Sunnudagsviðtalið Greindist sem geimvera og stofnar leiklistarskóla

Pétur og Hulda Hrönn Ingadóttir eiginkona hans, ,,hún er kletturinn minn
Pétur og Hulda Hrönn Ingadóttir eiginkona hans, ,,hún er kletturinn minn" segir Pétur. Myndir úr safni og Hilmar Friðjónsson

Pétur Guðjónsson hefur komið víða við í menningarlífinu á norðurlandi. Leiklistin hefur þar verið fyrirferðamikil en hann hefur glímt við stórt verkefni að undanförnu, eitt það stærsta að hans sögn; að vinna sig úr kulnun. Í sunnudagsviðtalinu deilir hann með okkur ferðalaginu upp úr kulnun sem er  að hans sögn eins mismunandi og við erum mörg.

 

Persónulegt hrun

,,Í fyrstu hélt ég að þetta væri eingöngu ofkeyrsla sem kallaði á hvíld í svona viku. Það átti eftir að reynast ótrúlega rangt. Ég var vissulega búinn að hlaða talsverðu á mig og var með mörg verkefni en það var ekkert nýtt. Eitthvað var það sem ýtti mér fram af brúninni og einn morguninn hélt ég að ég væri að deyja. “

Svona segir Pétur frá því þegar líkaminn sagði stopp einn morguninn í janúar árið 2023. Hann var heima að koma sér út í daginn og þá kom áfallið, sem hann segir að hafi verið virkilega óþægilegt. 

,,Þetta var í seinni hluta janúar, við vorum nýkomin úr vikufríi frá Tenerife, ég og Hulda konan mín og ég þóttist heldur betur klár í slaginn. En það reyndist öðru nær og þennan morgun fékk ég áfallið þar sem ég hélt að ég væri að deyja. Svitnaði, með hraðan hjartslátt og stóð ekki í fæturna. Það sem hjálpaði mér mikið var að Hulda mín starfaði á bráðamóttöku og hjálpaði mér að skilja að þetta væri kvíðakast.”

Þarna segir Pétur að allt hafi hrunið, líkaminn gaf sig, taugakerfið hrundi og sjálfstraustið fór algjörlega. Þennan dag aflýsti hann öllum verkefnum, fékk bráðatíma seinnipartinn hjá HSN þar sem honum var sagt að hann væri bara kominn á vegg. 

,,Þennan dag varð ég bara hálfgert zombie og Hulda fór með mig Eyjafjarðarhringinn því ég treysti mér ekki til að keyra eða gera nokkuð. Ég gat samt illa setið kyrr, var órólegur en samt ekki með orku til að ganga meira en 10 skref. Það sem var raunar verst var að ég vissi ekki hvað var að gerast og tilfinningarnar voru í rugli.”

Í hönd fóru svo nokkrir dagar af engu eins og Pétur orðar það. 

..Ég átti tíma hjá heimilislækninum mínum eftir 10 daga þegar áfallið varð og það var svona fyrsta viðmið, að ég færi í veikindaleyfi fram að því og svo myndum við meta stöðuna. Ég ákvað því að hvíla mig rosalega vel og reyndi að sjálsögðu að mastera það.”  Hann segir að líðanin hafi strax orðið miklu betri við svefn og hvíld sem gerði það að verkum að sektarkenndin blossaði upp fyrir að vera ekki að vinna, vera bara aumingi sem þoldi ekkert mótlæti. Dagarnir voru eins og íslenska veðrið, frábærir með morgunkaffinu, úrvinda um hádegi og í völundarhúsi seinnipartinn. 

