20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Verkalýðshreyfing á krossgötum -Landsfundur VG laugardaginn 18. mars 2023
Aðalsteinn Baldursson formaður Framsýnar á Húsavík flutti í gær ávarp á Landsþingi VG sem vakið hefur mikla athygli Vefurinn hefur fengið margar áskoranir um það hvort ekki væri hægt nálgast ávarpið og birta á vefnum.
Höfundur gaf sitt samþykki
Ágæta samkoma
Takk fyrir að bjóða mér að koma hér í dag og tala um stöðuna í verkalýðshreyfingunni.
Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að mikil átök hafa verið innan hreyfingarinnar, átök sem ekki sér fyrir endann á.
Framundan er þing Alþýðusambands Íslands en þinghaldinu var frestað vegna óeiningar og klofnings á reglulegu þingi þess í október á umliðnu ári. Ákveðið var að boða til framhaldsþings í apríl og ljúka þingstörfum.
Takk fyrir að bjóða mér að koma hér í dag og tala um stöðuna í verkalýðshreyfingunni.
Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að mikil átök hafa verið innan hreyfingarinnar, átök sem ekki sér fyrir endann á.
Framundan er þing Alþýðusambands Íslands en þinghaldinu var frestað vegna óeiningar og klofnings á reglulegu þingi þess í október á umliðnu ári. Ákveðið var að boða til framhaldsþings í apríl og ljúka þingstörfum.
Væntanlega verða mikil átök á þinginu er tengjast síðustu kjarasamningsgerð og kjöri á fulltrúum í helstu embætti sambandsins.
Já, það má búast við krefjandi þingi, sem þarf ekki að koma á óvart, þar sem Alþýðusamband Íslands er fjöldahreyfing ólíkra hópa með mismunandi stjórnmálaskoðanir og ólíka sýn á réttindabaráttu launafólks.
Tjáningarfrelsið er hornsteinn lýðræðisins. Samfélagið okkar byggir á lýðræðislegri þátttöku og því að allir eigi rétt á að segja sína skoðun. Ég kalla hins vegar eftir því að menn séu málefnalegir í sínum málflutningi í stað þess að stunda orðræðu sem á ekki að viðgangast í samskiptum siðaðra manna.
Ég skal fúslega viðurkenna að mér er algjörlega misboðið, ekki síst út af orðræðunni og netníðingum sem svífast einskis í umræðunni um verkalýðsmál.
Það er ný upplifun og vægast sagt óhugguleg við kjarasamningagerð hérlendis að hatursorðræða í samfélaginu leiði til þess að setja þurfi upp öryggisgæslu í húsnæði ríkissáttasemjara.
Reyndar er þetta ekki einskorðað við verkalýðshreyfinguna og stofnanir ríkisins. Meinið þrífst víða í samfélaginu og er eitt stærsta mein okkar samtíma. Innan Alþingis er til umræðu þingsályktunartillaga um aðgerðaráætlun gegn hatursorðræðu.
Oftar en ekki, eru þetta aðilar sem standa utan stéttarfélaga eða eru óvirkir félagsmenn. Menn sem vilja ala á óeiningu innan hreyfingarinnar og fá sem flest læk á sínar færslur fyrir rógburð og ærumeiðingar. Þannig er takmarkinu náð.
Vissulega getur verið þægilegt fyrir þannig þenkjandi einstaklinga að sitja heima við lyklaborðið í misgóðu ástandi og skrifa óhróður um menn og málefni, oft af mikilli vanþekkingu.
Ég hef allt frá blautu barnsbeini helgað mig verkalýðs- og jafnréttisbaráttu þeirra sem minna mega sín, og kem frá alþýðuheimili þar sem allir dagar voru baráttudagar, ekki bara 1. maí. Lífið snerist um að hafa í sig og á.
Móðir mín fór fyrst upp á morgnana og lagðist síðust til hvílu á kvöldin eftir langa viðveru, vann ólaunaða vinnu, heimilisstörf, og kom að uppeldi 10 barna, það er eigin barna og fósturbarna. Þá var ekki farið að tala um vinnutímastyttingu eða 11 tíma hvíld á sólarhring.
