Slæmt vor mjög líklega orsök lægri meðalvigtar
Meðalvigtin það sem af er sláturtíð hjá Kjarnafæði Norðlenska á Húsavík er 16,87 kg á móti 17,10 kg á sama tíma í fyrra.
Sigmundur Hreiðarsson framleiðslustjóri segir að gera megi ráð fyrir að hún lækki eitthvað í viðbót þegar líður á. „Hugsanlega er helsta orsök þess að meðalvigt er lægri nú í haust en var í fyrra, sú að frekar slæmt vor sem toppaði sig svo með mjög alvarlegu hreti í byrjun júní. Það sem menn óttuðust eftir hretið í sumarbyrjun er að raungerast hér nokkuð víða þ.e.a.s að fé er ekki að skila sér af fjalli og ljóst að margir bændur eru að verða fyrir töluverðum fjárskaða,“ segir Sigmundur.
Sigmundur Hreiðarsson framleiðslustjóri
Dreif gor á lokað landsvæði
Hann segir að sláturtíð gangi mjöl vel og samstarf við bændur og þá verktaka sem sjá um fjárflutninga, gordreifingu og fleira hafi verið til fyrirmyndar, „ásamt samstilltu átaki okkar ágæta starfsfólks, en allt þetta saman komið leggur grunninn að góðu gengi.“
Sigmundur segir að Kjarnafæði Norðlenska dreifi gor á lokað landssvæði í samstarfi við Landgræðsluna. Áætlað er að dreifa um 500 tonn af þeim áburði nú í ár. Samstarfið hafi staðið yfir í um 15 ár og skilað mjög góðum árangri. „Við reiknum með að hafa skilað til uppgræðslu um 6.700 tonnum sem er þokkalegt magn,“ segir hann.