Er ég kvíðin eða drakk ég of mikið kaffi í dag?

Auður Ýr Sigurðardóttir skrifar

Heilsu og sálfræði

Það eru eflaust einhverjir sem þekkja það að hafa drukkið of mikið kaffi, fundið fyrir hröðum hjartslætti og eirðarleysi í kjölfarið og hugsað “ég hlýt að vera kvíðið/n/nn”.  Koffínið í kaffi getur haft þau áhrif á líkamann að við finnum fyrir einkennum sem eru mjög svipuð algengum kvíðaeinkennum. Það er því tiltölulega auðvelt að mistúlka einkenni eins og eirðarleysi og aukinn hjartslátt sem kvíða en sjá ekki endilega tengslin við kaffidrykkjuna. Á hinn bóginn áttum við okkur í mörgum tilvikum ekki á að þau líkamlegu einkenni sem við erum að glíma við geta verið vegna andlegs álags en setjum hins vegar fókusinn á að það hljóti að vera einhver líkamlegur sjúkdómur til staðar. Mistúlkun á líkamlegum einkennum og líðan er nokkuð algeng en það er ýmislegt sem getur villt um fyrir okkur við að meta einkennin.

Það sem getur ruglað okkur í ríminu er að ýmis einkenni geðræns vanda og langvarandi streitu eru líkamleg. Langvarandi streita getur til dæmis valdið þyngslum fyrir brjósti, hjartsláttaróreglu, svima, bakflæði, meltingartruflunum, hægðatruflunum og hugrænum einkennum eins og gleymsku og einbeitingarerfiðleikum. Streita getur jafnvel valdið ýmsum einkennum sem okkur hefði ekki dottið í hug eins og sjóntruflunum, verkjum, viðkvæmni fyrir hljóði og svo mætti lengi telja. Mörg þessara einkenna upplifir fólk einnig sem er að glíma við svefnleysi eða geðraskanir eins og og þunglyndi og kvíða.

Sem dæmi þá er hjá meirihluta af þeim einstaklingum sem leita sér aðstoðar á hjartabráðamóttöku vegna hjartaverkja ekki hægt að finna nein merki um hjartasjúkdóm eða annað sem getur skýrt verkinn þrátt fyrir skoðun og rannsóknir. Ótilgreindir brjóstverkir sem þessir eiga við um meira en helming þeirra mála sem koma inn á hjartabráðamóttökur. Ýmsir vefrænir (líkamlegir) og lífstílstengdir orsakaþættir eru skýringin á hluta þessara koma en stóran hluta er þó hægt að skýra með sálrænum orsaka- eða áhrifaþáttum eins og streitu, þunglyndi og kvíða. Það sem flækir fyrir er að sum einkenni hjartaáfalls eru svipuð þeim einkennum sem koma fram í kvíðakasti. Einkennin geta auk þess verið mjög sterk og því eru margir sem telja að eitthvað sé að hjartanu þegar þeir eru í raun að upplifa kvíðakast.

Það er ekki svo að öll líkamleg einkenni sé hægt að útskýra með sálrænum þáttum. Mikilvægt er að vera meðvitaður um heilsu sína, taka eftir líkamlegum einkennum og leita til læknis þegar við á. Ætlunin hér er einungis sú að vekja fólk til umhugsunar um það hversu gríðarleg áhrif andleg líðan getur haft á líkamlega heilsu. Sömuleiðis getur sársaukinn vegna líkamlegra einkenna af sálrænum toga verið alveg jafn hamlandi og er ekkert minna gildur en þegar um líkamlegar orsakir er að ræða. Þann sársauka á einnig að taka alvarlega en þarna er líkaminn að biðja um athygli og er að segja okkur að ekki sé allt í lagi. Að huga að geðrækt er alveg jafn mikilvægt og að huga að líkamlegri heilsu. Það er því mikilvægt að læra að hlusta á líkamann til að leiðbeina okkur hvað er hafa góð áhrif, hvað er að hafa slæm áhrif á heilsu okkar og hlúa að okkur sjálfum.

Höfundur er sálfræðingur hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni

Nýjast