Guðlaugur hættur-Valdimar Fannar í viðræðum
Handknattleiksmaðurinn Guðlaugur Arnarsson, varnarjaxl í liði Akureyrar, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Guðlaugur hefur verið einn besti varnarmaður liðsins undanfarin ár og því mikil blóðtaka fyrir Akureyrarliðið. Hann segir langvarandi meiðsli helstu ástæðuna fyrir þessari ákvörðun.
Það er einfaldlega kominn tíma á þetta. Ég er búinn að vera í miklum vandræðum með hnéið á mér og fór m.a. í aðgerð í vetur. Það kemur alltaf að því að maður þurfi að taka þessa ákvörðun og ég tel að núna sé rétti tíminn til þess, segir Guðlaugur í samtali við Vikudag. Guðlaugur, sem verður 34 ára á árinu, hefur m.a. leikið með Fram og Fylki hér heima auk Akureyrar og einnig spilað erlendis um nokkurra ára skeið, m.a. í Þýskalandi og Svíþjóð.
Þá er það einnig að frétta af Akureyrarliðinu að Valdimar Fannar Þórsson, miðjumaðurinn sterki í Val, er í viðræðum við félagið og er þær viðræður langt komnar samkvæmt heimildum Vikudags.