Útilistaverkið Útþrá eftir Elísabetu Geirmundsdóttur afhjúpað

Útþrá eftir Elísabetu Geirmundsdóttur. Mynd: Ásgrímur Ágústsson/akureyri.is
Útþrá eftir Elísabetu Geirmundsdóttur. Mynd: Ásgrímur Ágústsson/akureyri.is

Á morgun, laugardag kl 12 verður útilistaverk eftir Elísabetu Geirmundsdóttur (1915 – 1959) afhjúpað við tjörnina í Innbænum, gengt Minjasafninu á Akureyri. Verkið er eftirgerð og stækkun af höggmyndinni Útþrá sem varðveitt er á Minjasafninu en afkomendur Elísabetar færðu safninu listaverksafn Elísabetar að gjöf á eitthundrað ára afmæli listakonunnar á s.l. ári.

Listaverkið er gjöf til Akureyrarbæjar frá fjölskyldu og velunnurum „Listakonunnar í Fjörunni“ og mun Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri veita verkinu viðtöku. Að afhendingu lokinni verður stutt dagskrá í Minjasafninu þar sem flutt verður hugleiðing um „Listakonuna í Fjörunni“, tónlistaratriði og ljóðalestur. Fram koma Elísabet Ásgrímsdóttir, Helga Kvam, Sveindís Marý, Lára Sóley og Hjalti, Inga Margrét Árnadóttir og Þórunn Ólafsdóttir.

Nýtt sýningarrými með nokkrum verkum Elísabetar verður tekið í notkun á Minjasafninu og boðið verður upp á léttar veitingar.  Allir hjartanlega velkomnir.

Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra, Akureyrarstofa, Norðurorka, Norðurmynd, Auður Magnúsdóttir, Minjasafnið og Listasafnið á Akureyri eru m.a styrktar- og stuðningsaðila verkefnisins.

Nýjast