Akureyringar á fljúgandi siglingu
Akureyri sigraði Gróttu, 21:18, í 11. umferð Olís-deildar karla í handknattleik á Seltjarnarnesi í dag eftir æsispennandi lokamínútur. Akureyri er þó áfram í neðsta sæti deildarinnar með 7 stig. Grótta er í áttunda sæti með 9 stig.
Hart var barist í fyrri hálfleik og höfðu Gróttumenn frumkvæðið lengst af og voru tveimur mörkum yfir í hálfleik.
Grótta var áfram skrefinu á undan þangað til nokkrar mínútur voru eftir. Akureyri skoraði þá þrjú mörk í röð og breytti stöðunni úr 8:6 fyrir Gróttu í 9:8, sér í vil.
Norðanmenn mættu ákveðnir til leiks eftir hléið. Tomas Olason varði tvö vítaskot á fyrstu fimm mínútum hálfleiksins. Akureyringar voru með frumkvæðið allan seinni hálfleikinn og voru gríðarlega sterkir varnarlega og Tomas var öflugur í markinu. Fór það svo að lokum að Akureyri vann, 21:18 eftir háspennu lokakafla.
Kristján Orri Jóhannsson var markahæstur Akureyringa með 11 mörk. Tomas varði 12 skot í markinu, þar af þrjú víti.
Markahæstur Gróttumanna var Finnur Ingi Stefánsson með fimm mörk. Lárus Helgi Ólafsson varði 13 skot í markinu.