20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Fríið sem gleymdi að byrja
Elísabet Ýrr Steinarsdóttir og Hildur Inga Magnadóttir skrifa
,,Hey, eigum við að fara á fætur? Getum við farið út í skóg? Mig langar svooo mikið að fara að leita að ormum. Eigum við að finna prik?”
Það getur verið erfitt fyrir foreldra að fá þetta spurningaflóð klukkan 6 að morgni á fyrsta degi sumarfrísins. Mögulega alls ekki í samræmi við þær væntingar sem þeir höfðu til frísins.
Hvort sem sumarfríið er tekið heima eða að fjölskyldan fari í ferðalag þá eru sumrin ekki endilega hvíld fyrir foreldra, að minnsta kosti ekki ef börn eru á heimilinu.
Dagarnir þurfa ekki að vera stútfullir af skemmtun eða að innihalda stífa dagskrá. Það getur verið hollt fyrir börn að leiðast og að hafa ekki of mikið fyrir stafni. Þegar foreldrar átta sig á því getur pressan á að koma með hugmyndir að verkefnum og dagskrá, minnkað sem getur svo dregið úr álaginu á heimilinu. Börn þurfa alla jafnan ekkert svo mikið til þess að vera ánægð. Skógarferð kl 6 að morgni getur nært barnið langt fram eftir degi, jafnvel þó að það hafi verið erfitt fyrir foreldrið að komast á fætur. Börn eru ekki frekjur eða ótillitssöm þegar þau vekja sumarfrís-foreldrana snemma heldur eru þau að tjá tilfinningar sínar, sýna væntumþykju eða láta í ljós að þau hafi þörf fyrir hreyfingu.
Líta má á sumarleyfið sem samansafn af samverustundum frekar en frí. Oft er nóg að verja tíma með barninu án utanaðkomandi truflunar. Það getur ýtt undir öryggistilfinningu hjá barninu og skapað aðstæður og rými fyrir sjálfstæðan leik. Samvera fjölskyldunnar þarf ekki að kosta mikið; lautarferð með nesti, hjólatúr, sundferð, útilega, heimsókn til vina og ættingja, samvera með öðrum börnum, spilakvöld. Þetta eru líklega stundirnar sem börnin munu helst muna eftir við lok sumarsins.
Gott að hafa í huga í sumar:
- Drögum úr kröfum og væntingum til okkar sjálfra og barnanna
- Það þarf ekki að skipuleggja alla daga í þaula
- Hvetjum börnin til þess að koma með hugmyndir að afþreyingu og reynum að tileinka okkur jákvæð viðbrögð við hugmyndum þeirra
- Börnum má leiðast - þannig virkja þau ímyndunarafl sitt
- Samvera án utanaðkomandi áreitis er lykilatriði
- Verum meðvituð um skjánotkun
Uppeldi verður alltaf krefjandi óháð aldri barnanna en áskoranirnar eru breytilegar eftir aldri og þroska þeirra. Ef við erum alltaf að bíða eftir því að börnin nái ákveðnum þroska, geti gert hlutina upp á eigin spýtur eða höfum óraunhæfar væntingar til þeirra þá gætum við uppgötvað í haust að við gleymdum að byrja sumarfríið okkar. Hægjum á og njótum augnabliksins - það gæti leynst óvænt hvíld í því.
Höfundar eru fagaðilar hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni.
Elísabet Ýrr Steinarsdóttir, fjölskyldufræðingur
Hildur Inga Magnadóttir, foreldra- og uppeldisfræðingur og doktorsnemi