Fjórir Íslandsmeistaratitlar í hús

Bergur U. Unnsteinsson (t.v.) og Fannar Logi Jóhannesson. Mynd: VMA.is
Bergur U. Unnsteinsson (t.v.) og Fannar Logi Jóhannesson. Mynd: VMA.is

Fannar Logi Jóhannesson og Bergur U. Unnsteinsson, gerðu það heldur betur gott á Íslandsmóti Íþróttasambands fatlaðra í sundi í 25 metra laug. Mótið fór fram í Ásvallalaug í Hafnarfirði um liðna helgi. Þeir gerðu sér lítið fyrir og komu heim með fjóra Íslandsmeistaratitla og fjölda silfur- og bronsverðlauna. Frá þessu er sagt í frétt á vef Verkmenntaskólans á Akureyri en piltarnir eru nemendur við skólann.

Fannar Logi og Bergur keppa undir merkjum Sundfélagsins Óðins sem átti tvo aðra keppendur á mótinu þá Axel Birki Þórðarson og Breka Arnarsson sem einnig náðu góðum árangri.

Fannar Logi Jóhannesson varð Íslandsmeistari í flokknum S14 16 ára og yngri í 100 og 50 m bringusundi og annar í 50, 100 og 200 m skriðsundi og 50 m baksundi. Í karlaflokki varð hann annar í 200 m fjórsundi og 200 m skriðsundi og fjórði í 100 metra fjórsundi.

Bergur U. Unnsteinsson varð Íslandsmeistari í S14 16 ára og yngri í 50 m skriðsundi og 50 m baksundi, í öðru sæti í 100 og 50 m bringusundi og þriðji í 100 m skriðsundi. Hann varð síðan þriðji í fullorðinsflokki í 100 m fjórsundi.

Kristjana Pálsdóttir, þjálfari þeirra félaga, er hæstánægð með árangurinn og segir hann mikla hvatningu fyrir þá og einnig sig sem þjálfara. “Strákarnir hafa æft mjög vel og lagt mikið á sig. Þeir eru afar efnilegir og eiga svo sannarlega framtíðina fyrir sér í sundinu. Ég veit að þeir eiga ennþá töluvert mikið inni og þetta er okkur öllum hvatning að leggja ennþá meira á okkur við æfingarnar,” segir Kristjana, á vef VMA

Nýjast