,,Ég streyttist enn á móti og viðurkenndi ekki að ég væri svona langt leiddur. Varð þó að viðurkenna það þegar ég, rúmlega fimmtugur og hafði búið alla tíð á Akureyri, fann ekki Miðhúsabrautina á ferð minni um bæinn. Það var hræðilegt, því þá leið keyrði ég nánast daglega í og úr vinnu. Þetta var bara hluti af minnisleysi sem hrjáði mig á þessum tíma. Mundi ekki nöfnin á fólki eða náði jafnvel ekki orðum til að mynda setningu ”

Það var þarna sem Pétur horfðist í augu við að ástandið væri sennilega ekki alveg eðlilegt en það vantaði samt enn töluvert upp á að hann horfðist fullkomlega í augu við það. 

 Leikstjórinn Pétur Guðjónsson

Miðaldra, gremju-og geðvonskukarl

Hann segir að allt í kringum hann hafi fólk sagt að 10 dagar hefðu ekkert að segja þegar unnið væri úr svona áfalli en hann hefði nú illa trúað því.

,,Mér var sagt að þetta tæki eitt til tvö ár og að ég gerði þetta ekki einn, þyrfti aðstoð út úr þessu. Það fór bara í taugarnar á mér og ég hugsaði; hvað vita aðrir hvernig mér líður? Fór í algjöra vörn og var ógeðslega pirraður. Spólaði um í eigin gremju og sjálfsvorkun í nokkurn tíma, þar til ég lét til leiðast. Þannig að ég fór, fullur af gremju og pirringi, að leita mér hjálpar en þar fór af stað eitt mesta gæfuspor í mínu lífi. “

Þar fór af stað mikið dóminó áhrif því hann segir að hálfrar aldar uppgjör við sjálfan sig hafi farið af stað.

,,Ég hætti að drekka áfengi í ársbyrjun 2017 og tók þar vissulega gæfuspor en hefði þá þurft að fara í einhverja sjálfsvinnu sem ég gerði ekki nema að litlu leiti. Að segja skilið við áfengi var samt ofsalega mikið gæfuspor því ég komst að því eftir fertugt að það hentaði mér ekki. Ég drakk líka of mikið og stundum illa því með áfenginu fór allur kvíði en kom svo margfalt til baka daginn eftir sem endaði með því að ég gat ekki horft framan í heiminn. Þá varð ég að hætta.”

Það var því í mars, tæpum tveimur mánuðum eftir áfallið að Pétur fór af stað í leit að hjálp. 

,,Það fyrsta sem kom upp í hausinn á mér var að leita til góðrar vinkonu sem er fjölskylduráðgjafi komin á aldur, sem tók á móti mér og benti mér á leiðir. Síðan fór allt af stað, ég komst í Virk, fór frá ráðgjafa til ráðgjafa og í alls konar greiningar. “

Hann segir meðferðina hjá Virk vera mjög einstaklingsmiðuð. Stundum þarf að ýta fólki út í vinnu en í hans tilfelli hefði þurft að toga hann niður. 

,,Ég átti mjög erfitt með að bíða með að setja bara allt á fullt. Þurfti alveg að leggja mig fram við að vera bara en ekki stökkva í eitthvað starf eða verkefni. En eins og ráðgjafinn minn sagði, þá er enginn eins og miða ætti við hvern og einn. Því varð úr að ég fór af stað með hlaðvarpið Það er alltaf þriðjudagur, svona til að fá útrás fyrir sköpunina án þess að kafffæra mér. “

 

Vertu góður við þig

Pétur segir að hjá Virk séu ráðgjafar en þar er líka leitað leiða til að fá aðstoð sem er ekki innan veggja Virk, hvort sem það er sálfræðingur, jógatími, námskeið til að takast á við streitu eða eitthvað annað, fyrst og fremst það sem hentar hverjum og einum. 

Honum var bent á ráðgjafa sem er fjölskylduráðgjafi en einnig markþjálfi. 