Faðir minn stundaði alla tíð almenna verkamannavinnu og með samtakamætti tókst foreldrum mínum að halda heimilinu gangandi. Þau voru bæði til vinstri í pólitík og höfðu sterkar skoðanir, baráttufólk.
Ég efast ekki um að þessi uppvaxtartími mótaði mig til framtíðar og varð til þess að ég helgaði mig kjarabaráttu verkafólks, þá ungur að árum.
Af hverju nefni ég þetta sérstaklega hér? Jú, vegna þess að ég ætla öllum þeim sem gefa kost á sér til forystustarfa í verkalýðshreyfingunni að hafa hjartað á réttum stað til að berjast fyrir bættum kjörum verkafólks, ekki bara formanni Eflingar. Við erum flest sprottin úr sama jarðvegi.
Það má vel vera að það sé veikleiki að vera með sterka réttlætiskennd, því fylgi óþarfa viðkvæmni.
Réttlætiskenndin hefur oft komið upp í hugann undanfarna mánuði og tengist þeim kjarasamningum sem við undirrituðum 3. desember síðastliðinn eftir margra mánaða samningaviðræður við Samtök atvinnulífsins. Hurðum var skellt og það var barið í borðið áður en skrifað var undir samninginn. Samningagerðin gekk ekki hávaðalaust fyrir sig.
Áður en að því kom að skrifa undir skammtíma kjarasamning, höfðu aðildarfélög SGS fundað með félagsmönnum og mótað sameiginlega kröfugerð þar sem línurnar voru lagðar fyrir komandi kjaraviðræður. Þúsundir félagsmanna komu að þeirri vinnu.
Í upphafi var ljóst að Efling hugði ekki á samleið með öðrum aðildarfélögum innan SGS. Efling hafnaði samstöðunni, svo það sé á hreinu. Þrátt fyrir það, er með miklum ólíkindum að félaginu skyldi takast að afvegaleiða umræðuna.
Efling sakaði önnur aðildarfélög SGS um að hafa skilið þau eftir og samið í fljótfærni. Takið eftir, samningaviðræðurnar voru búnar að standa yfir í marga mánuði áður en skrifað var undir samninginn í byrjun desember.
Það sem verra er, Efling ályktaði gegn samningi SGS til að koma í veg fyrir samþykkt hans meðal félagsmanna. Svona vinnubrögð eru fáheyrð, sem betur fer.
Meðan á kjaraviðræðunum stóð upplýsti formaður SGS forsvarsmenn Eflingar um gang viðræðna í trúnaði, enda lagði hann mikið upp úr því að eiga gott samstarf við Eflingu, auk þess sem hann biðlaði til félagsins að vera með okkur í þessari vinnu.
Það fór ekki betur en svo, að öllum trúnaðarupplýsingunum var lekið í fjölmiðla á mjög viðkvæmum tíma, að því er virðist, til þess eins að eyðileggja fyrir samningsaðilum.
Í kjölfarið hóf félagið jafnframt kostnaðarsama auglýsingaherferð um skaðsemi samnings SGS gagnvart félagsmönnum Eflingar, á mjög svo hæpnum forsendum.
Þetta er að sjálfsögðu ekki í lagi, svo ekki sé talað um Eflingarleiðina sem byggir á því að útrýma láglaunastöfunum í Reykjavík og flytja þau hreppaflutningum út á landsbyggðina.
Takið eftir, þetta er ekki yfirlýsing frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins eða annara hægrimanna. Þetta er stefna stéttarfélags sem valdi að fara með félagsmenn í verkfall til að knýja á um, að þessi krafa næði fram að ganga.
Láglaunakona á landsbyggðinni líkti þessum kröfum við það að verkalýðshreyfingin gerði kröfu um að karlar hefðu ávallt hærri laun en konur fyrir sömu störf, jafnrétti hvað?
