Eldri borgarar hafa áhyggjur af öryggismálum í Sölku

Ætti að vera forgangsmál að bæta félagsaðstöðu eldri borgara segja fulltrúar minnihlutans
Ætti að vera forgangsmál að bæta félagsaðstöðu eldri borgara segja fulltrúar minnihlutans

Fulltrúar í Félagi Eldri borgara á Akureyri hafa lýst yfir áhyggjum sínum af öryggismálum í kjallara félagsmiðstöðvarinnar Sölku í Víðilundi á Akureyri. Þeir hvetja til þess að vinnueftirlit, heilbrigðiseftirlit og eldvarnareftirlit verði fengið til að gera heildarúttekt á húsnæðinu vegna þeirrar starfsemi sem þar fer fram á vegum Akureyrarbæjar.

Bæjarráð hefur fengið málið til umfjöllunar og vísaði því til umhverfis-og mannvirkjaráðs sem vísaði málinu til sviðsstjóra þess sviðs sem á að vinna málið áfram í samstarfi við fræðslu- og lýðheilsusvið.

Umhverfis- og mannvirkjasvið þekkir þann vanda sem við er að eiga í kjallara Sölku og benti á vankanta þegar starfsemi Punktsins var flutt þangað árið 2020. Þá voru litlar framkvæmdir gerða í húsnæðinu í Víðilundi og ekki talin þörf á því.

Ábótavant um langt skeið

„Ljóst er að húsnæði fyrir félagsaðstöðu aldraðra á Akureyri, ekki síst í Sölku er verulega ábótavant, ekki síst er varðar aðgengi, brunamál, bílastæði, loftgæði, snyrtingar og fleira. Auk þess sem löngu tímabært er að stækka félagsaðstöðu Birtu. Það á að vera forgangsmál að bæta félagsaðstöðu eldri borgara, sem um langt skeið hefur verið bent á að sé verulega ábótavant. Þess utan er mikilvægt að meta það hvort að sú ákvörðun að flytja Punktinn upp í Sölku hafi verið ákjósanleg,“ segir í bókun þriggja fulltrúa minnihlutans í bæjarráði.

Nýjast