,,Það er ekki síst mikilvægt að finna ráðgjafa sem hentar þér og ástandinu. Í mínu tilfelli var það algjört heillaskref að hitta Geirlaugu G. Björnsdóttur sem hjálpaði mér alveg gríðarlega mikið. Í fyrsta tíma sem ég fór til hennar, var ég alveg í klessu og man svo sem ekki mikið, nema að tíminn endaði á því að hún sagði; vertu góður við þig! Þetta var hugtak sem mér hafði nú sjaldnast dottið í hug. Það er svo merkilegt hversu vond við erum oft við okkur sjálf, þrátt fyrir að vera kannski sérhlífin, sem er allt annað. Ég hef alltaf talið mig vera sérhlífin og góður við sjálfan mig en komst að því að ég var það bara alls ekki.”

Þarna varð ákveðinn vendipunktur og í framhaldinu fór mikil sjálfsvinna af stað. Það var þó ekki svo að það væri eintóm sæla og stundum þarf að horfast í augu við drauga fortíðar og sætta sig við ýmislegt. 

,,Það kom svo margt í ljós og skýringar á svo mörgu. Til dæmis áttaði ég mig á því að hversu skýrt samhengi er á milli ónæmiskerfis og andlegrar heilsu. Sem barn var ég rosalega oft veikur en það var fyrst og fremst vegna þess að ég fúnkeraði ekki í samfélaginu. Mesta sjokkið var samt þegar ég komst að því að drifið hjá mér hefur alltaf verið ótti. Ég er alltaf tilbúinn að bregðast við hættunni, svona eins og frummaðurinn sem er tilbúinn að hlaupa þegar ljónið ræðst á hann. Svoleiðis getur aðeins leitt til andlegs gjaldþrots.”

Síðustu mánuði hefur Pétur verið hjá Virk og þar hefur verið vel haldið utan um hann.

,,Hef verið í rúmt ár hjá Virk með aðgang að ráðgjafa sem hefur sannarlega hjálpað mér. Þar hef ég fengið alls konar aðstoð í formi ráðgjafar, námskeiða ýmis konar og fleira ásamt leiðsagnar sem hefur fært mig nær fúnkerandi lífi.”

Þetta hefur verið krefjandi ferli að hans sögn og oft hafi hann verið að gefast upp. 

,,Mig langaði stundum að fara bara á fullt í vinnu og hætta þessu, það hefði verið auðveldasta skammtímalausnin en auðvitað bara til skamms tíma. Það sem kom mest á óvart var, að þegar maður byrjar að grafa þá dýpkar alltaf holan.”  Þar vísar hann í þá vinnu sem farið var í til að skoða sjálfan sig og að þar hafi verið miklu meira að skoða og takast á við en í fyrstu leit út fyrir. 

Aðspurður um stöðuna í dag, í byrjun júní 2024 segir Pétur stöðuna nokkuð góða en flókna.

,,Það sem brenndi mig upp var leiklistin og allt sem því fylgir. En það sem nærir mig mest er að vinna með ungu fólki í leiklist. Það er hægt að takast á við ýmislegt í lífinu og hætta því, eins og til dæmis að drekka áfengi, þú bara hættir. En matarfíkill er í verri málum því þú hættir ekki að borða. Þetta er ekkert ósvipað. Ég get illa lifað án leiklistar eða sköpunar svo ég þarf að finna mér nýjar leiðir.”

 Mikilvægt að þora að vera góður við sig

Nálgast verkefni sem keppni - og þolir ekki að tapa

Hann segir að keppnisskapið sé oft erfitt því hann sér öll verkefni sem keppni. Því ef hann gerir mistök og verkefnið gengur ekki vel, þá er hann búinn að tapa. 

