Akureyringar svekktir með jafntefli gegn toppliðinu
Botnliðið í Olís-deild karla í handbolta, Akureyri handboltafélag missti unninn leik niður í jafntefli gegn toppliði Aftureldingar í Mosfellsbæ í dag. Leikurinn endaði 23-23.
Akureyringar mættu ákveðnir til leiks og voru með yfirhöndina mest allan leikinn, þar til á loka mínútunum, þegar Afturelding náði að jafna. Hálfleikstölur voru 13-8, norðanmönnum í vil og náðu Akureyringar sex marka forystu snemma í seinni hálfleik.
Akureyringar börðust vel í leiknum og spiluðu frábæran varnarleik, Tomas Olason var einnig góður í markinu. Akureyringar urðu fyrir áfalli í fyrri hállfleik þegar skytta liðsins Karolis Stropus fór meiddu af velli og kom ekkert meira við sögu. Óttast er að hann sé með slitna hásin og bætist Stropus því á langan meiðslalista Akureyringa.
Lokatölur urðu sem fyrr segir 23-23 og var þetta fimmti leikur Akureyringa án taps. Akureyringar lyftu sé loks upp af botninum og eru í níunda og næstsíðasta sæti með 9 stig. Stjarnan er á botninum með 9 stig einig en lakara markahlutfall, en eiga leik til góða. Fram er einnig með 9 stig í áttunda sæti og spennan því gríðarleg í neðri hluta deildarinnar. Afturelding er sem fyrr á toppnum, nú með 19 stig, þremur stigum meira en Haukar í öðru sæti.
Markahæstir í liði Akureyrar voru Kristján Orri Jóhannsson og Mindaugas Dumcius með sex mörk hvor.
Árni Bragi Eyjólfsson var markahæstur Aftureldingarmanna með átta mörk.
Næsti leikur Akureyringa er heimaleikur á fimmtudag gegn Selfossi og verður fróðlegt að sjá hvort Akureyringar verði áfram ósigraðir sjötta leikinn í röð.