20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Verum samfó inn í framtíðina
Benóný Valur Jakobsson skrifar
Norðurþing stendur nú frammi fyrir tækifæri til að stækka á áður óþekktum hraða og fjölgun íbúa gæti orðið gríðarleg á næstu árum. Við hjá S-lista trúum því og stefnum á að íbúar sveitarfélagsins verði orðnir um fjögur þúsund árið 2030. Til þess að það takist þarf stefnumótun til framtíðar varðandi innviði, viðhald og endurnýjun þess húsnæðis sem Norðurþing á ásamt öflugum stuðningi við atvinnulífið.
Þess vegna talar S listi nú um skipulag og áætlanir til átta ára, um hvernig þetta takmark geti orðið að veruleika þannig að vaxtarverkirnir verði eins litlir og hægt er, þó er ljóst að svona hröð stækkun mun reyna mikið á bæði stjórnsýslu og íbúa. Með vandaðri áætlanagerð og framsýni í framkvæmdum er hægt að framkvæma þessa stækkun án þess að skuldsetja sveitarfélagið um of og leggur S-listi áherslu á að allir kjörnir fulltrúar komi að þeirri vinnu.
Það eru stór tækifæri sem blasa við Norðurþingi í atvinnu- og uppbyggingarmálum og því teljum við mikilvægt að lenda ekki á eftir í þeirri þróun heldur vera leiðandi afl. Til þess þurfum við að skipuleggja okkur til lengri tíma. Í stað skammtímalausna og viðbragðsstjórnmála boðum við heildstæða framtíðarsýn sem undirbýr okkur fyrir Norðurþing framtíðarinnar.
Það er ekki raunhæf pólitík að boða endalausar viðbragðslausnir rétt fyrir kosningar þegar ljóst er á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins að ekki er til fjármagn til mikilla nýbygginga á næstu árum. Þess vegna leggjum við áherslu á að á þeim árum verði varið í skipulag, hönnun og vandaðar áætlanir um hvernig hægt verður bretta upp ermar að þeim tíma loknum með áherslu á viðhald og endurbyggingu þeirra eigna sem eru til staðar.
Við höfum skýra framtíðarsýn í öllum málaflokkum, sem munu birtast á næstu vikum á hinum ýmsu miðlum. Einnig viljum við bjóða þig velkominn kæri íbúi á kosningaskrifstofu okkar á Húsavík til að ræða þessa sýn en hún opnar 1. maí. Sannarlega metnaðarfull áætlun sem við munum leggja okkur öll fram um að rætist, þess vegna segjum við: Komdu með, verum samfó inní framtíðina!
Höfundur er oddviti S-lista í Norðurþingi.