,,Ekki síst þegar eitthvað á undir högg að sækja þá fyllist ég einhverri þrjósku að bæta það upp. Eins og til dæmis að vinna hjá Leikfélagi Akureyrar í leiklistarskólanum þar. Þegar ég byrjaði þar 2020 var heldur betur sparkað í klárinn til að gera leiklistarskólann öflugan. Það var vissulega frábært starf með æðislegu fólki en það átti alltaf aðeins undir högg að sækja. Við þvældumst á milli húsnæða eins og skólinn var hálfgert olnbogabarn. Þetta var líka í covid sem hafði auðvitað áhrif en að starfa af heilindum og brennandi áhuga í einhverju sem þarf að berjast fyrir tilverurétti, er ofsalega letjandi. Þó skal tekið fram að fólkið í LLA var og er frábært og ég held að þessi barátta sem ég talaði um, heyri sögunni til. Vonum það allavega.”

Meðfram starfinu hjá LLA var Pétur einnig viðburðastjóri hjá Verkmenntaskólanum og Akureyri, þar sem hann hóf störf haustið 2014. Þá var starfið nýlegt, þar sem ákveðið var að fá utanaðkomandi aðila í félagslífið þar sem áður voru kennarar eða starfsfólk innan skólans sem starfaði að þeim málum.

,,Mér þótti afar skemmtilegt að koma í VMA en áður hafði ég tekið að mér leikstjórn hjá Leikfélaginu Yggdrasil. Mér fannst ekki síst spennandi að efla leikfélagið og þar setti ég vissulega töluverðan fókus. Enda tókst það, þar sem áhorfendafjöldi fór úr 300 í 3000 á stuttum tíma á hverju leikverki sem var sett upp. Það þótti keppnismanninum skemmtilegt en gallinn var að ég setti mikið púður í vinnuna sem var aðeins 50% starfshlutfall og þá var eftir að draga fram lífið á öðrum vetvangi sem oftast var leikstjórn á öðrum stöðum og svo hjá LLA. Þannig að stundum var ég í 200% starfi.”

Þetta gekk í nokkurn tíma hjá Pétri þar sem hann hljóp á milli staða og var jafnvel að leikstýra í Skagafirði þar sem hann keyrði á milli. 

En aftur af starfinu í VMA þar sem Pétur var starfandi í nær 10 ár. Hann segir að það hafi verið góður og gefandi tími en virkilega slítandi. 

,,Að starfa á vinnustað sem er alltaf í vörn og fjárhagsvanda er ekkert sérlega hvetjandi. Þó svo að félagslífið í VMA sé öflugt og fjölbreytt, þá finnur maður líka hvað krakkarnir þurfa að leggja mikið á sig til að vera í félagslífinu eftir styttingu framhaldskólanna. Ég var auðvitað algjörlega með fókusinn á félagslífið því þar nær unga fólkið mjög miklum þroska á þessum mótunarárum, ekki síður en í náminu. En ég átti samt frábæran tíma í VMA og skólameistari og aðstoðarskólameistari, þau Sirrý og Bensi eru frábær og reyndust mér vel. Stundum skil ég reyndar ekki hvernig þau og aðrir stjórnendur innan VMA, komast yfir daginn í öllu þessu peningaþrasi. En það er allt önnur saga. Hins vegar sá ég í byrjun þessa árs að ég hafði ekki meira að gefa í VMA og fann að ég var þakklátur fyrir tímann en hann var búinn þannig að ég sagði við skilið við starf mitt sem viðburðastjóri.”

 

,,Þú ert geimvera Pétur”

Á þessum tíma hefur Pétur farið í gegnum ýmsa ráðgjöf og líka greiningar. 

,,Ég fór í ADHD greiningu eins og svo margir núna og já ég greindist með slíkt. Kom mér svo sem ekkert á óvart þegar ég fór að hugsa út í það. En það sem var áhugaverðara var NBI greining sem ég fór í. Það er greining sem segir til um hvar þitt sérsvið liggur og svona hvernig þú ert. Og ég svo sem vissi að ég væri ekkert endilega eins og annað fólk en í þessari greiningu var mér tjáð að ég væri í raun bara geimvera. Áhugavert. Þarna er greint eftir litum og ég var fyrst og fremst gulur sem er litur sköpunar. Og það er alveg ofsalega gott að fá að vita það og sætta sig við það að ég á ekki séns í að vera eins og allir hinir. Ég er bara eins og ég er. Það er bara fínt að vera þannig þó það sé líka flókið. Ætli ég hafi ekki þarna gert mér fullljóst að samanburður er algjörlega glataður og gerir ekkert nema rífa mann niður. “

