Draumkennt popp á Græna Hattinum
Í kvöld verða One Week Wonder og Teitur Magnússon með tónleika á Græna hattinum.
One Week Wonder er hljómsveit stofnuð árið 2014 þegar meðlimir þess voru í hljóðupptökunámi í Berlín. Sveitin spilar draumkennt popp og hefur verið líkt við hljómsveitir á borð við Pink Floyd og Air.
Hljómsveitin hefur átt góðu gengi að fagna upp á síðkastið en ásamt því að fá verðlaun fyrir myndband ársins á nýafstöðnum íslensku tónlistarverðlaununum hefur lagið Angel Eyes fengið góða spilun á útvarpsstöðvum og náði t.a.m. öðru sæti á vinsældarlista Rásar tvö. Þá er sveitin nýkomin heim frá Texas þar sem þeir komu fram á South by South West tónlistarhátíðinni við góðar undirtektir tónleikagesta. Um þessar mundir sitja drengirnir með bogin bök yfir hljóðfærum sínum og hnoða saman nýjum lögum og fáum við sjálfsagt að heyra brot úr þeim í kvöld.
Teitur Magnússon ætti að vera íslenskum tónlistarunnendum að góðu kunnur en fyrsta plata hans undir eigin nafni, 27, fékk frábærar viðtökur ,bæði hlustenda og gagnrýnenda er hún kom út síðla árs 2014.
Hljómplatan var tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna sem og þeirra íslensku. Áður hafði Teitur gert garðinn frægan sem söngvari og lagahöfundur í reggaesveitinni Ojba Rasta. Von er á nýrri plötu frá Teiti á þessu ári.
Tónleikarnir hefjast kl. 22.00.