Baráttudagur verkalýðsins, oft er þörf, nú er nauðsyn!

Arna Jakobína Björnsdóttir skrifar

Nú þegar upp rennur baráttudagur verkalýðsins, 1. maí 2023, stendur Kjölur stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu ásamt öðrum aðildarfélögum BSRB frammi fyrir hörðum aðgerðum og verkfallsboðunum hjá sveitarfélögum.

Líkt og öllum er kunnugt voru gerðir skammtímasamningar á almennum vinnumarkaði í vetur enda aðstæður slíkar í efnahags- og verðlagsmálum í þjóðfélaginu að langtímasamningar voru ekki fýsilegir.

Samninganefnd BSRB hóf vinnu við gerð kjarasamninga full bjartsýni og því eru það mikil vonbrigði að samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hafi hafnað þeirri augljósu kröfu að starfsmönnum sveitarfélaga séu greidd sömu laun og aðrir hafa samið um frá 1. janúar síðastliðnum. Með öðrum gildistíma kjarasamnings ætla sveitarfélögin að spara sér launahækkanir og þar með mismuna fólki í launum sem er í sömu eða sambærilegum störfum.

Sveitarfélögin eru með þessu í hættulegri vegferð að notfæra sér ólíka gildistíma samninga til að sundra hópum og veikja áhrif verkfalla. Slíkt er einungis til þess fallið að skapa vantraust og ófrið á íslenskum vinnumarkaði.

Síðastliðin 20 ár hefur launasetning þeirra hópa sem starfa á grundvelli sömu starfslýsingar falið í sér að þeir eru á sömu launum óháð stéttarfélagsaðild. Sambandið er því að breyta út af tuttugu ára hefð. Hér er um að ræða félagsmenn í okkar röðum sem sinna samfélagslega mikilvægum störfum um allt land, fólk sem er á talsvert lægri launum en almennt gerist á almennum vinnumarkaði og að meirihluta til konur.

Það er sveitarfélögunum sem stórum og ábyrgum vinnuveitendum til hreinnar minnkunar ætli þau sér staðfastlega að láta kjarasamningagerðina stranda á þessu atriði.

Kröfur BSRB eru að jöfn laun og kjör verði tryggð fyrir jafnverðmæt, sömu og sambærileg störf hjá sveitarfélögunum frá 1. janúar 2023. Jafnframt að launamismunur milli starfsfólks sveitarfélaga og starfsfólks Reykjavíkurborgar verði leiðréttur bæði hvað varðar grunnlaun og aukagreiðslur og loks að mismunandi greiðslur til sjóða félaganna frá 2016 verði leiðréttar til jafns við aðra.

Sú afstaða samninganefndar sveitarfélaga að samþykkja ekki gildistíma samninga frá 1. janúar þýðir að launahækkanir félagsmanna fyrir árið 2023 yrðu að meðaltali 25% lægri en ella. Þetta má meta til um 140.000 króna sem starfsmaðurinn verður af, miðað við aðra í sambærilegu starfi.

Þetta er óbilgjörn afstaða gagnvart fólki sem vinnur hlið við hlið á leikskólum, í grunnskólum, íþróttamannvirkjum, á heimilum fatlaðs fólks og áfram mætti telja.

Við skulum líka hafa í huga að launamismunun sem þessi stangast á við jafnlaunákvæði jafnréttislaga en lagaskylda hvílir á atvinnurekendum um að tryggja jöfn laun og kjör fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf, óháð kyni. Það er einfaldlega óheimilt að mismuna fólki í sambærilegum eða jafnverðmætum störfum í launum á grundvelli þess að mismunandi kjarasamningar gildi um kjör þeirra.

Starfsmenn sveitarfélaga, félagsmenn okkar, sjá sig knúna til að grípa til aðgerða við þessar aðstæður til að mæta óréttlæti við samningaborðið af festu og ákveðni. Þess vegna hafa atkvæðagreiðslur nú þegar hafist um verkfallsboðanir hjá tilteknum sveitarfélögum sem fyrsta skref aðgerða.

Við erum öll í þessari baráttu saman og munu 1500 manns taka þátt í aðgerðunum en samningarnir sem um ræðir ná til um 7000 félagsmanna í 11 aðildarfélögum BSRB. Við höfum sem leiðarljós að einn berst fyrir alla og allir fyrir einn. Baráttudagur verkalýðsins stendur svo sannarlega undir nafni í ár hjá félagsmönnum Kjalar sem starfa hjá sveitarfélögum og baráttu þeirra við samningaborðið.

Ég er þess fullviss að sem fyrr verður það samstaðan sem ber árangur í okkar baráttu. Samstaðan hefur alltaf verið okkar sterkasta vopn. Félagsfólki Kjalar stéttarfélags sendi ég baráttukveðjur í tilefni dagsins.

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður

Nýjast