Hugsanlega er illa komið, þegar ég er orðinn sammála talsmanni Samtaka atvinnulífsins, sem sagði það myndi aldrei gerast á sinni vakt að verkafólki yrði mismunað í launum eftir búsetu fyrir sömu störf. Í sama streng tók okkar ágæti forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir og fleiri málsmetandi aðilar.
Framhaldið er þekkt, kjarasamningur aðila vinnumarkaðarins var samþykktur í atkvæðagreiðslu með um 85% atkvæða og sömuleiðis miðlunartillaga setts ríkissáttasemjara í deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins.
Það er, tæplega níu af hverjum tíu félagsmönnum allra aðildarfélaga SGS, þar á meðal Eflingar, samþykktu kjarasamninginn. Niðurstaðan er afgerandi.
Það ætti ekki að þurfa að koma neinum á óvart að aðildarfélög SGS voru ekki reiðubúin að lýsa yfir fullum stuðningi við kjarabaráttu Eflingar sem byggði á því að gera lítið úr viðhorfum og kjarabaráttu annarra aðildarfélaga sambandsins.
Þrátt fyrir allt, það sem á undan er gengið, heldur baráttan áfram og framundan eru án efa krefjandi samningaviðræður við Samtök atvinnulífsins enda samningar lausir í byrjun næsta árs.
Að því borði þurfa stjórnvöld einnig að koma og aðrir hagsmunaaðilar. Ekki síst á tímum þegar verðbólgan æðir áfram eins og enginn sé morgundagurinn. Það er skjálfti í efnahagslífinu sem veit ekki á gott.
Ég heyri ekki annað en að það sé fullur vilji meðal félaga iðnaðarmanna, verslunarmanna og SGS að standa saman í komandi kjaraviðræðum við SA. Reyndar liggur afstaða Eflingar ekki fyrir. Vonandi ber félaginu gæfa til að standa vaktina með okkur hinum í komandi ólgusjó.
Hafi það einhvern tíma verið mikilvægt að allir legðust saman á árarnar er það núna. Rétt áralag samhentar áhafnar skilar okkur án efa öruggum í höfn.
Við þurfum líka að hafa í huga að umræða er í gangi um að endurskoða þurfi Vinnulöggjöfina eftir síðustu kjaradeilu Eflingar og SA þar sem menn greinir m.a. á um valdheimildir ríkissáttasemjara. Verkalýðshreyfingin þarf að sjálfsögðu að hafa skoðun á málinu.
Með blóðbragð á tönnunum gleðjast nú þingmenn Sjálfstæðisflokksins yfir óförum verkalýðshreyfingarinnar verandi flutningsmenn að frumvarpi um félagafrelsi á vinnumarkaði, sem er gróf aðför að tilverurétti stéttarfélaga á Íslandi. Væri því ágæta fólki ekki nær að beita sér fyrir því að samfélagið allt fengi að njóta afrakstrar auðlinda sem nýttar eru til tekjuöflunar í atvinnuskini.
Ég treysti því að forsætisráðaherra, Katrín Jakobsdóttir, og VG fylgi þessum mikilvægu málum eftir í þágu verkafólks á Íslandi.
Verkalýðshreyfingin mun ekki sitja hjá á þessum óvissutímum enda verkefnin óþrjótandi. Okkur ber því að nota næstu vikur og mánuði til að ná sáttum þannig að hreyfingin standi undir nafni sem málsvari þeirra 130 þúsund meðlima sem mynda Alþýðusamband Íslands.
Almennir félagsmenn aðildarfélaga sambandsins hafa stigið fram og kallað eftir sátt í verkalýðshreyfingunni þar sem núverandi ástand sé óviðunandi með öllu.
Eðlilega, þar sem fórnarlömb innibyrgðs átaka innan okkar raða er láglaunafólk.
Ég hvet til sátta í hreyfingunni um leið og ég óska Vinstri grænum velfarnaðar í sínum mikilvægu störfum fyrir land og þjóð.
Ávarp flutt á landsfundi VG í Hofi Akureyri