HVE GLÖÐ ER VOR ÆSKA?

Þorgrímur Þráinsson skrifar
Þorgrímur Þráinsson skrifar

Oft ..... þegar ég stend fyrir framan nemendur, sem ég geri nánast daglega, fæ ég tár í augun vegna þess sem ég skynja, sé og upplifi. Mér finnst ég finna fyrir hjartslætti nemenda, finna hvernig þeim líður og hversu mikið þá þyrstir í þau tækifæri sem lífið hefur upp á að bjóða. Kannski er þetta ímyndun! Ég skynja líka forvitni, virðingu og þakklæti. Yfirleitt langar mig að ganga að hverjum og einum eftir fyrirlestur, faðma alla og færa þeim orku sem nýtist þeim í framtíðinni.

Lífið er og verður ævinlega allskonar en mótlætið er mest þroskandi. Ef maður leggur sig fram alla daga, opnast ótal dyr. Það fær enginn góðar einkunnir í jólagjöf eða sjálfstraust í afmælisgjöf. Litlu hlutirnir dags daglega breyta lífi fólks. Og þetta er eini dagurinn sem skiptir máli. Gærdagurinn kemur aldrei aftur og morgundagurinn er ekkert annað en vonir og væntingar. Þetta er dagurinn til að stíga skrefið, ákveða hvers konar lífi maður vill lifa og síðan bera ábyrgð á því.

Í vikunni var ég í Sunnulækjarskóla á Selfossi. Þar eru tæplega 80 nemendur í 10. bekk og þess vegna hélt ég tvo fyrirlestra. Á kennarastofunni töluðu kennarar fallega um nemendur og fljótlega áttaði ég mig á því að um gagnkvæma virðingu og traust var að ræða. Fallegt og faglegt skólaumhverfi er svo heillandi. Og það er um allt land.

Þar sem ég hef hitt nánast hvern einasta nemanda í 10. bekk í vetur, hef ég áttað mig á því, að um metnaðargjarnan árgang er að ræða, á öllu landinu. Auðvitað eru engir tveir einstaklingar eins en heilt yfir hef ég hitt heilbrigðar og góðar manneskjur.

Það eru forréttindi að fá tækifæri til að hreyfa við ungu fólki, eins og kennarar gera á hverjum einasta degi. Kennarar geta verið mestu áhrifavaldar í lífi nemenda. Heimsóknin í Sunnulækjarskóla verður eftirminnileg. Það er ekki sjálfgefið að nemendur haldi athygli í rúmar 70 mínútur en unga fólkið þyrstir í fróðleik, tilbreytingu og það langar að blómstra. Vissulega búa sumir nemendur við erfiðar aðstæður, það er víða rangt gefið og það sem lagt er á sumar, einlægar sálir er sorglegt. Þess vegna verðum við öll að hjálpast að. Það er sótt að ungu fólki (og flestum) með margvíslegum hætti nánast allan sólarhringinn, úr öllum áttum. Tæknin tröllríður samfélaginu og skilaboðin eru skýr: Gerðu þetta! Vertu svona! Keyptu þetta, annars verður þú útundan. Það þarf sterk bein og öflugt sjálfstraust til að standast álagið. Margir brotna og hverfa inn í skelina vegna stöðugs samanburðar, þjakaðir af minnimáttarkennd. Er breytinga þörf?

Við erum öll einstök, við höfum öll tilgang en til þess að finna þann tilgang þurfum við jafnvægi. Við þurfum að leita jafnvægis og styðja unga fólkið í að finna þetta jafnvægi. Nægur svefn er lykilatriði. Ef það er svindlað á svefni ganga nemendur reikulir inn í daginn og meðtaka síður mikilvæg skilaboð. Þeir missa þar af leiðandi af sjálfum sér! Holl næring, kröftug hreyfing, læsi, orðaforði og félagsleg virkni stuðlar að góðu jafnvægi og sjálfstrausti sem fleytir okkur langt í lífinu.

Börnin, unga fólk er hjarta samfélagsins. Við fullorðna fólkið höfum verið of upptekin af okkur sjálfum til þess að gefa unga fólkinu nægan gaum. Við þurfum að vinda ofan af þessu, forgangsraða, hugsa ýmislegt upp á nýtt. Hafa hugrekki til stokka upp, horfast í augu við raunveruleikann.

En takk, unga fólk, skólastjórnendur, kennarar, fyrir að treysta mér ár eftir ár eftir ár.

 

Grein þessi birtist fyrst á Facebooksíðu  Þorgríms

Nýjast