20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Ávaxtahlaðborð í Samkomuhúsinu
Ég skellti mér í leikhús í Samkomuhúsinu í síðustu viku en Leikfélag Húsavíkur (LH) sýnir um þessar mundir Ávaxtakörfuna eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur í leikstjórn Valgeirs Skagfjörð. Frábær sýning krydduð tónlist eftir snillinginn Þorvald Bjarna Þorvaldsson.
Það fylgir því alltaf tilhlökkun að fara á sýningu hjá LH enda áhugaleikfélag í hæsta gæðaflokki. Að þessu sinni var spennan reyndar óvenju mikil enda allt of langt liðið frá síðustu sýningu út af dálitlu.
Sýningin olli ekki vonbrigðum, þvert á móti. Gott barnaleikhús er alltaf skemmtilegt og hér er vandað til verka. Í slíkum tilfellum er einföldun að tala um barnaleikhús því þetta eru þetta fjölskyldustundir af bestu sort. Enda flutu strákarnir mínir tveir með (8 og 11 ára) og móðir þeirra og ómögulegt er að segja til um hver skemmti sér best.
Ég er mikill fótboltaaðdáandi og oft er sagt að fótbolta lið séu ekki betri en veikasti hlekkurinn (samlíking sem á við um fleira en fótbolta). Í sýningu LH á ávaxtakörfunni var enginn veikur hlekkur, þó eflaust mætti segja að einhverjir hafi skynið sérstakleg skært.
Ávaxtakarfan fjallar um viðkvæmt efni, einelti og fordóma. Leikritið gerist í ávaxtakörfu þar sem allir eru kúgaðir af Imma ananas. Mæja jarðarber er minnst og verður fórnarlamb eineltis. En þegar gulrót kemur í ávaxtakörfuna tekur hún við hlutverki Mæju sem bitbein og verður fyrir barðinu á fordómum þar sem hún er grænmeti og því annarrar ættar en ávextirnir. Smám saman opnast augu ávaxtanna fyrir því að það er ekki útlitið sem skiptir máli heldur innrætið og allt endar vel að lokum.
Níu leikarar stóðu á sviðinu og auðveldlega má segja að þau hafi fullkomnað hvert annað. Karl Hannes Sigurðsson fer með hlutverk Imma Ananass. Karl Hannes er einn af reynsluboltum sýningarinna og athyglisvert að þetta annaláða ljúfmenni skuli oftar en ekki leika illmennið. Það er eflaust vegna þess að honum ferst það einstaklega vel úr hendi. Túlkun hans á Imma Ananas er þar engin undantekning. Án þess að draga úr frammistöðu annarra, þá stelur Karl Hannes senunni eins og honum einum er lagið. Krafturinn og öryggið í leik hans fékk mann alltaf til að sperra eyrun og auðvitað hlæja af innlifun, því þetta verk er jú fyrst og fremst fyndið og skemmtilegt.
Í áhugaleikhúsi er oft góð blanda af reynsluboltum og byrjendum. Leikgeta getur því stundum verið minni hjá einstaka leikurum en viljinn og leikgleðin þó það komi yfirleitt ekki að sök. Það er ekki tilfellið í Ávaxtakörfunni í meðförum LH, þarna er á ferðinni einstaklega hæfileikaríkur hópur ungra og aðeins eldri leikara sem búa yfir mismikilli reynslu. Eins og ég sagði áður, enginn veikur hlekkur.
Hilmar Valur Gunnarsson er annar reynslubolti sem fer með hlutverk hins klaufalega og meðvirka Græna banana. Hilmar er með hæfileika frá náttúrunnar hendi og fáir ef nokkrir sem eiga jafn auðvelt með að vekja upp hlátur. Hann er yfirleitt öryggið uppmálað og því ákaflega skemmtilegt að sjá hana leysa verkefnið að leika hinn geysióörugga Græna Banana. Það leysti Hilmar með bravúr. Svo er hann líka óskaplega sætur sem óþroskaður banani.
