Fjórði leikurinn í röð án taps
Hörkuleikur var í gær í Olís-deildinni í handbolta karla þegar Akureyri handboltafélag tók móti ÍBV á Akureyri. Leiknum lauk með jafntefli og hafa Akureyringar nú spilað fjóra leiki í röð án taps. Liðið er enn í botnsæti deildarinnar, nú með átta stig en Eyjamenn eru komnir í tólf stig.
Leikurinn var mjög kafla skiptur og skiptust liðin á að vera með forystuna í síðari hálfleik eftir að ÍBV hafði verið með frumkvæðið allan fyrri hálfleikinn. Þá hafði færst mikil harka í leikinn og var mikið um brottvísanir.
Akureyringar voru með forystu undir lokin en Eyjamenn skoruðu síðasta markið. Þeir fengu svo tækifæri til að stela sigrinum en Tomas Olason, markvörður Akureyringa varði á loka sekúndunni en hann var frábær í markinu.
Kristján Orri Jóhannsson var ótrúlegur hjá heimamönnum. Hann var markahæstur með þrettán mörk en í síðasta leik liðsins var hann með ellefu. Það er því óhætt að segja að Kristján Orri sé sé að blómstra með Akureyringum um þessar mundir.
Tomas Olason fór mikinn í marki Akureyringa og varði 22 skot, þar af eitt vítakast.
Theodór Sigurbjörnsson var markahæstur í liði ÍBV, hann skoraði 12 mörk. Kolbeinn Arnarsson varði 12 skot fyrir ÍBV.