Fyrsti heimaleikur Akureyrar í Olísdeild karla

Úr leik Akureyrar og Hauka í apríl sl. Mynd: akureyri-hand.is/ Þórir Tr
Úr leik Akureyrar og Hauka í apríl sl. Mynd: akureyri-hand.is/ Þórir Tr

Fyrsti heimaleikur Akureyrar í Olísdeild karla í handbolta fer fram í kvöld þegar liðið tekur á móti Gróttu í KA heimilinu.

Grótta stóð einmitt uppi sem sigurvegari á Opna Norðlenska mótinu á dögunum og þótti leikur liðanna þá hörkuspennandi. Þar var það Grótta sem landaði sigrinum á lokaandartökum leiksins.

Viðureignir Akureyrar og Gróttu á síðasta tímabili buðu upp á ýmislegt, Grótta kom, sá og sigraði hér fyrir norðan í fyrsta leik liðanna, Akureyri hefndi ófaranna og vann útileikinn í annarri umferð. Í þriðju umferðinni mættust liðin aftur á Seltjarnarnesinu og úr varð háspennuleikur sem lauk með jafntefli. Það er því ýmislegt sem bendir til hörku spennandi viðureignar í kvöld.

Leikurinn hefst klukkan 19:30 í KA heimilinu en á heimasíðu KA er mælt með að fólk mæti tímanlega, því fyrir leikinn verður hægt að ganga frá kaupum á ársmiðum, silfur- og gullkortum fyrir tímabilið. 

Nýjast