Ein með öllu haldin á Akureyri um versló

Mikið verður um vera á Akureyri um verslunarmannahelgina.
Mikið verður um vera á Akureyri um verslunarmannahelgina.

Undirbúningur fyrir verslunarmannahelgina á Akureyri er í fullum gangi en í ár mun hátíðin Ein með öllu snúa aftur eftir stutt hlé. Viðburðarstofa Norðurlands í samvinnu við Vini Akureyrar, sem er áhugamannafélag hagsmunaaðila í verslun og ferðaþjónustu, standa að hátíðinni í samvinnu við Akureyrarstofu.

Í fyrra var hátíðin Sumarleikarnir á Akureyri haldin um verslunarmannahelgina þar sem lögð var áhersla á íþróttir og útivist. Núna munu Sumarleikarnir falla inn í Eina með öllu hátíðina og verður öllu tjaldað til. Viðburðurstofa Norðurlands fékk tónlistarmanninn Rúnar Eff til liðs við sig og er hann í fararbroddi í að skipuleggja hátíðina.

„Ég var fenginn í þetta verkefni til að koma með nýjar og ferskar hugmyndir. Rífa þetta aðeins upp,“ segir Rúnar. „Í fyrra var aðaláherslan á íþróttir en núna snúum við hlutunum við og Sumarleikarnir verða viðburður á Einni með öllu. Dagskráin verður flott og vonandi mun veðrið vinna með okkur og fólk fjölmenna hingað norður um versló,“ segir Rúnar.

Rjóminn af íslensku tónlistarfólki

Mjög lítið af fólki kom til Akureyrar um síðustu verslunarmannahelgi en það helgaðist fyrst og fremst að slæmri veðurspá alla vikuna fram að helginni. Rúnar bindur vonir við að fólk muni streyma norður og segir Eina með öllu bjóða upp á úvalsdagskrá.

„Rjóminn af íslensku tónlistarfólki mun koma hingað og skemmta og einnig verða flottir íþróttaviðburðir í bland,“ segir Rúnar. Hann segir það skemmtilegt verkefni að undirbúa jafn stóra hátíð og Eina með öllu. „Ég hef áður skipulagt ýmsa viðburði en ekki af þessari stærðargráðu. Þetta er því mjög lærdómsríkt.“

Ein með öllu fer fram dagana 3.-7. ágúst. Af tónlistarviðburðum má nefna Pál Óskar, Aron Can, Grétu Salóme, Stuðmenn, Magna, Rúnar Eff, 200.000 Naglbíta og KÁ-AKÁ.  Heilmikil skemmtidagskrá verður fyrir börn í Miðbæ Akureyrar á föstudeginum og laugardeginum þar sem Vísinda Villi mætir á svæðið og einnig verður hæfileikakeppni, hoppuskastali, tívolí og margt fleira. Á sunnudeginum verður markaðsstemmning allan daginn á Ráðhústorginu.

Af íþróttaviðburðum má nefna Akureyri Town Hill sem er kirkjutröppu brun á fjallahjólum, Gilspretturinn þar sem keppt verður á Racerum upp gilið og Downhill í Hlíðarfjalli. Einnig verður kirkjutröppuhlaupið á sínum stað og útimót í júdó á Ráðhústorgi.   

Nýjast