Vikublaðið kemur út í dag

Vikublaðið kemur út í dag eins og alla fimmtudaga og að vanda er farið um víðan völl í blaði vikunnar.

Meðal efnis:

*Mikil gróska er í Hörgársveit. Íbúum fer ört fjölgandi og ýmsar framkvæmdir í gangi. Horft er til þess að íbúar geti verið orðnir um 900 innan fárra ára og þessari fjölgun þarf að mæta með uppbyggingu innviða. Snorri Finnlaugsson hefur verið sveitarstjóri í Hörgársveit frá árinu 2015 og Vikublaðið ræddi við Snorra um uppganginn í sveitarfélaginu og hann sjálfan.

*Landsmenn hafa undanfarna daga fagnað frelsinu sem fylgir því að vera lausir úr höftum samkomutakmarkana. Húsavíkingar eru þar engin undantekning en á laugardagskvöldið var ríkti gleði og stemning á hafnarsvæði bæjarins.

*Landsmenn allir fagna afléttingum á aðgerðum vegna kórónuveirunnar en einn þeirra er Haukur Tryggvason sem um árabil hefur rekið Græna hattinn á Akureyri. Fjöldi tón­leik­a hafa fallið niður á Græna hatt­in­um vegna heims­far­ald­ursins en Haukur segir vel bókað nánast allar helgar fram að áramótum.

*Christian Schmidt kemur frá Bremen í Norður-Þýskalandi og er menntaður hagfræðingur. Hann kom upphaflega til Íslands sem ferðamaður og heillaðist af landi og þjóð. Hann dvelur á Húsavík í um níu mánuði á ári og starfar hjá Norðursiglingu. Christian er Norðlendingur vikunnar.

*Á þriðjudag fer fram íbúafundur á Húsavík þar sem kynntar verða mögulegar sviðsmyndir atvinnuuppbyggingar á Bakka. Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings segir aldrei verið jafn margir umræðufletir á mismunandi uppbyggingu mögulegra atvinnutækifæra.

*Sr. Svavar Alfreð Jónsson skrifar bakþanka vikunnar og Anna Hildur Guðmundsdóttir heldur um Áskorandapennann.

*Hjörleifur Valsson, fiðluleikari, stendur fyrir tónleikum ásamt Jónasi Þóri, orgel- og píanóleikara. Þeir verða í Akureyrarkirkju á föstudagskvöldið og í Þorgeirskirkju í Ljósavatnsskarði á laugardaginn. Rætt er við þá félaga í blaðinu.

Smelltu hér til að gerast áskrifandi.

Nýjast