Tonnatak og Drengurinn Fengurinn í samstarf

Hljómsveitin Tonnatak og Drenguinn Fengurinn. Myndir/Aðsendar
Hljómsveitin Tonnatak og Drenguinn Fengurinn. Myndir/Aðsendar

Út er komin þriggja laga platan Tímalaus snilld sem er samstarfsverkefni rokksveitarinnar Tonnataks og listamannsins sem kallar sig Drengurinn Fengurinn

Á vormánuðum ársins 2023 var sett fram sú hugmynd í kaffisamsæti hljómsveitarinnar Tonnataks að véla til sín listamanninn Drenginn Fenginn í samstarfsverkefni. Markmið hljómsveitarinnar var að nýta sér frægð Drengsins til að ýta undir eigin frama. Drengurinn fengurinn sló til og í júnímánuði sama ár var hann boðaður á æfingu með meðlimum Tonnataks. Á þessari æfingu urðu til drög að Tímalausri snilld og tekin sameiginleg hljómsveitamynd sem prýðir umslag plötunnar.

Kristján

Snemma í ferlinu þróaðist hugmyndin út í þriggja laga plötu þar sem Tonnatak tæki fyrir lag eftir Drenginn Fenginn, Drengurinn Fengurinn tæki fyrir eitt lag úr smiðju Tonnataks en rúsínan í pylsuendanum væri lag unnið í sameiningu.

Viku síðar var Drengurinn Fengurinn klár með útgáfu af Ellihrelli, en meðlimir Tonnataks enn að velja lag frá Drengnum. Að lokum varð lagið Gangstéttarnar eru mínar fyrir valinu, en það krafðist þrotlausra æfinga að ná góðum tökum á því. Upptökur af því fóru fram síðar um sumarið.

Alltaf var þó lagið sameiginlega óklárað, á þessu tímabili var Drengurinn fengurinn að öðrum ólöstuðum líklega afkastamesti tónlistarmaður þjóðarinnar og Tonnatak vann sín verkefni  á sínum hraða. Drengurinn gaf út 28 plötur á árinu 2023 og hefur gefið út 5 það sem af er þessu ári, á sama tíma hefur Tonnatak gefið út þrjú lög. 
Kristján
Loks var boðað til hljóðvers þann 10. júní síðastliðinn. Haukur Pálmason var fyrstur og setti taktinn fyrir þá sem eftir fylgdu, bassaleikarinn Þorsteinn Gíslason reið svo á vaðið, á gítara spiluðu Daníel Starrason og Egill Logi Jónasson og svo syngja Egill Logi og Kristján Pétur Sigurðsson, hvor með sínu nefi. Haukur Pálmason sá um upptökustjórn og hljóðblöndun. Texti lagsins er lofsöngur um lífið og okkur lukkunar fólk sem fær að taka þátt í því.

Tonnatak eru Kristján Pétur Sigurðsson, Þorsteinn Gíslason, Haukur Pálmason og Daníel Starrason.

Drengurinn Fengurinn er Egill Logi Jónasson.

Útgáfan Tímalaus Snilld er þriggja laga plata:
1 - Tonnatak og Drengurinn Fengurinn - Tímalaus snilld
2 - Drengurinn fengurinn - Ellihrellir
3 - Tonnatak - Gangstéttarnar eru mínar

Nýjast