Valgeir Sigurðsson, Húsvíkingurinn frá Akranesi hef ég ekki séð á fjölunum áður en hann hefur þó leikið töluvert á Skaganum. Hann fer með hlutverk Guffa banana og er virkilega stór í þessari sýningu, kraftmikil frammistaða og hann sló ekki feilnótu í leik sínum enda leikhúsið honum í blóð borið.
Perurnar Palli og Poddi voru í höndum Unnar Lilju Erlingsdóttur og Kristnýjar Ósk Geirsdóttur, báðar kunnugleg andlit á fjölum Samkomuhússins á Húsavík. Perurnar eru einstaklega líflegir og skemmtilegir karakterar sem þrá það að komast í lífvarðasveit Imma Ananas. Frábær frammistaða hjá þeim báðum. Gaman að sjá hvað Kristný er orðin góð að leika með andlitinu en hún býr greinilega yfir fjölbreyttu galleríi af svipbrigðum sem skila sér ótrúlega vel í þessu verki.
Unni hef ég séð áður á sviðinu og alltaf haft gaman af henni. Hún verður bara betri og betri. Öryggið í leik hennar hefur aldrei verið meira og leikgleðin smitaðist út í salinn.
Friðrika Bóel Ödudóttir er ung og upprennandi leik- og söngkona. Hún fer með hlutverk Mæju jarðabers sem er kannski eitt mikilvægasta og flóknasta hlutverkið. Mæja er kúguð og niðurbrotin í byrjun sýningar en umbreytist þegar eineltið berst að öðrum. Það er jafnvægislist að túlka slíka umbreytingu í sýningu sem tekur einn og hálfan tíma. Friðrika Bóel fipast aldrei og þvílík söngkona. Vá!
Kiddý Hörn Ásgeirsdóttur hef ég ekki séð á fjölunum áður en hún fer með hlutverk Geddu Gulrót sem birtist óvænt í Ávaxtakörfunni og verður umsvifalaust skotspónn eineltis og kúgunar. En Gedda lætur ekki bjóða sér það. Kiddý er afar trúverðug í því hvernig hún af yfirvegun og kærleika bindur enda á eineltið í ávaxtakörfunni með aðstoð Mæju. Og söngur hennar hitti mig beint í hjartastað.
Katrín Ragnarsdóttir er líklega ekki þekkt af hégóma, en hún leikur sér að því að túlka hégóma Evu appelsínu í öðru veldi. Hún fer vel með hégóma dífuna Evu og vex með hverri mínútu sýningarinna. Einnig önnur stórsöngkona sýningarinnar þar sem háu tónar hennar eru henni sem leikur einn.
Að lokum er vert að minnast á Bergdísi Björk Jóhannsdóttur, önnur ung leikkona sem hefur sviðslistina í blóðinu. Hún er stuðbolti sýniginarinn í hlutverki Rauða eplisins enda þýtur hún um á rafhlaupahjóli meira og minna alla sýninguna. Ég vona innilega að Bergdísi verði sem oftast á fjölunum ýmist í leik eða söng því þar á hún svo sannarlega heima. Gleðin sem geislaði frá henni var ósvikin og fór sem stormsveipur um salinn.
Ég hef talað talsvert um söngatriðin nú þegar en það er ekki að ástæðu lausu. Valgeir Skagfjörð hefur hér gert magnaða hluti í að stilla saman samspil söngs og tónlistar, með því betra sem ég hef séð undan farin ár hjá LH. Enda einvalalið tónlistarfólks í húsbandinu.
Hljómsveitina skipa Sigurður Illugason, Guðni Bragason, Adrienne Davis og Ísak Már Aðalsteinsson.
Þessum pistli er ekki hægt að ljúka án þess að minnast á þann fjölda fólks á bak við tjöldin sem hefur lagt á sig ómælda vinnu til að vel megi takast. Þetta eru allt frá grunnskólabörnum upp í eldri reynslubolta með áratugi á bakinu úr leikhúsinu. Án þeirra yrði ekkert leikhús. Klöppum sérstaklega fyrir þeim þegar við mætum á Ávaxtakörfuna. Og ef þú hefur ekki nú þegar séð þetta skemmtilega verk. Skelltu þér þá sem fyrst. Þú verður ekki svikinn.
Egill P. Egilsson