Að reka sveitarfélag

Áki Hauksson
Áki Hauksson

Áki Hauksson skrifar

Næsta áskorun sveitastjórnar Norðurþings verður að lækka rekstragjöld, lækka skuldir og taka til í rekstri sveitarfélagsins. Heilbrigt sveitarfélag  verður að hafa svigrúm til að reka grunnþjónustu sína sómasamlega með fagmenntuðu starfsfólki á sem flestum sviðum. Laða verður að lítil og meðalstór fyrirtæki í sveitarfélagið, skapa grunn og liðka fyrir fjölbreytilegum fyrirtækjum, því þau fyrirtæki ásamt útflutningsfyrirtækjum halda upp allri opinberri þjónustu og skapa tekjustreymi. Forgangsmál verður að vinna í því að fá fleiri fyrirtæki á Bakka, bæði til að nýta þá fjárfestingu sem fyrir er og auka tekjur sveitarfélagsins. Takist okkur að auka fyrirtækja-flóru sveitarfélagsins aukast tekjur, svigrúm til lækkun skulda sveitarfélagsins verða betri, grunnþjónustan eflist og reksturinn batnar, við það skapast möguleiki á að lækka gjöld.

Leggjum ekki grjót i götur lítilla og meðalstórra fyrirtækja með rammasamningi ríkiskaupa líkt og gert var á þessu kjörtímabili. Nánast öllum iðnmeisturum og fyrirtækjum þeirra í Norðurþingi var meinað að vinna fyrir sveitarfélagið þar sem sveitarfélagið gætti ekki að sér þegar það samþykkti í heild sinni rammasamning ríkiskaupa, þetta sýnir svart á hvítu þankagang núverandi sveitastjórnar gagnvart einkafyrirtækjunum sem eru einn af máttarstólpum sveitarfélagsins. Hægt er að opna á það í September í haust að endurskoða þá þætti í samningnum sem og ná því besta út úr honum sem hentar sveitarfélaginu sem best.

Sveitarfélagið verður að beita sér af fullum þunga í gegnum Samband Íslenskar Sveitarfélaga vegna þeirra þjónustu sem sveitarfélögin hafa fengið í fangið frá ríkinu um að nægt fjármagn fylgi til þess rekstrar.

Taka verður samtalið á sama vetfangi við ríkisvaldið um hátækni sorpbrennslur sem gætu verið staðsettar á köldum svæðum um landið og varmi þeirra nýttur til húshitunar.

Eitt af því sem verður að gera nú er langtíma viðhaldsáætlun á húsnæði og íþróttamannvirkjum sveitarfélagsins, mætti hugsa sér 10 ára áætlun þar sem verður forgangsraðað eftir viðhaldsþörf, gera trúverðugar tilboðs/kostnaðaráætlanir í stærri viðhaldsverkefni og undirbúa vel. 

Loforð þessa kjörtímabils verða að vera hófleg og taka mið af getu og þá sérstaklega fjárhagstöðu sveitarfélagsins, skuldasöfnun síðustu ára eru sveitarfélaginu þungur baggi að draga í dag, dregur úr mætti sveitarfélagsins til að þjónusta samfélagið eins og það ætti að gera.

Höfundur er oddviti M – Lista samfélagsins í Norðurþingi

Áki Hauksson

 

Nýjast