Túndran og tifið á Sléttu
Þann 4. júlí næst komandi opnar athyglisverð listasýning í Óskarsstöð á Raufarhöfn og mun standa yfir til 11. ágúst. Það er Julie Sjöfn Gasiglia sem hefur stýrt verkefninu.
Sýningin „Túndran og tifið á Sléttu“ hverfist um Melrakkasléttu og þær breytingar sem hafa þegar orðið og munu senn verða á bæði lífríki og jarðvegi landsvæðisins, sem afleiðing hamfarahlýnunar.
Þátttakendur sýningarinnar samanstanda af fjölbreyttum hópi reynslumikilla listamanna: myndlistarmanna, tónskálds, hljóðfæraleikara og hönnuðar.
Sýningarverkefnið er unnið í samstarfi við Menningarfélagið Heimsenda og Rannsóknastöðina Rif. Vísindafólk hefur safnað saman gögnum um landsvæðið
og verður sá gagnabanki aðgengilegur listamönnunum. Þeir munu móta verk úr gögnunum og miðla þeim á samsýningunni sem opnar 4. júlí.
Ósæð verkefnisins er Óskarsbraggi, veglegt timburhús á Raufarhöfn, sem mun hýsa sýninguna. Húsið hefur verið í uppbyggingu undanfarin ár og er stefnt að því að það verði sannkölluð menningarmiðstöð. Það tengir verkefnið við brothætta byggðarsögu Raufarhafnar – hnignun og uppgang.
Verkefnið hófst formlega sumarið 2022, þegar hópurinn kom saman í tæpa viku til að kanna aðstæður, kynnast umhverfinu og hvert öðru. Ári síðar eða núna í sumar var síðan haldin vikulöng vinnustofudvöl á Melrakkasléttu, þar sem sá grunnur sem þegar var grafinn var steyptur. Þá styrktust tengsl þátttakenda við nærsamfélagið; náttúruna, heimamenn, vísindafólk og sveitarstjórn.
Melrakkaslétta býr yfir náttúrufegurð og menningarsögu sem mikilvægt er að unnið sé með á vettvangi listarinnar á þeim umbrotatímum sem loftslagsbreytingar eru. Sléttan heyrir til Norðurheimsskautasvæðisins en afleiðingar hlýnunar eru meiri og hraðari á vistkerfi þess heldur en önnur vistkerfi jarðar. Þar sem Melrakkaslétta er einn af fáum stöðum í heiminum sem hægt er að keyra inn á Norðurheimsskautasvæðið er það tilvalin staðsetning fyrir Rannsóknarstöðina Rif, stofnun sem kemur að verkefninu.
Pedro Rodrigues, forstöðumaður Rifs, sér um að veita þátttakendum gögn, tól og ráðgjöf um ástand lífríkis og náttúru staðarins. Þverfagleg nálgun þessa verkefnis á túlkun og miðlun loftslagsbreytinga á Norðurslóðum er einn af helstu
styrkleikum þess.
Sýningin opnar klukkan 18 og Klukkan 20 verður gengið í norðlenskri sumarblíðu út í lýsistankana þar sem Berglind María Tómasdóttir flautuleikari kveikir sinn galdur.