Skipulagsmál á Akureyri okkar allra
Nýtt skipulag fyrir 1000 íbúðir í vistvænu Móahverfi sem hýst getur allt að 2500 íbúa er tilbúið og getur uppbygging hafist strax á næsta ári. Það er vinna sem skipulagsráð Akureyrarbæjar, þar sem formennskan hefur verið í höndum Sjálfstæðisflokksins, ásamt skipulagsfulltrúa og Landslagi réðst í á síðasta ári og er ég verulega stoltur af útkomunni. Ein af forsendum þess að hægt sé að hefja uppbyggingu Móahverfis er framlenging Borgarbrautar sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk samþykkta í fjárhagsáætlun þessa árs til að hraða ferlinu svo hægt verði að hefja uppbyggingu þar árið 2023. Þá eru nýhafnar framkvæmdir við glæsilegt Holtahverfi þar sem verða um 300 íbúðir fyrir allt að 700 íbúa. Þar af eru að minnsta kosti 60 íbúðir á vegum Búfesti ætlaðar eldri borgurum á glæsilegum útsýnisstað í nálægð við núverandi innviði.