Hversu mikið er nógu mikið?

Egill P. Egilsson skrifar

Nú er sumarfríum að ljúka og fólk að snúa til sinna starfa eftir verðskuldaða afslöppun. En það er fleira en mannfólkið sem liggur að einhverju leyti í dvala yfir sumartímann. Það eru hitamálin í þjóðmálaumræðunni og nóg er af slíkum sem munu eflaust verða áberandi nú eftir sumarfrí.Eipi

Eyjafjarðarþokan

Eitt helsta hitamálið sem þó rataði í umræðuna í sumar er hin blágráa þoka sem hefur legið yfir Akureyri og Eyjafirði í sumar og kemur frá skemmtiferðaskipum.

Komur skemmtiferðaskipa til Akureyrar og Húsavíkur hefur fjölgað mikið undanfarin ár og virðist hafa náð nýjum hæðum eftir covid faraldurinn. Miðað við þróunina þá á þeim bara eftir að fjölga. Nú þegar hafa verið staðfestar komur fleiri skemmtiferðaskipa til Húsavíkur fyrir næsta sumar en allt þetta sumar. Á sama tíma er unnið að því að fá skipin til að koma einnig á jaðartímum.

Þessi tiltölulega nýja viðbót við ferðaþjónustuiðnaðinn hefur sína kosti og galla og er eðlilega umdeild.

Þéna á hafnargjöldum

Hafnirnar hafa auðvitað af þessu gríðarlegar tekjur enda reyna þau að fjölga komum eins og mest þær mega. En þó þróun í fjölda skemmtiferðaskipa sé hröð, þá er ekki sama hraðanum fyrir að fara þegar kemur að uppbyggingu innviða til að taka við þeim. Þar þarf að girða sig í brók ef það á yfir höfuð að veðja á þessa tegund ferðaþjónustu. Ef skipin geta ekki tengt sig við landrafmagn munu þau halda áframa að rýra loftgæði heimafólks. Svo má auðvitað spyrja sig hvort ekki megi setja stærri ábyrgð á útgerðir þessara skipa til að draga úr mengun sem frá þeim kemur. Þetta vandamál hefur verið sérstaklega slæmt á Akureyri þar sem fleiri og stærri skip leggja að bryggju.

En hver er þá ávinningurinn af komum skemmtiferðaskipa, annar en hafnargjöldin? Þessir farþegar stoppa stutt, hótelin hagnast eðlilega ekkert á þeim og að mér skilst gera veitingastaðir það aðeins mjög takmarkað.

 En auðvitað skilja þessir farþegar talsverðan gjaldeyri eftir sig. Tugir rútuferða hvern einasta dag, skipulagðar gönguferðir með leiðsögn og þannig mætti lengi telja. Svo má líka gera ráð fyrir að þessir ferðamenn kaupi eitthvað, hvort sem það er útivistarfatnaður eða vínarbrauð og allt telur þetta.

Góð auglýsing

Það sem færri vita er að þessar stuttu heimsóknir virka líka eins og eins konar kynning á Íslandi fyrir farþega þessara skipa. Þau gera kannski 2-3 stutt stopp á Íslandi svo farþegarnir fái nasaþefinn af því sem landið hefur upp á að bjóða. Rétt nóg til að vekja forvitni og í mörgum tilfellum nóg til að þessir farþegar kynni sér Ísland þegar heim er komið og snýr síðan aftur á eigin vegum og stoppar lengur, gjarna úti á landi.

 Horfa þarf á allt árið

En í allri umræðunni um að fjölga erlendum ferðamönnum og dreifa þeim um landið verður líka að vera rými til að spyrja sig; hversu margir eru nógu margir. Erum við með innviði til að taka við fleirum? Þola innviðir sem þegar eru til staðar meiri ágang? Og kannski það allra mikilvægasta, hversu marga í viðbót þolir náttúran og kyrrðin, varan sem við erum að selja?

Ég held að ferðaþjónustan og yfirvöld ættu að leggja alla áherslu á að fjölga heldur ferðafólki yfir vetrartímann og gera ferðaþjónustuna að sjálfbærri atvinnugrein allt árið um kring.

Egill P. Egilsson

Nýjast