20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Til hamingju með Afmælið Völsungur
Íþróttafélagið Völsungur heldur upp á 90 ára afmæli sitt í dag. Í tilefni afmælisins verður haldin afmælissýning í Menningarmiðstöð Þingeyinga (Safnahúsinu). Sýningin verður opnuð kl. 17:00.
Þema sýningarinnar er Völsungur og samfélagið þar sem skoðað er hvernig samfélagið mótar íþróttafélag og hvernig íþróttafélag mótar samfélag. Sýningarstjóri er Röðull Reyr Kárason. „Ég hef reynt að leggja áherslu á upphafið og þann rauða þráð sem þá varð til, þ.e. áherslan á öflugt félagsstarf og tengingu Völsungs við samfélagið,“ segir Röðull
Í dag er jafnframt borið í hús á Húsavík afmælisrit Völsungs. Um er að ræða veglegt rit þar sem litið er yfir farinn veg og viðtöl birt við áhrifamiklar persónur í sögu félagsins.
Blaðamaður Skarps leit við vallarhúsinu í morgun þar sem boðið var upp á upp á köku og kaffi í tilefni dagsins. Þar var margt um Völsunga, bæði unga og gömla sem gæddu sér á veitingunum og rifjuðu upp gamla tíma og nýja. Húsið opnaði laust fyrir tíu og stendur opið eins lengi og þurfa þykir.