúir á okkur og er að hvetja okkur áfram“. Aðspurð segir fyrirliði SA, Ragnhildur Kjartansdóttir, að þrátt fyrir að mikil spenna og stress hafi fylgt þeim inn í þennan leik þá sé það ekkert til að hafa áhyggjur af. “Við áttum ekki mjög góðan leik en það lagast bara og SR voru mjög sterkar núna og stóðu sig mjög vel”.
Mörk/stoðsendingar Ynja:
Silvía Björgvinsdóttir 2/2
Sunna Björgvinsdóttir 2/1
Ragnhildur Kjartansdóttir 1/0
Hilma Bergsdóttir 0/1
Refsingar Ynja: 10 mínútur
Mörk/stoðsendingar SR:
Brynhildur Hjaltested 1/1
Alexandra Hafsteinsdóttir 1/0
Laura Murphy 1/0
Lisa Grobe 1/0
Resingar SR: 0 mínútur