20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Ungmennafélagið Æskan á Svalbarðsströnd fær gamla áhaldahúsið til afnota
„Við stefnum að því að efla mjög félagstarfið í sveitarfélaginu og hlökkum mikið til að taka húsið í notkun,“ segir Birgir Ingason gjaldkeri Ungmennafélagsins Æskunnar á Svalbarðsströnd. Fyrr í sumar var gert samkomulag á milli Æskunnar og sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps um afnot félagsins að hluta húsnæðis við Svalbarðseyrarveg 8, sem er fyrrum áhaldahús sveitarfélagsins. Nú standa endurbætur yfir, „og það eru allir boðnir og búnir að liðsinna okkur eins og kostur er,“ segir Birgir.
„Þetta er stórt og spennandi verkefni og við erum þegar byrjuð að taka til hendinni og rífa út úr húsnæðinu og hanna upp á nýtt eftir okkar þörfum. Þörf er á miklum endurbótum á húsinu og mikil vinna framundan við þær. „Við höfum leitað til sveitunga okkar sem eru meira en til í að vera með í þessu. Það er líka mikið um að fólk býður upp á alls konar hluti sem liggja ónotaðir í geymslum en nýtast okkur mjög vel,“ segir Birgir.
Vaxandi áhugi fyrir pílu
Æskan býður upp á pílu, blak og hlaup fyrir börn og fullorðna ásamt því að halda utan um folf völlinn og Æskudaginn. Birgir segir að með nýrri og betri aðstöðu verði unnt að bjóða upp á betri aðstöðu t.d. í pílu, en bullandi áhugi sé fyrir íþróttinni í sveitarfélaginu. Þar sé engin aldurshópur undanskilinn, börn, ungmenni og fullorðið fólk stundi íþróttina og hafi notið þess að eiga gott bakland hjá Píludeild Þórs.
Húsnæðið er ríflega 100 fermetrar að stærð og fær píluaðstaðan annan af tveimur sölum sem fyrir eru í húsinu, en í hluta hússins er einnig starfrækt klippistofan Hárið 1908.
„Við stefnum á að klára að gera húsnæðið upp fyrir jól, en byrjum á að taka pílusalinn í gegn og vonandi næst að opna glæsilega nýja pílu aðstöðu með haustinu,“ segir Birgir.
Viljum nýta húsið sem best
Þá segir hann að stefnt sé að því að bjóða upp á fjölbreytta viðburði þegar fram líða stundir og allt er orðið klár. Þar megi nefna viðburði á tjaldi í beinni útsendingu, borðspilakvöld, pöbbkviss og tónlistarviðburði svo dæmi séu tekin. „Við viljum nýta þessa aðstöðu sem best og þannig að sem flestir geti átt góðar stundir í heimabyggð.,“ segir hann og er ekki í vafa um að nýtt húsnæði muni efla mjög félags- og íþróttastarfið hjá Æskunni.
Gamla áhaldahúsið á Svalbarðseyri sem nú gengur í endurnýjum lífdaga.
Nýtt utanvegahlaup á næstu sumarsólstöðum
Í sumar stofnaði Æskan hlaupahóp sem hefur gengið vel og er mikill áhugi á hlaupum í sveitarfélaginu. Næsta sumar mun Æskan formlega stofna nýtt utanvega keppnishlaup í samstarfi við Skógarböðin, Sólstöðuhlaupið og verður það haldið á sumarsólstöðum 21. júní 2025. „Það verður í okkar bakgarði, Vaðlaheiðinni,“ segir Birgir. Prufuhlaup vegna hins væntanlega Sólstöðuhlaups verður 14. september næstkomandiog eru öll velkomin að taka þátt. Hlaupið verður ræst á Svalbarðseyri og endar við Skógarböðin. Skráning mun fara fram á heimasíðu Æskunnar, https://www.aeskan.com, í lok ágúst.