 

Aftur á fætur

Eins og áður segir hefur síðasta eitt og hálft ár hjá Pétri farið í sjálfsvinnu en hann hefur starfað í hlutastarfi hjá Isavia á Akureyrarflugvelli, í leiklistarkennslu hjá grunnskólum Akureyrar og svo sótti hann um styrk hjá SSNE um stofnum leiklistarskóla. Þannig að hann hefur alls ekki setið auðum höndum. 

,,Ég held að ég þurfi alltaf að vera að brasa eitthvað og það er lán að vera í einhverri vinnu. Í lok síðasta árs gat ég farið að dýfa tánni í smá vinnu hjá Isavia þar sem ég hef fengið gríðarlega mikinn skilning. Síðan í janúar fór ég aftur að kenna leiklistarval grunskólanna. Svo fékk ég styrk hjá SSNE til að rannsaka möguleika á því að halda úti leiklistarkskóla Draumaleikhússins, þar sem fókusinn er á aldurinn 16-25 ára. Er núna með aðstöðu hjá Akureyrarakademíunni að vinna í stofnun skólans og fer hann af stað í haust.”

Hann segir að margir hafi spurt sig hvernig hann ætli að stofna eitt stykki leiklistarskóla, án þess að brenna upp á fyrstu mánuðum? 

,,Það er svo sanngjörn spurning og ég skal bara vera hreinskilinn, ég get ekkert fullyrt að svo verði ekki. En, ég hef mikið af verkfærum sem ég hafði ekki til að takast á við hlutina. Við verðum bara að sjá en fyrstu námskeiðin verða í haust og þá mun þetta koma í ljós. Þetta er það sem nærir mig líka og vonandi fæ ég skilning hjá samfélaginu. Ég get alveg lofað því að þetta mun bæta bæði mig og samfélagið, verði Leiklistarskóli Draumaleikhússins öflugur. Ég sé þetta fyrir mér sem viðbót við félagslíf framhaldsskólanna en líka er þetta millistykki úr framhaldsskóla yfir í háskóla. Stundum koma einstaklingar úr framhaldsskólanum og vantar eitthvað á meðan þau vinna aðeins og finna leiðir í háskólanám. Ég ætla að grípa þann hóp. 

Í stóru framtíðarmyndinni verður Leiklistarskóli Draumaleikhússins nám sem skiptir verulegu máli með fjölbreytt námsframboð tengt leiklist sem getur gefið fólki og samfélaginu tækifæri. Þá er ég að meina, sjáðu bara í íþróttum, eins og Alfreð Gísla sem elst upp á Akureyri, fer út í heim en kemur til baka og lyftir upp handboltanum. Eða tökum annað dæmi: Atli Örvarsson stígur sín fyrstu skref hér og fer svo út í heim. Hann kemur til baka með fullt af verkefnum á Akureyri, þar sem Hof var allt í einu orðið framleiðslustaður fyrir tónlist í erlendum kvikmyndum. Þetta viljum við sjá í Leiklistarskólanum okkar, þar sem við búum til listamenn sem skila sér aftur hingað og glæða lífi í samfélagið og búa til enn fleiri tækifæri.

En auðvitað ætlum við líka að hugsa um félagslega þáttinn þar sem leiklist er ekki bara fyrir þá sem vilja fóta sig á stóra sviðinu, heldur fyrst og fremst að verða betri leikarar, nú eða bara manneskjur.

En þetta verður allt að koma í ljós og það er ekkert víst að þetta klikki. “ -segir Pétur Guðjónsson að lokum. 

 


Athugasemdir

Nýjast