Stórkostlegi bakgarðurinn okkar

Hilda Jana ásamt manni sínum Ingvari Má Gíslasyni og Isabellu dóttur þeirra eftir Akureyarhlaupið  2…
Hilda Jana ásamt manni sínum Ingvari Má Gíslasyni og Isabellu dóttur þeirra eftir Akureyarhlaupið 2023

Ég verð að viðurkenna að stundum tekur á að búa rétt við norðurheimskautsbaug, þrátt fyrir að snjórinn geti verið yndislegur, þá anda ég einhvern vegin alltaf léttar þegar hann loksins fer. Ég elska vorið enda gefur það fögur fyrirheit, snjórinn hörfar, gróðurinn skiptir um ham og fuglarnir syngja. Ég hef alltaf vitað að umhverfi okkar væri fallegt, en það var samt ekki fyrr en fyrir nokkrum árum sem ég fór að njóta þess af alvöru. Nú finn ég að það besta sem ég geri, bæði fyrir líkamlega og andlega heilsu, er að vera úti í náttúrunni, fá súrefni í kroppinn og koma púlsinum á hreyfingu. Þá er svo sannarlega ómetanlegt að hafa við túnfótinn jafn stórkostlegan bakgarð og við eigum og óteljandi frábæra stíga. Hér eru þær leiðir sem eru í uppáhaldi hjá mér:

 

1. Kjarnaskógur og Naustaborgir: Kjarnaskógur er einstök útivistarperla sem Skógræktarfélag Eyfirðinga á sannarlega heiður skilið fyrir að annast jafn vel og raun ber vitni. Stundum líður mér eins og það sé alltaf hægt að uppgötva nýjar og skemmtilegar leiðir á svæðinu. Þar er líka eiginlega alltaf logn! Það er í miklu uppáhaldi hjá mér að fara upp í Gamla og á góðum degi þykir mér óskaplega skemmtilegt að fara þaðan yfir í Fálkafell, sömu leið og farið er í Súlum vertical hlaupinu frábæra.

2. Glerárdalur: Þvílíkur dalur og valmöguleikarnir nokkrir. Lengsta leiðin er alla leið inn að Lamba, sem er meira en vel þess virði að leggja á sig á góðum degi. Það er þó líka skemmtilegt að fara stífluhringinn, frá Súlubílastæði og yfir ánna hjá stíflunni og Fallorkustíginn til baka.

3. Fálkafell: Útsýnið af fellinu er frábært. Það er hægt að velja nokkrar leiðir þangað, hvort heldur sem er frá bílastæði, ferjuleiðina frá Naustaborgum eða frá Súlubílastæðinu. Það hefur sannarlega verið líflegt í Fálkafelli það sem af er ári, en nú eru yfir 600 manns í facebookhópnum „100 ferðir í Fálkafell“ sem ég mæli með að taka þátt í og fara a.m.k. eina ferð.

4. Krossanesborgir: Þetta er merkilegt svæði, mýrar, tjarnir og milljóna ára gamalt basalt sem myndar berggrunn Akureyrar, en þar verpa líklega a.m.k. 27 tegundir fugla. Það er fínt að nýta bílastæðið við Óðinsnes, rétt fyrir neðan Byko.

5. Lögmannshlíðarhringurinn: Það er alveg magnað að fara upp að Lögmannshlíðarkirkju og þar áfram veginn til norðurs niður að Lónsá. Þar er maður hreinlega komin út í sveit, en samt einhvern vegin samt inn í bænum. Það má líka sleppa því að fara niður að Lónsá og fara frekar reiðveginn til baka og koma að Safírstræti, þar sem dýraspítalinn er. Þó ber að hafa í huga að sá hluti leiðarinnar er reiðleið og ber að taka tillit til þess.

6. Háskólasvæðið (Glerárgil): Svæðið er í raun alveg ótrúlegt, í miðjum bænum en samt einhvern veginn úti í náttúrunni. Skemmtilegur Folf völlur og Zip-line setja svip sinn á svæðið, en líka skemmtileg ganga eða skokk, en þetta er líka síðasti hluti Súlur vertical leiðarinnar.

7. Gömlu brýrnar yfir Leirurnar: Þessa leið er gott að fara ef að maður er í skapi fyrir að vera á flatanum, en komast samt út af malbikinu. Það er fínt bílastæði sunnan við flugvöllinn sem hægt er að nýta. Vindurinn á þó greiða leið á þessu svæði og því ágætt að hafa það í huga, en stundum er líka bara hressandi að verða smá veðurbarin.

8. Golfvöllurinn: Það er vel þess virði að ganga eða skokka stígana á golfvellinum. Stígarnir eru góðir og svæðið iðar oftast af lífi.

9. Stöðvarhús Fallorku: Það getur verið fínt að fara frá stöðvarhúsinu og eins langt og fólk er í stuði fyrir. Hægt er að fara með fram Gleránni framhjá svæði Bílaklúbbsins og Skotsvæðinu og þess vegna þaðan áfram allt inn að virkjun, eða bara snúa við hvar sem er.

10. Gamla Gróðrastöðin: Það er í raun hægt að fara hvaðan sem er, en fyrir ofan Skautahöllina við Miðhúsabraut er hægt að fara til suðurs með fram hitaveiturörunum. Þar má sjá gömlu Gróðrastöðina og matjurtagarða bæjarins. Hægt er að fara sömu leið til baka eða niður að þjóðveg og Drottningabrautarstíginn til baka.

 Fyrir þau sem hafa áhuga á útivist og vilja finna skemmtilegar göngu- eða skokkleiðir er gott að skoða heimasiðuna visitakureyri.is, þar er fín samantekt á fjölbreyttum leiðum, en flestar myndirnar eru fengnar þaðan: : https://www. visitakureyri.is/is/see-and-do/ Þar má líka fá upplýsingar um fjallgöngur og krefjandi leiðir í næsta nágrenni Akureyrar t.d. Súlur, Skólavörðu, Staðartunguháls, Uppsalahnjúk, Ystuvíkurfjall, Þingmannaleið yfir Vaðlaheiði og Steinmenn

Nýjast