Erum við öll nakin?
Ég dáist að fólki sem geislar af sjálfstrausti án drambs og derrings. Fólki sem elskar lífið, horfir í augun á öðrum, gefur sig á tal, spyr frétta, sýnir öðrum áhuga. Þessi framkoma er fátíð og eftirtektarverð. Sífellt fleiri hverfa inn í sjálfa sig, ganga um með lífið í lúkunum (símann), líta varla upp og bíða eftir næstu skilaboðum, myndskeiði sem skiptir þau engu máli. Gerviveröldin er að gleypa okkur fyrir opnum tjöldum. Og fjöldi fólks klappar!
Eftir að þessi geðveika græja kom til sögunnar með bullandi samfélagsmiðlum er eins og við séum markvisst að brjóta okkur niður. En viljum samt ekki viðurkenna það. Við sogumst sífellt lengra inn í gerviveröldina, þar sem allir eru svo ógeðslega hamingjusamir og glaðir að þeir eru sífellt að sýna öllum heiminum uppblásin brjóst, rassinn, vandræðalega stórar varir, morgunmatinn, hádegismatinn og kvöldmatinn - hvað þeir eru að gera mínútu fyrir mínútu. Þeir líta varla upp og missa þar af töfrum lífsins. Sýndarveruleikinn er að taka yfir, samskiptin eru vélræn og þegar tölvan er farinn að spyrja þig hvort þú sért vélmenni er hámarki heimskunnar náð.
Heilbrigð skynsemi hvíslar að okkur daglega að þetta sé eitrað andrúmsloft, veruleikafirrt sem mun leiða til aukins kvíða, þunglyndis, athyglisbrests, kulnunar, brotinnar sjálfsmyndar, brottfalls úr skóla og svo framvegis. Og hver ,,sérfræðingurinn“ á fætur öðrum sprettur upp með töfralausnir en fæstir ræða heilbrigða skynsemi og hlusta á innsæið. Það er til svolítið sem kallast orsök og afleiðing!
Er þörf á að grípa í taumana? Sumir vilja meina að við foreldrar nennum ekki lengur að vera foreldrar, setjum börnum engin mörk sem endurspeglar háttsemi þeirra í skólanum og víðar. Alls kyns lausnir blasa við en fæstir grípa til þeirra. Jafnvel þótt við séum pikkföst í sögunni um Nýju fötin keisarans og sjáum augljóslega að hann er nakinn, horfum við á það með blinda auganu. Við segjum ekki orð af því við erum sjálf oftast nakin. Ég er engin undantekning, svo því sé komið til skila. Sogast hægt og rólega inn í sjálfsblekkinguna og skil ekkert í því að mér verði lítið ágengt á öðrum vettvangi! Fjölmiðlar éta hina daglegu blekkingu (brotnu sjálfsMYNDINA) upp eftir hverjum áhrifavaldinum á fætur öðrum til þess að fá klikk á miðilinn. Eðlilega - enda allir að afla sér fjár.
Minn helsti áhrifavaldur fór í fjós kvölds og morgna, eldaði mat fyrir fjölda fólks, vaskaði upp, þreif húsið og kvartaði aldrei. Sumir halda í alvörunni að fólkið í litlu fötunum á samfélagsmiðlum séu áhrifavaldar. Jú, hugsanlega í augum þeirra sem eru að berjast við löskuðu sjálfsmyndina.
Er ekki eitthvað bogið við það þegar veruleikafirrtur maður setur ,,eitraðan“ orkudrykk á markað – og börnin okkar skrópa í skóla og hlaupa út í búð til að kaupa þetta bull? Hvaða umræða hefur átt sér stað á heimilum?
Fjöldi ungmenna og fullorðinna er liðlega 8 klukkutíma á dag í símanum. Átta klukkutímar á dag eru 183 dagar á ári - HELMINGURINN af árinu! Var einhver að minnast á vandamálin sem svefnleysi veldur? Óvirk hlustun, skortur á athygli, kvíði, þunglyndi, depurð? Hvað varð um orsök og afleiðingu?
Þrátt fyrir þennan augljósa ólgusjó og stöðuga áreiti hef ég óendanlega trú á unga fólkinu en við foreldrar þurfum að girða okkur í brók. Eflaust er ég að mála skrattann á vegginn en mín heilbrigða skynsemi og innsæi öskrar á mig að við þurfum að grípa í taumana á margvíslegan hátt. Litlir hlutir skapa stóra sigra!