10. bekkur Borgarhólsskóla frumsýnir Jóladagatalið
10. bekkur Borgarhólsskóla er þessa dagana að renna í gegnum síðustu æfingarnar á leikritinu Jóladagatalið. Blaðamaður Skarps og Vikudags leit við á æfingu í gær og gat ekki betur séð en að rennslið væri að verða nokkuð gott hjá krökkunum; enda ekki seinna vænna Því frumsýning er annaðkvöld, 8. desember klukkan 18:15 í Samkomuhúsinu á Húsavík.
Leikstjórn er í höndum hins þrautreynda leikstjóra, leikara og uppistandara, Jóhanns Kristins Gunnarssonar. Við báðum hann um að segja okkur aðeins frá því um hvað verkið fjallar:
„Vandræði í Jólasveinahellinum! Það er oft ansi mikið að gera þegar líða fer að jólum. Mörg verk sem þarf að klára og stundum erfitt að henda reiður á hvað skal gera næst. Grýla, Leppalúði og jólasveinarnir eru auðvitað önnum kafin að undirbúa jólin og hafa alltaf nóg að gera í desember. Til þess að vita hvað á að gera á hverjum degi hafa þau gamalt jóladagatal sem leiðbeinir þeim í verkunum. Á hverjum degi opnar Grýla gamlan kistil sem geymir dagatalið.
Við fáum að kíkja í heimsókn í Jólasveinahellinn þann dag sem eitthvað er ekki eins og það á að vera. Allir vita að án jóladagatalsins í Jólasveinahelli koma engin jól! Hvað gerist þennan dag í hellinum? Hvað blasir við þeim þegar þau opna gamla kistilinn?
Það er alltaf mikið um að vera í Jólasveinahelli og ekki minnkar það þennan daginn. Sjáum hvernig jólasveinarnir takast á við vandræðin sem upp koma. Skyldu þeir finna mannabarn til að hjálpa þeim? Leppalúði segir að það sé nauðsynlegt!
Hver er þessi Trölli í Kinnarfjöllum? Hvað gerði hann svona slæmt sem gæti komið í veg fyrir að jólin kæmu þetta árið? Fylgjumst með spennandi degi uppí fjöllunum sem inniheldur fjör í Jólasveinahelli, hættuför í Tröllahelli og margt fleira!
Allt þetta í Gamla Samkomuhúsinu okkar á Húsavík“.
Frumsýning er sem áður segir 8. desember kl: 18:15
Miðapantanir í síma 4641129 tveimur tímum fyrir sýningu. Einnig er hægt að senda póst á ada@borgarholsskoli.is