Fjölskylduhús á Akureyri -þjálfunar og meðferðarstaður fyrir börn og fjölskyldur í vanda

Elsa María Guðmundsdóttir skrifar
Elsa María Guðmundsdóttir skrifar

Í Velferðarráði Akureyrarbæjar var nýverið fjallað um undirbúning að stofnun þjálfunar-og meðferðarstaðs þar sem veitt væri sérhæfð þjónusta til barna og fjölskyldna þeirra sem glíma við ýmiskonar flóknar félagslegar og heilsufarslegar aðstæður. Greinarhöfundur, sem situr fyrir hönd Samfylkingarinnar í Velferðarráði, óskaði eftir umfjöllun um hvar þetta mál væri statt, en nú í nokkur ár hefur umræða verið um slíkan stað sem gæti þjónað hópi barna sem þurfa sértæka þjálfun og nálgun til að bæta líðan og lífsgæði.

Fjölskylduhús er ágætis samheiti yfir þennan stað, þar sem meginmarkmiðið er að veita þjálfun og fræðslu í sem næst raunverulegum aðstæðum á heimili. Með þjálfun í því umhverfi eru meiri líkur að árangur náist, og að foreldrar nái að tileinka sér þær aðferðir sem geta bætt stöðu barnsins og fjölskyldunnar. Nú þegar er til staðar lítil eining á Akureyri þar sem börn njóta þjálfunar og greiningar inni á einkaheimili, en mun færri komast þar að en þurfa og þar er biðlisti til að komast að. Reynslan af þessari litlu einingu er mjög góð, unnið er gott starf sem hefur skilað góðum árangri. Það er því afar brýnt að nú komist skriður á þetta mikilvæga mál, enda er staða barna og félagslegar aðstæður þeirra málefni þar sem mikið er í húfi fyrir nærsamfélagið og afar rík hin lögbundna skylda Akureyrarbæjar til að mæta þörfum allra barna. Einnig er vert að minna á að Akureyrarbær skilgreinir sig sem barnvænt samfélag og jafnframt er í gangi vinna til að innleiða farsældarlög barna, þar sem mikil áhersla er á heildstæða, fyrirbyggjandi og faglega þjónustu í öllu sem viðkemur börnum í viðkvæmri stöðu.

Akureyrarbær hefur hér kjörið tækifæri til að vera í fararbroddi til að þróa þessa þjónustu, hafið er samtal við hið opinbera um að taka þátt í verkefninu og bindur undirrituð miklar vonir við að það muni skila árangri. Það eru hins vegar blikur á lofti, verkefni af þessu tagi kostar að sjálfsögðu fjármuni og áherslu á það er ekki að finna í samningi núverandi meirihluta. Það er hins vegar alveg ljóst að samkvæmt starfsfólki velferðarsviðs og þeirra sem starfa í barnavernd, að til þess að mæta þörfum þessara barna og fjölskyldna þeirra, er þessi leið mjög mikilvæg og ákjósanleg. Vert er einnig að horfa til hversu víðtæk og fyrirbyggjandi áhrif það hefur að grípa fyrr inn í erfiðar aðstæður þar sem jafnframt er hægt að nota minna íþyngjandi inngrip og aðgerðir fyrir bæði barnið og fjölskyldu þess. Það er auðvelt að gera sér í hugarlund hversu dýrmætt það er fyrir fjölskyldur í vanda að fá hjálp snemma, sem síðar meir kemur í veg fyrir ómælda erfiðleika, álag og óhamingju heillar fjölskyldu. Langtíma áhrif af snemmtæku inngripi sem þessu mun spara sveitarfélaginu útgjöld og flóknari dýrari þjónustu til lengri tíma litið.

Hér þarf því framsýni og áræðni til að hrinda þessu verkefni af stað og munum við í Samfylkingunni leggja okkar lóð á vogarskálarnar til af þessu megi verða og það fyrr en síðar.

Elsa María Guðmundsdóttir

Samfylkingunni, Akureyri

 

Nýjast