„Hvað boðar nýárs blessuð sól“
Kæru íbúar – gleðilegt ár!
Ánægjulegt er að íbúum Þingeyjarsveitar fjölgar jafn og þétt og mikil uppbygging hefur verið víðsvegar í sveitarfélaginu sem vitnar um bjartsýni íbúa og hversu gott er að búa í Þingeyjarsveit. Óhætt er að segja að fjölmargt hafi áunnist á árinu. Sum verkefnin halda áfram inn í nýja árið en um leið verður hafist handa við önnur ný og spennandi. Hér verður farið yfir nokkur viðfangsefni sem unnið hefur verið að á árinu sem og ný:
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri Þingeyjarsveitar
- Á síðasta fundi sveitastjórnar var samþykkt ný og metnaðarfull heildarstefnumörkun fyrir Þingeyjarsveit sem unnin var með ráðgjöfum hjá Arcur ehf. Stefnan var unnin í viðtæku samráði við íbúa og hagaðila og er nú aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins.
- Mikið hefur áunnist í þróun stjórnsýslunnar eftir sameininguna en gera má ráð fyrir að það verði viðverandi verkefni út kjörtímabilið. Á nýju ári verður haldið áfram að auka upplýsingagjöf til íbúa. Meðal annars verða fylgigögn með fundargerðum birt og hægt verður að skrá sig í áskrift að ákveðnum málum og verður þá sendur tölvupóstur til viðkomandi þegar málið kemur á dagskrá nefnda sveitarfélagsins.
- Vinna við aðalskipulag sveitarfélagsins er á lokastigi og verður tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar í janúar. Gefst þá tækifæri til að senda inn ábendingar við skipulagið sem unnið verður úr í framhaldinu.
- Samkomulag var gert við Brák hses. íbúðarfélag um byggingu tveggja íbúða í Reykjahlíð og í byrjun nýs árs verður lokið við tvær íbúðir í eigu Leigufélagsins Bríetar á Laugum. Leiguíbúðir Þingeyjarsveitar fengu afhentar tvær íbúðir á Laugum í upphafi ársins 2024. Sveitarstjórn hyggst halda áfram uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í samvinnu við áðurnefnd leigufélög.
- Í tengslum við fjárhagsáætlunargerð var unnin fyrsta þjónustustefna sveitarfélagsins. Við vinnslu hennar gafst íbúum tækifæri á að koma með umsagnir um stefnuna. Stefnan er aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins.
- Á nýju ári verður lögð enn frekari áhersla á að kynna Þingeyjarsveit sem eftirsóknarvert sveitarfélag til búsetu og atvinnuuppbyggingar. Gerður verður nýr samningur við Mývatnsstofu sem mun leiða þá vinnu.
- Í lok ársins hófst vinna við gerð umferðaröryggisáætlunar fyrir Þingeyjarsveit og mun þeirri vinnu verða framhaldið á nýju ári með áætluð verklok á vordögum.
- Skoða á möguleika á orkuskiptum til sveita þar sem hitaveitu nýtur ekki við.
- Áfram verður unnið út frá úttekt sem gerð var á Brunavörnum Þingeyjarsveitar, þar sem m.a. var fjallað um húsnæðisþörf slökkviliðsins í Reykjahlíð og því verður farið í þarfagreiningu og frumhönnun á björgunarmiðstöð í Reykjahlíð. Er það mikilvægur liður í að efla starfsemi slökkviliðsins og öryggi íbúa.
- Einn af fjölmörgum styrkleikum Þingeyjarsveitar er öflugt og gott starfsfólk. Á árinu var samþykkt ný mannauðs og fræðslustefna og áfram verður unnið að styrkingu og eflingu mannauðs sveitarfélagsins á nýju ári. Starfsfólkið okkar er verðmætt og því ber að hlúa að bæði andlega og líkamlega. Í fjárhagsáætlun var því samþykkt að veita starfsfólki sveitarfélagsins heilsueflingarstyrk á komandi ári til styrkingar og uppbyggingar á líkama og sál. Ég vil þakka öllu þessu góða fólki fyrir gott og gefandi samstarf á árinu.
- Í Þingeyjarsveit eru góðir leik- og grunnskólar með öflugu starfsfólki. Í byrjun sl. árs var samþykkt ný skólastefna sem unnið er eftir og skipaður var starfshópur til að vinna að framgangi stefnunnar. Á árinu hefur verið talsvert viðhald hjá stofnunum sveitarfélagsins og á nýju ári verður áfram unnið að nauðsynlegum endurbótum. Einnig er eitt af stærri verkefnum ársins vinna við varanlegt húsnæði fyrir leikskólann Tjarnaskjól á Stórutjörnum. Áhersla sveitarstjórnar er á góða þjónustu við barnafjölskyldur í Þingeyjarsveit, m.a. með fríum skólamáltíðum bæði í leik- og grunnskólum. Einnig hefur frístundastyrkur verið hækkaður verulega sem ætti að styðja við barnafjölskyldur í sveitarfélaginu.
Þessi upptalning er ekki tæmandi en af henni má sjá að mörg spennandi verkefni eru í gangi eða í kortunum á komandi ári. Starfsemi sveitarfélagsins er öflug og við erum hér til að þjónusta íbúa af kostgæfni.
Þingeyjarsveit er rík af auðlindum og því fylgja fjölmörg tækifæri svo óhætt er að segja að framtíðin sé björt. Ég hlakka til að takast á við þau verkefni sem fylgja nýju ári í samstarfi við sveitarstjórn og öflugan starfsmannahóp.
Þar heilsum við fagnandi heiði
þíns helgasta dags,
og syngjum þér heita söngva
og sverjum þér nýjar tryggðir:
að svartnætti hvert skal sigrað
með sólstöfum nýrra daga.
Sú framtíð, sköpuð af fólksins höndum,
er framtíð þín.
(Jakobína Sigurðardóttir)
Að lokum óska ég ykkur öllum gleðilegs árs og farsældar á komandi ári með þökk fyrir ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða.
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri.