Vísindafólkið okkar - Grænmetisæta með einlægan áhuga á pólitík og vísindaskáldsögum

Vísindamanneskjan í ágúst er Adam Fishwick, rannsóknarstjóri við Miðstöð doktorsnáms og stjórnsýslu …
Vísindamanneskjan í ágúst er Adam Fishwick, rannsóknarstjóri við Miðstöð doktorsnáms og stjórnsýslu rannsókna ásamt því að vera gestaprófessor við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri. Mynd UNAK

Vísindafólkið okkar er mánaðarleg kynning á vísindafólkinu okkar. Vísindamanneskjan í ágúst er Adam Fishwick, rannsóknarstjóri við Miðstöð doktorsnáms og stjórnsýslu rannsókna ásamt því að vera gestaprófessor við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri.

Vissuð þið að Rugby er ekki bara nafn á íþrótt?

Adam er uppalinn á Bretlandi, nánar tiltekið í bænum Rugby og kemur kannski lítið á óvart að þaðan er samnefnd íþrótt upprunnin. „Þar ólst ég upp og flutti svo til Brighton til að læra við háskólann í Sussex (the University of Sussex). Ég kláraði þar BA gráðu í alþjóðatengslum og þróunarfræði og mastersgráður í alþjóðastjórnmálahagfræði og rannsóknaraðferðum. Að því loknu fór ég í doktorsnám þar,“ segir Adam. Doktorsverkefnið hans var um efnahagsþróun og verkalýðshreyfinguna í Suður-Ameríku sem Adam segir að hafa verið afar góða reynslu, „þá fékk ég tækifæri til að vera í Argentínu og Chile í sex mánuði og vinna að verkefninu á staðnum.“

Adam byrjaði sinn feril í háskólaumhverfinu sem kennari árið 2011 og árið 2015 byrjaði hann í starfi við De Montford University í Leicester þar sem hann vann í sjö ár í stjórnmálafræði- og mannauðsstjórnunardeild. Þar kenndi hann meðal annars stjórnmálafræði og alþjóðatengsl. Árið 2019 fékk hann dósentstöðu og varð akademískur stjórnandi doktorsverkefna við skólann og í kjölfarið tók hann við starfi deildarstjóra.

Af hverju Ísland?

Fjölskylda Adams ákvað að flytja til Íslands eftir nokkur ár á flandri á milli Bretlands og Reykjavíkur. Ástæða flandursins er að konan hans Maryam ásamt tveim sonum bjó í Reykjavík. Þegar staða við HA bauðst greip Adam tækifærið og öll fjölskyldan flutti norður árið 2022.

„Ég hef gríðarlega gaman af ferðalögum enda komið víða við vegna vinnu og ég ferðast líka með fjölskyldunni. Svo horfi ég auðvitað á fótbolta og held með Stoke City. Það er samt ekki nóg að horfa og ég fer svolítið í ræktina,“ segir Adam um dægradvöl. Hann bætir við: „Ég les líka dystópískar vísindaskáldsögur og legg mikið upp úr því hér og á ferðalögum að finna góða vegan veitingastaði. Mælið þið með einhverju?“

Rannsakar bæði verkalýðshreyfingar og geiminn

Áður en Adam byrjaði sinn akademíska feril starfaði hann við margt. „Sextán ára gamall byrjaði ég að afgreiða fisk og franskar, vann við fatahreinsun í einhvern tíma, í leikfangaverksmiðju og seldi farsímaáskriftir til fyrirtækja svo að eitthvað sé nefnt.“

Aðspurður hvað kveikti áhuga hans á rannsóknarviðfangsefnum segir hann þó: „Ég hugsa að áhugi minn á mínu rannsóknarviðfangsefni, sem að miklu leyti hefur verið verkalýðshreyfingar og stéttarfélög, komi til vegna þess að ég hef til margra ára haft einlægan áhuga á pólitík. Það er svo áhugavert að sjá hvernig stéttarfélög og verkalýðshreyfingar hafa áhrif í alþjóðahagkerfinu. Undanfarið hefur áhugi minn aukist hvað varðar að rannsaka ólík form grasrótarstarfsemi óskráðs starfsfólks og er í samstarfi við kollega í Argentínu, Indlandi og Eþíópíu. Í Argentínu í dag er starfsfólk að stofna sameignarfélög til að taka yfir verksmiðjur sem hafa keyrt í þrot og eru þannig hluti af breytingum sem varða þjóðarhag. Mikilvægast þykir mér þó við alla rannsóknarvinnu að vitneskjan sem safnast sé nýtt áfram til uppbyggingar á viðeigandi stöðum.“

„Núna er ég að taka þátt í nýju rannsóknarverkefni sem skoðar þróun stefnumótunar, innanlandsstofnana og fjárfestinga tengt geimnum á norðurslóðum og hvernig sú þróun hefur samfélagsleg áhrif. Mín þátttaka í verkefninu er með áherslu á Ísland sem er ekki með sömu uppbyggingu hvað þetta varðar og Noregur og Svíþjóð, sem líka eru aðilar að verkefninu. Það er samt mikilvægt að skilja hvernig slíkt er uppbyggt og niðurstöður munu vonandi nýtast hér til framtíðar. Þetta er nýtt efni fyrir mér og heilt yfir er ég frekar spenntur fyrir þessu!“

Gervigreindin og aha mómentin

Adam hefur komið víða við í kennslu, allt frá alþjóðakenningum til félagsfræði þéttbýlis. Við HA hefur hann kennt þróunarhagfræði og hagfræði á Norðurheimskautinu.

„Þegar ég kenni þá finnst mér gaman að nota gagnvirkar og skapandi leiðir í kennslustofunni til að fá stúdenta til að hugsa gagnrýnt og byggja upp sjálfstraustið hjá þeim. Mér finnst svo mikilvægt að þau öðlist getu til að móta eigin sýn á efni,“ segir Adam um kennsluna og bætir við: „Að mínu mati er árangri náð þegar stúdentar geta sjálfir áttað sig á hvernig á að beita fræðunum á flókin viðfangsefni nútímans, til dæmis, þarf að endurhugsa skipulag virðiskeðja nútímans?“

„Svo viðurkenni ég að gervigreindin er orðin áskorun í kennslu, ég hef ekki áhyggjur af því að hún sé notuð í verkefnum heldur að notkunin muni þynna út lærdómsreynsluna. Gervigreindin getur aðstoðað við að koma fólki í gegnum efni en það dregur úr líkunum á svona „aha“ mómenti þegar virkilega er rýnt í efni. Það má segja að ég sé efahyggjumanneskja þegar kemur að gervigreindinni,“ segir Adam brosandi að lokum.

Heilræði: Það er ekkert sem heitir slæmt veður, bara óviðeigandi klæðnaður. Eða er það bara eitthvað sem Íslendingar segja mér þegar ég kvarta yfir veðrinu?

 

Nýjast